Blog records: 2007 N/A Blog|Month_12

30.12.2007 22:38

Blessuð blíðan.


  Nú er svo komið að  ekki er lengur hægt að treysta því að suðaustanáttin taki mildilega á okkur Eyhreppingum eins og hún hefur gert svo lengi sem elstu menn muna.Þetta er í annað skipti í vetur sem sem hún fer dálítið verklega hér um,  þó það sé samt vandræðalaust en eitthvað hefur það þá verið  annarsstaðar. En það er víst allt fokið sem fokið getur svo allt fer þetta vel fram , fyrir utan fjallafarana veðurglöggu á Langjökli.
  Það verður dálítið stífur dagur á morgun því milli mála verður rennt í bæinn í níræðisafmælið hans tengdapabba og svo er liðinu boðið í mat annað kvöld.
 Brennan verður hinsvegar ekki fyrr en á þrettándanum en það fer eftir veðri hvort ná þurfi hrossunum saman í aðhald á morgun vegna flugeldanna hér í sveitinni.

  Við hér í Dalsmynni óskum ykkur þarna úti ánægjulegra áramóta og gleðilegs árs.
 

29.12.2007 23:08

Bókhaldið!!!


  Það er orðið ansi langt síðan maður hefur komist í að moka snjó  frá húsum og af bílastæðum en talsverður tími fór í það í dag.Yngri bóndinn var allan daginn að selja flugelda og síðan að sjá um flugeldasýningu í Staðarsveit með félögum sínum í kvöld.
 Nú fer í hönd sá árstími sem reynir verulega á hjónaband undirritaðs og hans heittelskuðu.Hún heldur utanum bókhald búsins af miklum myndarskap og fyrir margt löngu meðan búið var rekið á kennitölunni minni (að sjálfsögðu)  þá var reksturinn  auðvitað  í góðu lagi og oftar en ekki um talsverðan tekjuafgang að ræða.Og þá fór að versna í málunum því þegar framtalið lá fyrir og sýnt var að um talsverða skatta yrði að ræða þá var auðvitað morgunljóst að ekki hafði verið rétt haldið utanum bókhaldið. Annaðhvort voru tekjurnar oftaldar eða gjöldin vantalin nema hvorutveggja væri.Smávægilegar athugasemdir eða  auðmjúkar spurningar
undirritaðs sem viku að þessu var hinsvegar ákaflega illa tekið og yfirleitt lauk þessum framtalsumræðum á þann veg að ég gæti sem best séð um bókhaldið sjálfur. Til þess kom að sjálfsögðu aldrei sem þarfast ekki útskýringa a.m.k. fyrir þá sem þekkja undirritaðan.
  Nú eru breyttir tímar og sameignafélag sem rekur búið.Við búið starfa tvö stöðugildi á föstum launum og það er síðan gert upp með tapi eða hagnaði eftir ástæðum.Vegna þess að hér hafa um langan tíma starfað félagsvænar (kannski ekki mjög einstaklingsvænar) ríkisstjórnir eru skattaálögur á félög (ehf eða sf.) hóflegar og því friður um niðurstöður bókhaldsins.Vandamálið í dag er hinsvegar það að ef að vantar einhver fylgiskjöl ætlar allt vitlaust að verða. Að sjálfsögðu er bent á yngri bóndann sem er ennþá minni áhugamaður um skilvíst bókhald en faðir hans og er þá langt til jafnað.Það dugar hinsvegar skammt þannig að þessa dagana er undirritaður á tánum í kringum bókhaldarann auðmýktin uppmáluð og viðbrögðin þegar heyrist hvöss rödd með spurnarhreimi innanaf skifstofunni þvílík að hvaða hundrað m. spretthlaupari sem er gæti verið stoltur af.

28.12.2007 11:36

Já lífið fer sífellt í hringi.


    Fyrir svo sem eins og hálfri öld (mínus e.h.) var séð fyrir daglegum neysluvörum Dalsmynnisheimilissins með þeim hætti að mamma skrifaði langan pöntunarlista sem stungið var í lokið á mjólkurbrúsanum (sem þurfti að sjálfsögðu að koma niður á veg ) Daginn eftir skildi svo mjólkurbíllinn munaðarvörurnar eftir á brúsapallinium og allir voru hamingjusamir.
 Þetta flaug í hugann þegar ég settist við tölvuna í gærkveldi og var að versla mér rekstrarvörur í fjósið gegnum netverslunina hjá Remfló.Í stað þess að afgreiðslufólkið hjá K.B. færi um búðina með listann  hennar mömmu sat ég með listann á borðinu og fór gegnum lagerinn hjá Remfló og setti  vörur í körfuna og stimpaði mig síðan út.
  Þetta var meira að segja svo fullkomið að meðan M.S. rak Remfló var úttektin dregin frá mjólkurinnlegginu í mánaðaruppgjörinu rétt eins og í Kaupfélaginu í gamla daga en núna kom mjólkurbílstjórinn  pakkanum alla leið í mjólkurhúsið.

  Reyndar eru að ganga yfir eigendaskipti á Remfló en það breytist ekkert nema það að nú fæ ég gluggaumslag mánaðarlega vegna úttektarinnar.Svo skemmtilega vill til að nýir eigendur Remfló eru Jötunn Vélar á Selfossi en þangað sækir búið allt sitt dót sem þarf í búreksturinn svo nú þarf að setjast niður með Finnboga og fá hæfilegan stórviðskiptaafslátt á Remflóvörurnar(skynsamlegt að drífa í því meðan hann er í jólaskapinu).
Today's page views: 3601
Today's unique visitors: 182
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651699
Total unique visitors: 58058
Updated numbers: 21.11.2024 18:48:52
clockhere