Blog records: 2010 N/A Blog|Month_4

30.04.2010 23:52

Skítur, bilanir, stress og prútt.

 Þetta eru ekki tíðindalausir dagar sem nú þjóta hjá á ógnarhraða.

 Mykjunni er ekið á tún og flög með miklum tilþrifum og þar sem gamli 5 tonna dreifarinn er ekki inni í dag eru leituð uppi leigutæki til að redda málunum.



 Þessi tækni hér að geta tengt sogstútinn án þess að fara úr dráttarvélinn er mikil bylting, sérstaklega á þeim býlum þar sem var alvöru húsbóndi og frúin sá um að tengja haugsuguna svo bóndinn þyrfti ekki að yfirgefa dráttarvélina.

 Þegar bilaði lega í dælunni í fyrradag fór allt skipulag vorverkanna úr skorðum og sér ekki fyrir endann á þeim skelfingum.

 Þrátt fyrir mildan vetur gerði frostakafla á auða jörð og frost í jörð hefur tafið sáningu þar til nú.

 En nú eru tækin farin að snúast og aldrei þessu vant er það ekki bleytan í ökrunum sem hrjáir okkur heldur mega þeir ekki þurrari vera.
 Það verður að gæta þess að láta ekki of langan tíma (helst engan) líða milli tætingu og sáningar ef ekki á allt að ofþorna.

 Áburðurinn er kominn í sveitina en nú var skipt um áburðasala í Dalsmynni.



 Það var óvenjulega erfið samningalota núna, því ég var ákveðinn í að pína áburðarsalann til hins ýtrasta. (Sem er ekki mikið).

 Sá vænlegasti var síðan píndur aukalega áður en málinu var lokað en við vorum nokkrir saman í pakka með um 70 tonn.

 Þriggja ára olíusamningur fyrir sama hóp er svo trúlega laus á næsta ári og þá er röðin komin að Einari að pína viðsemjendur okkar.
 Fræsalinn okkar hann Elías í Líflandi er þó löngu kominn út úr öllum píningum, því við fáum bestu verðin hjá honum án þess að nefna það. Þó þau séu nú að vísu ekkert góð lengur.

 Og þegar ég þurfti að bæta smávegis fræi  við eftir hádegi í dag var ekki nóg með að það væri til, heldur var það komið á hlaðið hjá mér eftir nokkra klukkutíma.

 Þetta er samt allt annað líf að eiga við vorverkin núna en í fyrra þegar allt var forblautt og klaki framí í mai. .

Stressið er samt ekkert minna.emoticon

27.04.2010 22:52

Við Vaskur í slæmum málum.

  Svanur komdu aðeins,sagði mín heittelskaða þar sem hún sat í tölvuverinu og þvældist um netheima.

 30 ára + sambúð hafði kennt mér það að svona málrómur þýddi bara eitt.

Það var verið að setja eitthvað ferli í gang þar sem ég yrði í tapliðinu.

Ég var ótrúlega lengi að koma mér að tölvunni.

Þar uppgötvaði ég, að það vorum við félagi Vaskur sem værum í vondum málum.

 Mín heittelskaða var semsé inni á heimasíðunni hjá henni Maríönnu á  Stórhól sem var nú útaf fyrir sig allt í lagi.

 Skandallinn var sá að þar var því lýst af mikilli nákvæmni hvernig hann Skundi sem er/ var fallega loðinn BC lenti í klippingu og leit eftir það út eins og ofvaxinn Poodle. Nú eða ljón sem var dálítið skrítið á litinn.

 Það er nefnilega búið að vera deilumál til margra ára hvort ekki væri rétt að taka hann Vask og snyrta hann dálítið.

 Við Vaskur þverneituðum því jafnan, vörðumst fimlega og bárum ýmsu við.

Yngri bóndinn sem er alltaf ákaflega tillögugóður þegar verið er að bögga þann eldri, lét gjarnan það álit í ljós í þessari umræðu að óvíst væri að sá með klippurnar myndi lifa af slíka aðgerð.

 Allavega væri ljóst að ekki dygði að setja bitmúlinn á villidýrið, heldur yrði að fá dýralækni til að svæfa hann meðan aðgerðin stæði yfir.


