Blog records: 2015 N/A Blog|Month_1
27.01.2015 09:48
Taminn fjölhæfur BC í vinnu.
Set hér inn smá ( endursýnt ;) ) myndskeið í framhaldi af síðasta bloggi. Þarna er Korka frá Miðhrauni þriggja ára send eftir kindum í um 1 km. fjarlægð.
Ef þarna hefðu verið óþreyttar kindur hefði Korka bara verið send út og hún hefði komið með kindurnar án skipana. Hér var verið að gæta þess að setja þær gætilega af stað og koma rólega með þær, til að komast hjá hugsanlegum vandræðum.
Korka er undan Tinna frá Staðarhúsum og Tátu frá Brautartungu.
Þessar kindur voru með fleirum við erfiðar aðstæður og sluppu meðan verið var að ná hinum niður, en þær sjást síðast á myndskeiðinu.
Lýsingin á góða keppnis/smalahundinum í síðasta bloggi á ágætlega við Korku.
Written by svanur
26.01.2015 08:14
" Keppnishundarnir " og sexappíllinn.
Stundum er ég spurður að því hvernig það sé með þessa " keppnishunda" . Hvort þeir séu nokkuð að virka í smalamennskum ?
Stutta svarið er, að því betri í keppni, því betri í smalinu.
Langa svarið er að ég sé þeirrar skoðunar, að svo hundi gangi vel í keppni þarf hann að hafa ýmislegt til brunns að bera.
Hann verður að vera með mjög gott vinnulag.
Gott vinnulag að mínu mati er góð örugg fjarlægð frá kindunum. Það þýðir meðal annars að þegar hann er sendur fyrir eða til að stýra kindunum í ákveðinni braut fer hann út og vel til hliðar .
Heldur sig alltaf 10 - 30 m. frá kindunum hvað sem hann er að gera. Hann þarf að vera hraður en samt yfirvegaður og geta gengið viðstöðulaust að kindum og tekið í þær ef á þarf að halda til að koma þeim af stað.
Sleppa um leið og kindin gefur eftir og koma sér aftur í kjörfjarlægðina.
Ákveðin, hiklaus og ógnandi framkoma dugar oftast til að koma þeim af stað.
Hlusta vel og hlýða skipunum viðstöðulaust án þess að hafa augun af kindunum.
Hundurinn og náttúrulega smalinn verða að geta byggt upp traust við kindurnar. Makki þær rétt verður þetta allt átakalaust.
Óþarft er að taka fram að svona traust verður ekki byggt upp í einni keppni eða smalamennsku, við kindur sem hafa lent í hundum sem vinna með öðrum hætti. Kannski talsvert öðrum hætti en hérna er lýst.
Ég er svo alveg til í að taka umræðuna við þann fjárbónda sem er þeirrar skoðunar að eitthvað af ofantöldum kostum góðs keppnishunds væru lítils virði í smalamennsku.
Hund sem vantar eitthvað af þessu lendir ótvírætt í enn frekari vandræðum í keppnisbraut en sá fullkomni.
Hann lendir óhjákvæmilega í sömu vandræðunum í fjallinu.
Kannski liggur hluti vandamálanna með uppgefnar kindur og lömb sem leggjast/týnast og verða eftir í leitum, í hundum sem hafa ekki nokkurn skapaðan hlut að gera í keppnisbraut.
Það sem ég horfi sérstaklega eftir í dag er þessi mikla útgeislun sem einstaka smaladýri er gefið.
Yfirvegað öryggi og hiklaus ákveðni sem flestar /margar kindur virðast lesa hjá hundinum um leið og hann fer að vinna við þær.
Þegar ég sé svona dýr í vinnu detta mér oft í hug ljóðlínurnar hans Steins Steinarrs sem urðu að vísu til af allt öðru tilefni.
" Sumir hafa sexappíl / sem sumir hafa ekki . "
Written by svanur
24.01.2015 11:43
Að kaupa hvolpinn í sekknum.
Konan í símanum kynnti sig ekki og sagði engin deili á sér.
Stundum finnst mér það ágætt, annars næ ég því fram í samtalinu.
Hún sagðist hafa áhuga á að eignast BC smalahund og langaði að leita ráða hjá mér.
Ekkert mál.
Þá sagðist hún vera að leita að góðum fjárhundi sem mætti ekki vera of erfiður ??
Hvort það væri þá ekki gott að taka kannski blending ?
Ég sagði sem satt var að ég gæti ekki með nokkru móti gert mér grein fyrir hvað hentaði henni eða hvað hún ætlaði að nota hundinn í. Blendingar biðu hinsvegar uppá enn meiri óvissu en þeir hreinræktuðu, þar sem óvissan væri þó næg fyrir.
Konan lét mig ekki slá sig út laginu og spurði hvort ég væri ekki alltaf að kaupa hvolpa ?
Eftir hverju ég færi ?
Nú þurfti ég að hugsa mig aðeins um hvað mætti segja og hvað ekki.
Sagðist svo leita að mjög ákveðnum gerðum af vinnuhundum sem hentuðu mér og þeim sem ég leitaði hunda fyrir.
Þeir myndu eflaust ekki henta öllum.
Ég sagði svo að reynslan hefði síðan kennt mér að útiloka strax hvolpa með blendinga eða útlitsræktaða hunda á bak við sig.
Þá vildi konan vita hvort slíkir hvolpar væru alveg vonlausir. Það væri yfirleitt hægt að fá þá á lágu verði eða gefins.
Nei, það væri alveg hægt að detta niður á eitthvað ágætlega nothæft ef heppnin væri með.
Ég hinsvegar hefði hvorki tíma, aðstöðu eða peninga í að kaupa og ala upp hvolpa til að svæfa þá eða gefa, 1 - 2 ára gamla vegna þess að þeir hentuðu ekki .
Lágt kaupverð í upphafi skipti litlu í slíku dæmi. ekki síst þar sem hvolpaverð væri yfirhöfuð mjög lágt hérlendis.
Konan vildi þá fá að vita um fleiri punkta í hvolpavalinu hjá mér.
Nú var ég farinn að velta fyrir mér undankomuleiðum úr samtalinu.
Sagðist þó fyrst og fremst vera að leita að ræktunardýrum í dag.
Þá skoðaði ég aðallega ættir sem ég þekkti mjög vel til af eigin reynslu.
Ekkert sem segði að það væru réttu línurnar.
Að öðru leyti væri það síðan stálpaðir hvolpar sem hægt væri að skoða og meta í kindum.
Það ætti fyrst og fremst við í leit að hundum fyrir aðra.
Þegar konan vildi nú fá að vita hvaða ættarlínur ég væri að sækja í, ákvað ég að þetta væri orðið gott.
Laug því að það væru að koma gestir í hlaðið hjá mér, en hún mætti tala við mig seinna, og kvaddi.
Andsk. hreint ákveðin þessi kona og ágætt að hún var ekki í hlaðinu hjá mér
Written by svanur