Blog records: 2009 N/A Blog|Month_9

30.09.2009 19:59

Gæsaveiðin á fullu.

  Nú er gæsaharkið í algleymingi og við akuryrkjubændurnir erum engir hálfdrættingar í því frekar en öðru.

 Það var löngum þannig í sveitinni, að vinir og kunningjar eða jafnvel einhverjir alókunnugir fengu að laumast um skurðakerfin og plaffa niður gæsir eftir hentugleikum, án þess að nokkrum heilvita manni/bónda dytti í hug að ætlast til greiðslu fyrir.

 Nú eru breyttir tímar og illþýðið í sveitinni er farið að selja mönnum aðgang að túnum, ökrum eða svæðum sem líkleg eru til þess  að virka til gæsaveiði.emoticon 

 Og rétt eins og í veiðimannahópnum er misjafn sauður í mörgu fé í bændastéttinni þegar kemur að veiðiharkinu.


 Svona veiðisvæði er mikils virði ef verðið væri ekki  jafn ókristlega lágt eins og hjá okkur.

  Verðið er nokkuð mismunandi eftir innræti viðkomandi bónda og hugsanlegum veiðilíkum og ýmist miðað við byssu eða morgunflug með tilteknum max byssufjölda.

  Hér er haldið utanum akurlendið  á þremur jörðum og ekki hleypt í veiði nema sést hafi fugl á akrinum í einn til tvo daga áður. Þetta þýðir nokkuð örugga veiði, og ef hver veiðimaður fer með 4-5 fugla eftir morgunflugið þá er ég ánægður. Oft eru þeir að fá meira og þó þeim sé gert að yfirgefa svæðið klukkan 10 þá hefur enginn kvartað yfir því.
 Þetta þýðir þó, að oftast er ekki veitt nema 3- 4 morgna í viku. Vegna þessa eru menn ekki bókaðir ákveðið einhverja tiltekna daga heldur eru skráðir niður og síðan látnir vita þegar er nokkuð örugg veiðivon.

 Þeir eru síðan gædaðir á veiðistað að morgni til að tryggja þetta allt eins og hægt er.


 Þessum leist  ekki á móttökurnar og reyndu að forða sér hver sem betur gat.

  Þeir sem geta mætt á virkum dögum eru betur settir í biðröðinni en hinir sem eru bundnir við helgarnar sem eru umsetnar.
 Það var fyrst í dag sem þreskt var á þriðju jörðinni og nú mun væntanlega vænkast  hagur þeirra sem eru í bið með að ná sér í villibráð í kistuna.


Það getur verið napurt að bíða eftir bráðinni kaldan haustmorgun en það fylgir veiðiskapnum.

  Stundum er allskonar prútt í gangi og menn bjóða margsskonar verðmæti í stað veiðileyfis. Sjómennirnir fiskmeti ýmiskonar, iðnaðarmennirnir vinnu við e.h. o. svo. frv.

 Reyndar er hópurinn sem enn er á gömlu kunningjakjörunum nokkuð fyrirferðamikill en kannski eru nú mestu verðmætin í því.

 Morgunflugið á fullu og blóðið fer að renna hraðar hjá veiðimönnunum.

 Staðreyndin er  samt sú að afkoman í byggræktinni er þannig, að halda þarf vel utanum hlutina ef allt á að ganga upp. Þar á veiðin og nýtingin á hálminum eftir að skipta mun meira máli en í dag og laga afkomuna umtalsvert.


 Það er samt ljóst að veiðimennskan er alltaf lotterí og ekki alltaf jólin.emoticon 





 

29.09.2009 20:59

Gamalt og nýtt dót og ofurþung hrútlömb.


 Já, nú er árið 2007 löngu liðið og veislunni miklu lokið.

 Sumt af nýja fína dótinu hefur verið flutt aftur úr landi fyrir alveg fullt af  krónum  en lítið af gjaldeyri.
 
Og gamla dótið sem  ekki var þegar farið út er alveg hætt að safnast upp en gengur að kaupum og sölu og er allt í einu orðið vel nothæft.

 Nágranninn sem keypti gömlu þreskivélina í lok veislunnar við mikinn hlátur okkar félaganna er nú hinn kampakátasti og allur hlátur þagnaður.



 Reyndar vannst ekki tími til að ljúka því að koma lakkinu á hana fyrir vertíðina en að öðru leiti er hún eins og ný og svínvirkaði í þreskingunni.



