Færslur: 2012 Apríl

28.04.2012 19:52

Fjárhúsúttekt. Aðaltaðhús Austurbakkans og þó víðar væri leitað.

 Nú eru það taðhúsin sem eru skoðuð, þó það sem væntanlegt er hér sé nú að verða nokkuð mótað í kollinum á mér.

 Vinir mínir á Austurbakkanum, Andrés og Þóra í Ystu Görðum,eiga eitt slíkt og ekki seinna vænna að berja það augum.



 Þetta eru alvöru hús, taka um 1000 fjár og eru að verða fullsetin.



 Rúllunum er ekið inn með dráttarvél og skornar til hálfs með vökvahníf á ganginum.

Síðan  er þeim lyft með lyftara með sérstakri greip , inní gjafagrindina þar sem plast og net er skorið og rúllunni síðan sleppt.
 


 Á þessum tíma er opnað á milli stíanna svo hópurinn er býsna stór með nokkrar gjafagrindur .



 Ef heyið er sæmilega þurrt þarf ekki undirburð á taðið og féð helst ágætlega hreint.



 Það eru steyptir plattar undir grindunum og Andrés fullyrti að þar sem kindurnar  stæðu á steypunni við átið,  dygði það til að ekki þyrfti að klaufsnyrta nema örfáar.

Ég á eftir að sannreyna þetta því reynslan hefur kennt mér að ýmsir vinir mínir á austurbakkanum hafa stundum gaman af því að telja mér trú um ýmislegt sem ........................................

 
 Á sauðburði eru settar upp stíur með útveggjum og við rögun er notaður færanlegur rekstrargangur sem er einnig við útvegg en gangurinn í miðjunni er þó notaður við rúninginn.

Semsagt góð nýting á gólfplássinu.



 Og þar sem ég gleymdi að óska húsfreyjunni til hamingju með afmælið á fésinu í  gær, geri ég það hér með.

23.04.2012 08:20

Sinubruni. Brýn nauðsyn - nú eða fullkomnun fáránleikans.

 Nú er í gangi árleg hefðbundin umræða um sinubruna.

Dálítið einsleit umræða.

 Slökkvistjórinn minn hann Bjarni hjá Borgarbyggð var í Ruv að ræða málið og komst  vel frá því eins og vænta mátti.

 Þekkir hættuna sem fylgir þessum gríðarlega eldsmat sem orðinn er til á vannýttu landi, sem sumstaðar er svo illa komið í sinuórækt að það nær varla að grænka yfir sumarið.

En eins og maðurinn sagði er tvær hliðar á hverjum tening.

 Ég er í þeim hópi Skerbúa sem er að reyna að lifa á landsins gæðum þó gangi á ýmsu.
Nýti landið annarsvegar í grasrækt og akuryrkju og hinsvegar til beitar.

 Beitilandið er annarsvegar í fjallendi sem nýtist sauðkindinni yfir sumarmánuðina og hinsvegar í þurrkuðu mýrlendi á láglendinu.

 Þetta mýrlendi er ákaflega grasgefið og frjósamt land með mikilli sprettu, sem liggur ekki við að hægt sé að beita niður með eðlilegum hætti með þeim bústofni sem til er hér.

 Þetta land á að taka við lambfénu á vorin, fram í miðjan júní þegar því er sleppt til fjalls.
Síðan hafa kýrnar aðgang að því og ef það er í góðu ástandi er ótrúlegt að sjá hvað þær nýta sér það með annarri beit.



 Það er hinsvegar þannig að ef sina er á landinu er eins og féð vilji ekki koma nálægt því, jafnvel þó að gróðurnálin sé farin að sjást koma upp. Sama á við um nautpeninginn.

 Rétt eins og mér finnst Whiskeýíið ódrekkandi ef búið er að sulla vatni saman við það.

Hér er orðin til mikil fagmennska við sinubruna enda mikið í húfi fyrir bóndann að ganga rétt um landið til að hámarka afkomuna án þess að ganga á landgæðin.



 Landið þarf að vera hæfilega þurrt eða rakt  svo ekki brenni nema sinan sjálf. Það þarf að vera rétt vindátt og ekki minna en 5-6 m svo eldurinn fari nægilega hratt yfir án þess að ofhita jarðveginn.

 Það verður að viðurkennast að þau árin eru kannski fleiri sem aldrei nást réttu skilyrðin  svo menn verða að lifa við sinuna það árið.
 
Þetta vorið var öllum skilyrðum fullnægt og ljóst að meðalþyngd lambanna og vellíðan kúnna í sumarbeitinni er tryggð þetta árið.

 Nú er bara að bíða eftir fyrstu vorrigningunni og sjá þetta frjósama gróðurlendi verða fallega grænt á nokkrum dögum.

21.04.2012 09:14

Fráhvarfseinkenni, tölvur og????????'

Það er liðin vika síðan ég sagði nokkur vel valin óprenthæf orð slökkti á tölvunni og hét því að nú yrði gert e.h. í málinu.

 Síðan tölvuturninn var endurnýjaður í okt sl. hefur allt gengið á afturfótunum í samskiftum mínum við netið með tilheyrandi afföllum á bloggum og statusum  og nefndu það bara.

Óbætanlegt tjón á allskonar glötuðum vísdómi fyrir framtíðina.

 Fráhvarfseinkennin á þessari tölvulausu viku voru samt ótrúlega lítil en aðgangur að einhverju borðtölvudóti hentar mér ekki enda vanafastur maður sem þarf að hafa allan  þann vísdóm og myndasöfn sem ég hef sankað að mér gegnum tíðina við hendina ef andinn á að komast á flug.

 Nú er það semsagt komið á daginn að tenging í tölvunni var umpóluð í upphafi með tilheyrandi krísum þessa vetrarmánuði.

 Vonandi að rétt reynist.

 Vorverkin eru svo búin að vera á fullu.



200 tonn af mykju keyrð út einn daginn og a.m.k. annað eins eftir, en nú eru túnin bara að verða velfær til dreifingar sem er óvanalegt á þessum árstíma.



 Það þarf skeljasand í akrana og nóg er til af honum í hæfilegri fjarlægð.



 Hálmmúgarnir sem aldrei náðust í vetur voru brenndir.



 Og akuryrkjan er á fullu en nú vantar bara einn öflugan traktor í viðbót svo eitthvað gangi á vorverkin.


 Fyrsta sáðbyggið komst svo í jörðina í gær.

Já þetta er akkúrat tíminn sem sólahringurinn er of stuttur í sveitinni og ýmislegt vantar í dótakassann.


Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659634
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 13:53:04
clockhere