Færslur: 2009 Október

31.10.2009 08:10

Gæsaveiðilokin og veiðimennirnir.

 Nú fer gæsaveiðin að styttast í seinni endann hér, enda byrjað að plægja akrana þó enn sé mikið af fugli.



 Þetta er fyrsta haustið sem veiðin er skipulögð í alvöru og faglega staðið að málum af hendi okkar sem settum 3 samliggjandi jarðir með um 50 ha. af byggökrum í púkkið.

 Þó þetta hefði verið sett upp þannig, að fugl hefði verið 1-2 daga á akrinum áður en veiði var reynd gekk veiðimönnunum misjafnlega. Sem betur fer er aldrei neitt öruggt í veiðinni og menn voru að fá allt frá engu og upp í 79 fugla ( 2 byssur)  í morgunfluginu.

 Þegar staðið er í þessu er manni ekki sama hvernig veiðimaðurinn er, sem fer með skotvopn um svæðið.

 Sem betur fer er til fullt af alvöru veiðimönnum sem fara eftir reglunum með fjölda skota í byssunni, láta blesuna vera og eru að ná góðri nýtingu á skotin.  Sannir veiðimenn.

 Hinir eru samt óþarflega margir sem byrja á því að renna skotpinnanum úr haglaranum þegar komið er í skurðinn og setja of mörg skot í magasínið.

 Það fer síðan  saman hjá þeim sem þurfa á þessu að halda, að skotnýtingin mætti oft vera betri.

Það er oft hljóðbært á svæðinu og við heyrum  í skothrinunum þegar flugin koma inn.

 Við heyrum líka hvort skotin eru óeðlilega mörg miðað við byssufjöldann.

Það gerist síðan óþarflega oft að veiðitölurnar eru ekki í neinu samhengi við skothrinur og skotfjölda sem þýðir að menn eru of gikkbráðir og tæma byssurnar út í loftið í einhverju óraunsæi.


 Flugið að koma inn og betra að fara ekki á taugum. Góð skytta hefur ekkert að gera með fleiri en þrjú skot í byssunni.

 Þó ég sé ekki heilagur líkar mér þetta ekki og þar sem ég veit að tuð við veiðimenn muni ekki breyta þeim, fara þeir grunsamlegu aftast á biðlistann og haldast þar. . En það hefur verið almenna reglan í haust að menn biðja um að fá að koma aftur, í sumum tilvikum þó ekkert hafi veiðst. 

 Og nú er spurt um rjúpuna en hún er alfriðuð hér á nokkrum samliggjandi jörðum.



 Rétt eins og þessi höfðingi hér.

Nú munu veiðileyfasalar setjast niður, fara yfir reynslu haustsins og velta fyrir sér framhaldinu.emoticon 

29.10.2009 00:02

Villifé og villuráfandi jarmandi malbikssauðir.


 Það er talið að elsta kindin sem náðist í Tálknanum í gær hafi verið 4 vetra.

 Hinar hafi verið eins til þriggja vetra.

 Þetta segir meira en mörg orð um það, við  hvaða aðstæður þetta fé býr þarna í útiganginum.

 Það er nefnilega þannig að íslenska sauðkindin er húsdýr og hefur frá upphafi Íslandsbyggðar verið ræktuð í tvennum tilgangi, Annarsvegar til kjötframleiðslu og hinsvegar til ullarframleiðslu.

 Og það er ullarframleiðslan sem er hluti af þeim skelfingum sem  bíður þeirra lamba sem komast upp þarna, því þetta fé er ekki, eðli málsins samkvæmt rúið árlega eins og það er ræktað til.

 Í einhverjum tilvikum losnar einstaka kind við ullarreyfið en hinar sem eru komnar með 2, 3 eða 4 ullarreyfi hvert yfir annað eru ekki í góðum málum hvorki sumar né vetur. 

Enda virðast þær samkvæmt þessu ekki verða eldri.

 Eins og fyrri daginn verður umræðan alveg ótrúleg. Einn af mestu þungavigtarmönnunum  í umhverfisumræðunni toppaði þetta rugl samt alveg gjörsamlega þegar hann tók sem dæmi að engum dytti í hug að útrýma skógarbjörnunum þó þeir væru orðnir horaðir á vorin.

 Á meðan skógarbjörninn liggur í hýði sínu yfir veturinn er sauðkind á útigangi náttúrulega að berjast við að halda lífinu, í þessu tilviki á ísuðum klettasyllum norður við dumbshaf við skelfilegar aðstæður ef vetur er harður.

 Þessir " velunnarar" íslensks útigangsfjár ættu vita hvernig er að koma að kind uppi á fjöllum á miðjum vetri, klökugri   svo hún stendur varla í lappirnar, vafrandi um á rótnöguðum bletti sem stendur uppúr snjónum.

 Og nú verður eflaust fljótlega til undirskriftalisti í feisbúkk þar sem hvatt er til að sett verði lög, sem banni smölun á útigangsfé svo það geti dáið drottni sínum eftir tveggja til þriggja ára kvalræði.emoticon 
 

27.10.2009 23:59

Haustverkin og óstarfhæf björgunarsveit.

 Það gengur mikið á þessa vikuna því nú er keppst við að ljúka haustverkum áður en veturinn hellist yfir.

  Ég var að plægja um helgina þá akra sem ekki verður borinn á búfjáráburður,  sem er að sjálfsögðu plægður niður. Sama á við um túnin sem plægð verða og tekin í byggrækt í 2-3 ár, áður en sáð er í þau grasfræi á ný.


  Svona var útsýnið á sunnudaginn  ( plæging uppá 9,5) og til að bæta fyrir  eða fullkomna helgidagaspjöllin var hlustað á dómkirkjuprestinn í útvarpsmessunni.  Góð ræðan hjá honum Séra Hjálmari.

 Í dag var síðan byrjað á að hræra upp í haughúsinu en það verður væntanlega keyrt út úr því á fimmtudag og föstudag.
 Tað/hálmhaugarnir verða svo hugsanlega afgreiddir í framhaldinu, nú eða geymdir í eitt ár enn, eftir því hvað menn verða brattir við að koma þeim á akrana. Í stöðugt hækkandi áburðarverði er gróðinn svo mikill að eiga þá, að kannski borgar sig að geyma þá aðeins lengur

 Björgunarsveitin á svæðinu var síðan næstum óstarfhæf í dag, því þeir virkustu þar voru sprautaðir við svínaflensufárinu í gær. Þeir urðu síðan mismunandi fárveikir af sprautunni og ég sem hafði enga samúð með yngri bóndanum, fullvissaði hann um, að  trúlega hefði hann verið búinn að smitast og fengi flensuna nú af tvöföldum þunga.

 Já, nóg að gera í sveitinn og ekkert minnst á þetta óunna sem er búið að vera á 6 ára áætluninni í , ja nokkurn tíma.emoticon 

Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659697
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:14:19
clockhere