Það er ógaman að lenda á milli tannanna á fólki en að lenda á milli tannanna á Vaski hefur engum reynst gott.

 Það hafði verið fjárfest í bitmúlnum þegar kind no 2 lenti í saumaskap fljótlega í upphafi tamningar.

Reyndar var Vaskur ætlaður í sölu í upphafi, þar sem einungis tíkum var haldið eftir úr gotum, en í fyrsta lagi var hann fádæma erfiður í tamningu og í öðru lagi afrekaði hann það að bíta Rauðkollsstaðabóndann þrisvar á nokkrum mánuðum.

 Það var eftir það sem ég tók þá ákvörðun að þessi hvolpur myndi aldrei verða seldur.

Ég hef aldrei séð eftir þeirri niðurstöðu.

Ég hef reyndar heldur aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að láta fjarlægja úr honum kúlurnar í fyllingu tímans en það er önnur saga.

 Nú varð semsé ljóst að öll rök voru þrotin og einhver hársnyrting yrði ekki umflúin.

Sem betur fer erum við Vaskur fullir trúnaðartrausts hvor til annars.

 Þetta reyndist síðan mun auðveldara en rýja rollurnar því Vask fannst þetta bara skemmtilegt þegar til kom og lá við að hann malaði  á meðan snyrtingin fór fram.



 Mér finnst þetta nú samt vera meðferð sem ekki er höfðingja sæmandi og eins og sést hér að ofan er hann búinn að átta sig á að leikið hefur verið á hann.

En nú er ég búinn að sannfæra hann um að þetta sé allt Maríönnu á Stórhól að kenna.emoticon

25.04.2010 07:23

Hvíti stelkurinn mættur í sveitina. Myndir.

 Um leið og ég opnaði dyrnar út á pallinn renndi smyrill sér á lágflugi inn yfir garðinn.

 Hann var fljótur að láta sig hverfa út yfir tjörnina og svo til austurs.

Hann hefur verið hér í vondum erindagerðum hugsað ég, en kannski er ekki hægt að halda því fram þegar hann er að reyna að bjarga sér eins og við hin.

Ég var á leiðinni í pottinn og orðið rökkvað þrátt fyrir vaxandi tungl enda klukkan  hálf ellefu.

  Það upphófst svo mikið fuglaskvaldur í skjólbeltunum þegar aftur komst ró á.
 Þrestirnir voru í yfirgnæfandi meirihluta en stelkurinn  og fl. blönduðu sér í .þessar kvöldumræður.

Úti á tjörninni lét stokkandarparið heyra í sér en álftaparið var búið að yfirgefa svæðið en myndi væntanlega vera mætt aftur í fyrramáli þegar bóndinn færi í fjós.



 Og hvíti stelkurinn er mættur í Söðulsholt í a.m.k. þriðja sumarið sitt þar og er ákaflega velkominn hjá tamningarfólkinum sem hann bregður sér stundum með í útreiðartúrunum.



 Hér er hann að snyrta sig í fyrir tilhugalífið á þessari ársgömlu mynd en gróðurfarið er nú ekki alveg komið á þetta stig enn þetta vorið.


 
 Kannski er þetta afkomandi þess hvíta sem hélt sig hér niður í Dalsmynnisflóanum árum saman
fyrir um 10 - 15 árum.

 Heimskulegt og óskiljanlegt hjá honum að flytja sig til Einars en svona er lífið.



 Og hérna er hann að fara með morgunbænirnar fyrir Iðunni og veitir ekki af.

 
Það hefur svo verið gaman að fylgjast með gömlu arnarhjónunum  vestur í Gilsfirði koma sér fyrir og nú er bara að vona að betur gangi hjá þeim en í fyrra. Sjá hér.


Þetta er svo mikli annríkishelgi hér í Dalsmynni enda kominn sá tími að rauðu dagarnir í dagatalinu eru ekki að virka eins og til er ætlast.emoticon
Today's page views: 3468
Today's unique visitors: 157
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651566
Total unique visitors: 58033
Updated numbers: 21.11.2024 18:05:48
clockhere