Blog records: 2010 N/A Blog|Month_7
30.07.2010 08:06
Kúvíkur í máli og myndum.
Það er nauðsynlegt fyrir Vask að fá smá hreyfingu sagði mín heittelskaða.
Það hafði lengi verið einbeittur ásetningur hjá henni að ganga að þeim forna verslunarstað Kúvíkum í Reykjarfirði, og nú stóðum við og horfðum á skiltið sem sýndi mér til mikils léttis að það var einungis 1 km. á staðinn.
Reyndar er nýbúið að leggja veg að sumarbústað á staðnum en það haggaði ekki gönguáformum frúarinnar.
Við skelltum okkur í gönguskóna og í stað þess að þramma götuna var farið beint út hlíðina enda finnst mér eins og hagyrðingnum og úrsmiðnum snjalla á Akureyri best að " ganga götulausa græna jörð" .
Það renna ýmsar hugleiðingar í gegnum kollinn á manni þegar horft er á svona stað þar sem aðalverslunarstaður strandamanna var öldum saman og jafnframt skapaði lifibrauð tuga fólks sem lifði þarna á landsins gæðum eftir að verslun var aflögð.
Þarna hefur staðið seinni tíma fjárhús með böðunarkari og grindum, trúlega fyrir um 50 fjár, um það er búsetu lauk.
Hér gætu verið það sem eftir er, af svona tveggja kúa fjósi og hlöðu.
Og íbúðarhúsið hefur eflaust verið gjörnýtt í fólksfjölda á fermeter nokkuð fram á síðustu öld.
Fjöruborðið ber það með sér að þarna er ekki brimasamt við ströndina, enda staðurinn væntanlega orðið fyrir valinu sem verslunarstaður vegna góðrar aðstöðu sem skipalægi.
Líkt og á fjölmörgum útvegsbýlum á vestfjörðum hefur verið erfitt um heyskap og afkoman byggst á sjósókn og ýmsum hlunnindum.
Meiri fróðleikur hér.
28.07.2010 20:29
Ónýtt orka og sundlaugin í Krossnesi.
Hún er opin alla daga en lokuð yfir blánóttina. Enginn sundlaugarvörður og gestum treyst til að borga aðgangseyrinn. Komin nokkuð til ára sinna en snyrtileg.
Vatnið er greinilega sjálfrennandi upp úr borholunni og hitinn er um 65 gráður. Enginn dælingarkostnaður. Og enginn Reykjavíkurpípari komið nálægt tengidæminu.
Vonandi halda svo laga og reglugerðamöppudýrin sig líka frá staðnum.
Hérna fossaði afgangsvatnið af svæðinu niður sjávarbakkann. Ég giskaði á að þarna rynnu niður á milli 5 og 10 l/sek. sem er veruleg orka umreiknuð í kw.
Það eru ekki nema örfáir km á Norðurfjörð og í ferðaþjónustuna Urðartind þar sem svona þriðjungur þessa vatns myndu gjörbreyta allri aðstöðu.
Og Krossnesbændur búa greinilega við fleiri hlunnindi en heitt vatn.
Já það var margt að sjá í Árneshreppnum.