Færslur: 2010 Febrúar

26.02.2010 23:47

Fjöllin, fjórhjólin og við landníðingarnir.

   Nú eins og stundum áður hefur lifnað við umræðan um landverndina og landspjöllin.

 Eins og oftast áður á hún fullan rétt á sér, sérstaklega þegar öfgaliðið í báðar áttir hefur hægt um sig.

 Nú sem fyrr vill þessi umræða þó verða dálítið einsleit.

Á þvælingi mínum um fósturjörðina hef ég upplifað margvíslega meðferð á landinu.
Ég hef farið gamlar  þjóðleiðir milli bæja, sveita og landshluta. Þjóðleiðir sem voru fjölfarnar vel fram á síðustu öld.

 Sem betur fer er Kolbeinsdalurinn ekki riðinn með þessum látum nema einu sinni á ári, annars myndi hann láta á sjá.

 Þær leiðir sem sem eru alveg dottnar útúr notkun í dag eru nánast horfnar að mestu eða öllu leiti.
Það er ánægjulegt að upplifa það að flest  sár gróa um síðir.

Hinar sem hafa lent í því að verða tískuleiðir hestamanna eða göngufólks eru hinsvegar rækilega sýnilegar. Þar er ekki erfitt að finna jarðrask sem leiðir til til úrrennslis og landspillingar.

 Hestar og göngufólk hafa sömu viðleitni og torfærugengin á vélknúna dótinu, að leita uppúr djúpum förum og slarkinu þegar það myndast og breikka þannig slóðina.

 Það er orðin heil atvinnugrein að finna og selja nýjar gönguleiðir.Þetta er umhverfisvænn ferðamáti en setur engu að síður sín merki á landið.

 Þetta er meira draumatækið sagði bóndinn sem ég var staddur á hlaðinu hjá fyrir um 20 árum.
Ég held ég gæti ekki búið án þess í dag.

 Þau voru farin að reskjast hjónin, bjuggu með nokkur hundruð kindur og börnin farin að heiman.

Við vorum að virða fyrir okkur fjórhjólið hans.


Þetta er að vísu töluvert flottara enda 20 árum yngra og notagildið hefur líka margfaldast á þessum árum.

 Landverndin er margslungin og stundum verður erfitt að fóta sig í rökunum þegar allt er skoðað.



 Hér sést yfir hluta niðurlandsins í Dalsmynni og ljóst að hér er ekki lengur um ósnortið land að ræða. Þó ég sé enginn spámaður gæti ég trúað að ekki líði margir áratugir þar til þetta land verði allt nýtt í einhverskonar matvælaframleiðslu.

 Um helmingur jarðarinnar er fjalllendi sem er nýtt til beitar.

Fyrir tuttugu árum þurfti 6-8 manns að smala fjallið og það tók mann heilu dagana að hreinsa upp eftirlegukindurnar á þessum örafrétti.

 Nú eru ekki 6-8 manns í boði og fjallið er smalað af 2-3 á mun skemmri tíma.
Og eftirleitin er leikur einn.


Hér er ekið á fjallaslóða Dalsmynnis sem hvorki er á aðalskipulagi né kortum slóðavinafélagsins.

Það var um 1987 sem fyrsta flóðbylgjan af fjórhjólunum skall yfir og það voru fyrst og fremst bændurnir sem tóku þessum vinnutækjum fagnandi á þeim tíma.

  Á þessum árum síðan, hafa þessi tæki sett sitt mark á fjallendið þar sem þau hafa verið notuð.

Það eru komnar slóðir þar sem aðalleiðirnar liggja í leitir, girðingarviðhald eða grenjavinnslu.

Það er nær undantekningarlaust sameiginlegt með öllum þessum slóðum að ekki er um gróðurrof að ræða heldur troðningur sem myndast eftir þessar fáu ferðir sem farnar eru árlega um landið.

 Utan þessara aðalslóða er erfitt að merkja ummerki
eftir fjórhjólin sem stíga létt til jarðar.

 
        Kolólegur utanvegarakstur á dráttarvél eða eðlilegar girðingarframkvæmdir?
Hér er verið að koma upp skógræktargirðingu og það hefði verið auðvelt að safna saman mannskap, bera út efnið og gera þetta þannig að ekkert sæist á landinu. Það hefði hinsvegar hleypt kostnaðinum uppúr öllu valdi.
Eftir nokkur ár verður þetta komið í kaf í sinu og engin verksummerki
eftir vélaumferð sjáanleg.

 Tvöfeldnin í umræðunni er sú að engin athugasemd er við að umbylta öllu niðurlandinu í ræktun og matvælaframleiðslu.

 Troðið gras í  fjórhjólaslóðum um fjalllendið er hinsvegar stórglæpur í huga sístækkandi hóps  " umhverfissinna".

Já. það er vandlifað í henni veröld
.emoticon



 

 

25.02.2010 22:53

Afastelpan í léttum hestaæfingum.

 
 Afastelpan heimtaði æfingartíma eftir leikskóla enda afleitt útiveður í dag.