 Ekki kannski alveg sú afkastamesta en eigandinn er mjög hamingjusamur og hlær bara ef minnst er á handvirku og fótstignu græjuna.



  Hér er verið að losa afurðina í hitt dótið sem er kannski ekki alveg í stíl.



 Og byggið er náttúrulega fyrsta flokks fullþroskað og hreint og fínt.

 Hann Óttar sandari sem átti þunga lambhrútinn í kvöldfréttum sjónvarpsins,  hefði alveg getað viðurkennt það, að þessi gríðarlegi vænleiki væri ekki síst að þakka bygginu sem ég seldi honum í vetur.

 Hann hefði þá fengið enn betri díl en vanalega, þegar hann hringir í mig fljótlega.emoticon

27.09.2009 19:29

Laufskálarétt.


 Það var vetrarlegt á leiðinni norður á föstudaginn og keyrt í krapaslabbi bæði á Holtavörðuheiðinni og Þverárfjallinu.

 Eftir að hafa komið hrossunum í öruggar hendur Vésteins í Hofstaðarseli var brunað á sölusýningu á Varmalæk.

 Þar bárum við Einar okkur mannalega, ræstum tamningarmann Hestamiðstöðvarinnar út og létum hann koma, prófa og kommenta á nokkra reiðhesta sem okkur leist á.

 Það er svo spurning hvernig þeim málum lyktar.

 Skemmtunin á Svaðastöðum um  kvöldið, stóð nú ekki undir væntingum en gaman að hitta kunningjana sem maður var sífellt að rekast á þarna.

 Á laugardagsmorguninn stóð til að fara í smölunina á Kolbeinsdalinn en okkur leist ekki á veðrið svo í stað þess að ríða skjálfandi af stað var dólað niður á Krók í kaffi og rólegheit.

 Þegar við komum með hrossin fram að rétt, var allt að fyllast af bílum og fólki en góða veðrið sem átti fara að bresta á kom ekki. 

 Og veðrið var nú hreint ekki mjög gott, kalsaveður og snjókoma.


 En svona leit þetta út milli élja og eins og Pálmi í Garðakoti sagði var þetta bara gleði..

 Hrossin sem stóð eftir þegar kom að skönnun/ töfludrætti voru flest jörp og brún.
Skrítið. En ég held að allt hafi gengið út áður en lauk.


 Toppurinn á deginum er reksturinn heim að Hofstaðaseli og veislan í vélageymslunni þar um kvöldið

Ég hafði sagt Skagfirðingunum það að veðrið myndi snarbatna um leið og ég kæmist í hnakkinn. Það gekk síðan eftir.

 Stóðið sótti grimmt á okkur í forreiðinni og erfitt að halda því á skikkanlegri ferð.

 Bára er ekki mjög slök í svona hasar svo ég var oftast vel á undan til að þurfa ekki að slást við hana. Hún reif síðan undan framfæti og þá var gott að eiga Þrym að, uppi á kerru. Hann fílaði þetta svo allt í botn og ég hef aldrei farið á hann jafn skemmtilegan fyrr.


 Bílalestin sem var viðhangandi reksturinn var löng og  þolinmæðisverk að keyra um Hjaltadalinn þennan laugardagseftirmiðdag.



 Þarna er bóndinn að setja veisluna en þarna mæta tugir manns allt frá rollubónda úr Grímsey til hestamanna vestan af Snæfellsnesi.


 Allt að verða klárt í borðhaldið.



 Tveir fulltrúar Hestamiðstöðvarinnar stilla sér upp, annar úr bænum, hinn frá Þýskalandi.



 Tina og Jessica nýkomnar frá Svíaveldi og Iðunn og Dóri hin kampakátustu.

 Ætli verði ekki að setja einhvern kvóta á þetta Hestamiðstöðvarlið ef það á ekki að yfirtaka veisluna miklu.

 Það var síðan kíkt við á ballinu, á leið í svefnstað og rétt að taka fram að allar sögur af gistingu okkar félaganna í fangaklefum þeirra Skagfirðinga eru stórlega ýktar.



Og svona var umhorfs á Hofsósi í morgunsárið á sunnudeginum..

En  eftirá að hyggja held ég að veðrið hafi bara verið fínt í Skagafirðinum þessa helgina.emoticon 

 Eins og alltaf.emoticon


Today's page views: 3525
Today's unique visitors: 168
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651623
Total unique visitors: 58044
Updated numbers: 21.11.2024 18:27:08
clockhere