Færslur: 2009 Júlí

28.07.2009 19:31

Íbúðarhúsið og ferðatöskurnar.

 
  Strákarnir sem voru að klæða húsið mitt að utan síðasta hálfa mánuðinn eru miklir indælisdrengir.

Það var samt óblandin ánægja þegar þeir tóku saman í dag og yfirgáfu svæðið.

 Nú sér loksins fyrir endann á gagngerðum endurbótum á öllu því sem út snýr á íbúðarhúsinu, sem ég byggði með miklum látum, á einu sumri fyrir 30 árum.

 Þakefnið sem var nýjung í þá daga og átti helst að endast nokkrar kynslóðir, var plasthúðað í lit og ef einhver skurfa kom á húðina var óðara kominn ryðblettur.


 Gústi og Óli loksins mættir í sveitina. Þökk sé kreppunni.

 Það var fjarska fallegt en ég var löngu búinn að taka ákvörðun um að henda því, áður en lekinn byrjaði fyrir alvöru.

  Smiðirnir sem ætluðu að drífa þetta af fyrir einhverjum árum sáust þó aldrei.

 Svo kom kreppa og þá urðu þeir allt í einu fullir af  umhyggju fyrir sveitavarginum. Fyrst skiptu þeir um alla glugga á mettíma og svo var ráðist á þakið.


 Atli fékk meira að segja vinnu dagstund við að koma þakjárninu niður og upp.



 Svo mætti sjálfur Göslarinn á svæðið og nú skyldi tekið á því.

 Eftir tveggja ára yfirlegu og vangaveltur um klæðningu utaná húsið var endað á því að setja flísar á kofann. Dálítið svona 2007, en  þetta var niðurstaðan. Eftirá hálfvorkennir maður öllum sölumönnunum sem voru að gera mér tilboð með hin margvíslegustu klæðningarefni.



 Það var pússað og lagað svo þetta yrði nú almennilegt.



 Markmiðið er að ég þurfi svo ekki á líta á nokkurn skapaðan hlut utanhúss hjá mér, allavega í þessu jarðlífi.



  Bara að nú fari ekki eins og með þakjárnið góða fyrir 30 árum.

En þangað til annað kemur í ljós verð ég mjög hamingjusamur með þetta.

 Og mín heittelskaða sem var farin að hafa í hótunum um,  að yfirgefa bæði mig og þennan ónýta húskofa er búin að taka uppúr töskunum. emoticon

 Reyndar skilst mér nú að það þurfi víst að gera eitthvað " smávegis " innandyra líka.

 Svo þegar það er búið þá??emoticon





27.07.2009 20:29

Sveitareiðin 2009.

  Sveitareiðin sem er orðin árlegur viðburður var farin á laugardaginn.

 Það var að sjálfsögðu rjómablíða eins og í fyrri reiðum en þetta er sú fjórða í röðinni.

Nú var Gullhringurinn okkar riðinn með smáútúrdúr og meiri og öðruvísi stoppum en hjá okkur orginal fjörulöllunum.


  Þó ógreinileg sé, sést hér lestin teygjast austur fjöruna eins og myndin nær.

 Það var á annað hundrað í hnakknum  og hér sést lestin koma vestur fjörurnar á leið í Suðurey.

Svona fjöldi er meira en heitu pottarnir ráða við í ferðalok svo það var boðið upp á fótabað í  Haffjarðarárósnum í staðinn.


 Hluti hópsins sést hér í logni og sól í sandgeilinni í Suðurey.

 Í Suðurey var langt stopp með rausnarlegum kaffiveitingum en þessar árlegu ferðir eru farnar í boði nokkurra Stórhöfðingja hverju sinni..

Allt um sveitareiðina á Heimasíðu Söðulsholts, hér.

24.07.2009 20:50

Danirnir og hundasjóið.


 Það varð vandræðaleg þögn hjá Dönunum þegar ég spurði hvort nokkur bóndi væri í hópnum.

 Svo glaðnaði yfir þeim á ný þegar ung stúlka upplýsti að afi og amma væru bændur.

Trúlega er hart í ári hjá dönskum kollegum mínum því enn hefur enginn bóndi verið í hópunum sem hafa komið til mín í sumar. Í fyrra voru alltaf nokkrir og í einum hópnum voru flestir bændur.

 Þessi bændaskortur hefur óneitanlega nokkur áhrif á spjallið sem er alltaf bæði á undan og eftir því, að ég sýni þeim hvernig  Border Collie hundarnir vinna að kindum.

  Þessar sýningar eru bundnar við eina ferðaskrifstofu og einungis fyrir þá hópa sem gista í Hótel Eldborg.

  Þau koma til mín á kvöldin eftir kvöldmatinn og það var dræm mætingin í fyrstu hópunum enda sögðu gætarnir mér að allir væru orðnir þreyttir eftir daginn og þetta höfðaði ekki til allra.

 Nú hljóta leiðsögumennirnir að gylla þetta eitthvað fyrir þeim því allur hópurinn mætir og ég fæ
víst 4 línur í ferðabæklingnum hjá þeim.

 Trúlega gæti ég verið í fullu starfi við þetta yfir sumarið miðað við þessar undirtektir og rútufjöldann sem fer hér framhjá daglega.

 Ég er fremur slakur með sýningarprógrammið enda er þetta yfirleitt fólk sem þekkir lítið til smölunar og hundavinnu.

 Stundum læt ég hundinn reka þríhyrninginn ( keppnisbraut í fjárhundakeppnum) en oft læt ég duga að vinna eitthvað með kindurnar nálægt fólkinu.



 Þó Vaskur sé alltaf nálægur er það Snilld sem ber hitann og þungann af sýningunum í ár.
Hér er hún að fara í fyrra hliðið í þríhyrningnum.



 Hér stýrir hún þeim inn í hliðið og síðan þarf hún að fara vinstra megin fyrir þær og koma þeim gegnum seinna hliðið.

 Þó það sé þýðingarmikið að fara þetta þráðbeint og fallega í fjárhundakeppni býður maður ekki Dönskum gestum upp á það, heldur verður að búa til einhver vandræði. Þeir sem hafa séð fjárhundakeppni vita að það er afar auðvelt.



 Hér eru kindurnar komnar útúr brautinni og Snilld  réttir þær af.



 Og í gegn fara þær við mikinn fögnuð áhorfenda.

 Það er eins með góða sýningu og góða vísu að endirinn á sýningunni eða síðasta línan í vísunni verða að vera góð ef einhver á að muna þetta.

 Vaskur sem fær að hjálpa til við að reka inn í réttina í lokin, og fær síðan stundum að taka þátt, ef ég hef fengið mjög skynsamlegar spurningar fyrir sýninguna, sér um að botna þetta fyrir mig.

 Hann styttir sér leið við að reka útúr réttinni og þetta framkallar alltaf mikil fagnaðarlæti.

Sérstaklega ef hann lendir ofaná hópnum.

Megið þið svo eiga góða helgi.emoticon

 

Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659697
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:14:19
clockhere