Vonarneisti hennar ömmu er toppurinn í dag en það á trúlega eftir að breytast áður en lýkur.



Þrælstöðug eins og afi sinn er löngum á hestbaki, en hann notar nú fósturjörðina til gönguferða.

Svo þarf maður víst að snúa sér til að auka stöðugleikann. Afi er nú orðinn svo stirður að hann
ætti að æfa þetta. Trúleg snýr hann nú bara hestinum ef hann þarf að gá afturfyrir sig.

Svona á að gera þetta.


Og svo aðeins að slaka á.




Ætli þetta fari nú ekki að verða gott í bili?




Takk Neisti minn .


Svo er bara að kemba þér og setja þig í stíuna til pabba þíns.

23.02.2010 22:31

1-0 fyrir lágfótu.-Gömul grenjasaga.

 Við skriðum varlega upp á síðasta holtið þaðan sem sást heim á grenið.

Klukkan var um níu að kvöldi.

Það voru um 500 m. á það og ekki fór á milli mála að þar var blómlega búið.
 Læðan fyrir utan og nokkrir stálpaðir hvolpar  kringum hana.

 Við áttum alveg eins von á því að þarna væri einstæð móðir í búskapnum, því um veturinn hafði refur af þessum slóðum lotið í gras. Það kom líka á daginn.

 Það hafði verið mikið basl á félögum mínum þarna árið áður, læðan orðið vör við þá og einfaldlega sást ekki meira.

 Nú átti að fara varlega í þetta og liggja í um 200 m. fjarlægð svo við biðum rólegir eftir að
að sú mórauða færi á veiðar. Það var nánast logn en sú litla gola sem var, stóð af greninu til okkar.



 Þegar hún yfirgaf grenið hélt hún eftir holtaröð til austurs beint framanvið okkur í um 400 m. fjarlægð.  Það var útilokað að hún hefði haft veður af okkur eða orðið vör við okkur en tvisvar stoppaði hún samt og leit  ákveðið í áttina til okkar.

 Við gáfum henni góðan tíma til að koma sér í burtu og komum okkur síðan að barðinu þar sem skyldi legið. Það gerði áttleysu um nóttina sem var bíbölvað sérstaklega í þessu tilviki og þó að færi ágætlega um okkur og við gætum fengið okkur kríu til skiptis leit þetta því verr út eftir því sem leið á nóttina.

 Við urðum alls ekkert varir við þá mórauðu hvorki í gegnum sjónauka eða fuglana á svæðinu.

Gallinn við staðsetninguna var sá að ekki sást mikið yfir svæðið og um fimmleytið fór ég á stjá upp á næsta holt og skannaði umhverfið.

Í u.þ.b. km. fjarlægð sat sú mórauða uppá háu holti og vissi greinilega að hér voru illmenni á ferðinni og hvar þeir voru staðsettir.

 Nú fór að styttast í fjós og ákveðið að fara leið B.

 Félaginn sendur heim en ég myndi færa mig á annan stað þar sem væri skotfæri á grenið annarsvegar, og á næsta holt hinsvegar en þar væri líklegt  að hún kæmi fram til að kanna hvort eitthvað óhreint væri eftir þegar hún sæi félagann fara.

 Sólin var löngu komin upp og það fór ekki hjá því að sækti svefn að bóndanum.

Enda fór svo að ég hafði dottið  út í um klukkutíma þegar ég hrekk upp.

 Eftir að hafa skannað svæðið fannst mér vera eitthvað í gangi hjá fuglum bakvið holt í áttina frá greninu og skömmu seinna kemur móra þar fram á holtið. Hún var utan færis og leit rannsakandi í áttina til mín áður en hún hvarf til baka. Þarna tók hún ekki vind af mér og í trausti þess að hún væri á leið á grenið setti ég mig í stellingar og beið hinn rólegasti.

 Þrem tímum seinna vissi ég að þetta væri orðin vonlítil barátta, hringdi í félagann og bað hann að koma og hjálpa mér við að kalla út yrðlingana.



 Við læddumst varlega upp í goluna  að greninu, settum okkur í stellingar og reyndum að kalla hvolpana út, ekkert gerðist. Eftir aðra tilraun fór ég að grenmunnunum og sannreyndi það að hér var galtómt greni.


      Þessi var ekki eins heppin þegar við hittumst fyrir tilviljun. Ekkert aukaskilningavit á ferðinni þar, nema kannski hjá mér

 Ég verð að viðurkenna það að ég fylltist hrifningu yfir snilldinni hjá lágfótu, þó ég reyni að telja mér trú um að það hafi verið grís hjá henni að koma að greninu og tæma það meðan ég svaf. Hún hafi svo tekið vind af mér á leið með hvolpahópinn austur holtin og í framhaldinu kíkt á mig þegar ég sá hana nývaknaður.

 Stundum er þó eins og eitthvað óþekkt skilningarvit sé í sumum rebbunum og er þó ekki á bætandi.

Já, það eru ekki alltaf jólin í veiðinni.emoticon
Flettingar í dag: 358
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659804
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:35:20
clockhere