Blog records: 2014 N/A Blog|Month_5
20.05.2014 04:34
Fjárheimar, mannheimar og fæðingasprengjur.
Nú er komið að þeim tímapunkti í sauðburðinum að maður fyllist áhuga á að fá að sofa svona eins og í nokkra daga kannski.
Þetta er hefðbundið og fer yfirleitt saman við það að allt er orðið yfirfullt á fæðingardeildum búsins.
Það sem er óhefðbundið er að vorið er í þetta sinn frekar sjaldgæf vortýpa og varla hægt að setja út á það á nokkurn hátt þó fullur vilji sé til þess.
Þannig að í fæðingasprengju síðustu daga ,líkt og í mannheimum er útskrifað af skammtímadeildinni þó lömbin séu enn blaut á bak við eyrun, Því elsta er svo rótað út í blíðuna eftir hendinni og allt gengur feykivel.
Þá er skírskotað til álagspunktanna í mannheimum sem koma í eðlilegu framhaldi af þorrablótum og verslunarmannahelgi.
Aðal skandallinn er að einlemburnar voru illa skipulagðar og fyrr á ferðinni en þrílemburnar sem þær áttu létta á með því að fóstra fyrir þær svo sem eins og eitt lamb.
Það er líka smá mínus fyrir geðheilsuna að tvær tvílembur og ein einlemba ( samkvæmt fósturtalningu) voru með eitt lamb í plús sem er óvanalegt hjá okkar glögga teljara.
Samt trúlega vel sloppið miðað við hversu snemma er talið. Þegar vorar svona fádæma vel ganga önnur vorverk líka í takt og nú er allri akuryrkju og sáningu lokið fyrir löngu ásamt skítakstri.
Aðrir áburðargjafar, þessir innfluttu á lága verðinu eru svo í lokatörninni á leið sinni til jarðar og verða væntanlega komnir á sinn stað þegar fer að rigna seinnipart vikunnar.
Hrossaprógrammið gengur þokkalega á bænum og ég komst meira að segja í hnakk í gærkvöldi sem er alveg 10 dögum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Enn eitt dæmið um hvað gott vor hefur mikla " meðvirkni " í för með sér
Hér er lokajarðvinnslan í gangi og styttist þá í væntanlegt grænfóðureldi húsmæðranna á saklausum bændunum.
Þessir snillingar koma heilir á húfi úr átökum vorsins enda ákaflega vel af Finnum gerðir. Tæknin og hestöflin eru þó á sitthvoru stiginu hjá þeim bræðrum. Annar svona Harlem útgáfa en hinn tvímælalaust Rollsinn í vélaflota Dalsmynnis fyrr og síðar.
Já, nú er bara að vita hvort sleppitúrinn sleppi fyrir slátt.
11.05.2014 04:13
Vorið góða grænt og .....
Vorið er ekkert að læðast að okkur í þetta sinn heldur kemur á svona hraða eins og manni fannst það alltaf hafa komið í gamla daga.
Áttum það náttúrulega inni eftir veturinn.
Allri sáningu lokið fyrir 10 maí sem er skemmtilegur viðsnúningur frá því í fyrra og akrarnir voru í óskastöðu í sáningunni sem er alltof sjaldgæft.
Yngri bóndinn er á þessu úthaldi Hestamiðstöðvarinnar sem tætir, sáir og kemur niður áburði, allt í sömu ferðinni. Þar sem hann sá um plæginguna þetta vorið hef ég varla komið nálægt akuryrkjunni sem er nú bæði gott og slæmt.
Hér er verið að strekkja netið í um km. langri girðingu sem lenti inni í vetrinum en þarf að klára áður en féð fer út.
Ekkert mál að gera það.
Þetta er þó bara hluti af um 2.5 km. nýgirðingu sem mun halda utanum um féð á niðurlandinu en það hefur haft óþarflega mikið umleikis af ökrum og nýræktum vor og haust.
Sauðburðurinn gengur bara nokkuð vel .
Það sem helst slær á ánægjuna er að nokkrar einlembur voru fullbráðar á sér með burðartímann og fóru framúr þrílembunum sem áttu að redda þeim viðbótarlambi.
Nú verður þeim hent út ásamt hrútum því fæðingardeildin er að fyllast .
Þessi tveggja daga mynd er orðin úrelt og ótrúlegt hvað hægt er að setja margt inn í svona stíur um leið og lömbin er 1 - 2. sólahringa gömul.
Ég stóðst ekki freistinguna að smella á þessar tvævetlur sem voru að næra sig fyrir tilvonandi móðurhlutverk. Sýnist að þessar hafi staðist 18 stiga læramarkmiðið ásetningshaustið.
Reyndar var kominn mikill óhugur í okkur eftir að 5 fyrstu tvævetlurnar komu með seinna lambið dautt, hver á fætur annarri.
3 fyrstu alveg nýdauð en í hinum tveim hafði annað fóstrið drepst fyrir nokkru.
Ekki álitlegt, en aldrei þessu vant höfðu verið talin 2 fóstur í nánast öllum tvævetlunum.
Sem betur fer virðist þetta verið komið í rétta gírinn og þær skila sínum tveim lömbum sprelllifandi . 7 -9-13.
Það er svo skemmtileg nýbreytni að mega keyra framleiðslugetu kúnna og fjóssins í botni án þess að hafa nokkrar áhyggjur af kvóta....... .
Enda féllu dagsframleiðslumetin hvert á fætur öðru í síðasta mánuði.
Já, nú er svo bara beðið eftir því hvað vorhretið í maí verður kröftugt til að ná manni niður á jörðina. Hehe.
05.05.2014 05:25
Allt að gerast í sveitapólitíkinni + gömul spakmæli.
- 1