Blog records: 2011 N/A Blog|Month_11

28.11.2011 23:59

Snjóplæging, fuglar og flugsýningar.

Fyrst komu nokkrir fuglar og ekki er ólíklegt að þeir hafi sent einhverja út til að bjóða í veisluna því þeim fjölgaði ört.

 
                        Svörtu deplarnir  beint framundan yfir óplægða hlutanum er hluti af veislugestunum.

 Það var um 30 - 40- sm. jafnfallinn snjór þegar ég lét lét vaða í að plægja síðasta akurinn sem bylta átti í haust. Snjótittlingarnir sem voru eflaust í vondum málum í lausamjöllinni þyrptust að í plógstrengina og skiptu hundruðum áður en lauk.

 Mér fannst skemmtilegt að fylgjast með þeim því allur flotinn hélt sig alltaf aðeins framan við vélina.
 Sátu þar til ég var að komast að þeim,  síðan flugu þeir 30 - 50 m. áfram og settust og tíndu eitthvað í sig af miklu kappi þar til ég nálgaðist og þeir endurtóku þetta.



 Svörtu deplarnir aðeins til hægri eru sko ekki óhreinindi á rúðunni.

 Eftir því sem leið á plæginguna urðu þeir bíræfnari og flugu ekki fyrr en trakorinn var kominn samhliða þeim. En alltaf flugu þeir upp og héldu sig framan við plægingarmeistarann.



 Þeir léku svo ótal listir fyrir mig. Stundum var eins og skýstrókur myndaðist en furðulegast fannst mér þegar allur flotinn tók stóran sveig framfyrir, sneri við og stefndi beint á vélina.

 Þegar þeir nálguðust lækkaði flotinn flugið rétt eins og árás væri fyrirhuguð.  Allt í einu skipti breiðfylkingin sér , klofnaði fyrir framan vélina, sameinaðist aftur fyrir aftan hana, tóku svo sveig framfyrir og settust á akurinn. 
 
 Þetta gerðist þrisvar.

 Þá hafa þeir verið búnir að átta sig á því hvaða öðlingur var þarna á ferðinni, að eyða sunnudegi í að snúa öllu við fyrir þá.

Og nú er komið að ykkur að gefa þeim eða frændum þeirra í ótíðinni.

25.11.2011 22:47

Í tómu tjóni ? Ja, eða ?

   Ég er enn blautur á bakvið eyrun í byggræktinni hafandi ekki stundað hana nema í nokkur ár.

 Þessi ár hafa þó verið býsna lærdómsrík og staðfest rækilega þá skoðun mína að lífið sé lotterí og sérílagi byggræktin. Ræktun olíujurtanna mun að sjálfsögðu falla undir þann flokk líka og reyndar öll akuryrkja yfirhöfuð.

 Að sjálfsögðu á þessi skoðun mín við þennan unaðsreit hér, þar sem ég hef kosið að þreyja þorrann og góuna enda læt ég mér í léttu rúmi liggja annarra manna lotterí.

 Síðasta ár (2010) var metár í bygginu þar sem saman fór gott vor, sumar (fyrir mýrarakrana). og haust.



Mikil úrvalsuppskera náðist í hús m.a. gott sáðkorn  sem nýttist vel í vor,  enda spírunin yfir 90 %.

  Þó uppskera vel yfir 4 t/ha þyki kannski ekki mikil í góðhéruðunum brosum við á Nesinu hringinn þegar það næst.

 Ég hef gefið mér það í bygginu að slæmu árin muni verði fleiri en þau góðu og fyrrnefnd þroskasaga mín hefur staðfest það rækilega.

 Árið 2011 var svo akkúrat í hina áttina, slæmt vor og fyrripartur sumars og haustið skelfilegt.

 Uppskeran var eftir því ákaflega mögur bæði að magni og gæðum.



 Þessi akur sem var þresktur 23 sept. var að skila um 3.5 t/ha en það vantaði töluvert á að úrvalsflokkurinn næðist.



 Þessi akur sem meistari Jónatan er að kryfja til mergjar, lenti í einhverjum ótilgreindum hremmingum og þrátt fyrir að verða mikill að vöxtum þegar fór að líða á sumar reyndist í honum mikið af geldfræjum sem er nýlunda hér. Hann skilaði um 1 t/ha. af nýtanlegu korni um það er lauk.



 Og þessir 21 ha. sem Dalsmynni sf. sáði til í vor skilaði um 55 t. ( um 2.5 t/ha.) sem er kannski svipað og verið er að gefa á búinu yfir árið.

  Það gerir tilveruna samt léttbærari að  nú var ekkert innflutt sáðbygg notað og búfjáráburður notaður að hluta á akrana.

 Fyrstu árin í ræktuninn var þetta ekki eins  áhættusamt  því bæði sáðbygg og áburður var margfalt ódýrara að maður tali nú ekki um olíuna.

 Og þó hagnaðarvonin  ef vel gengur, sé talsverð  í dag vegna hærra fóðurverðs er áhættan orðin umtalsverð og ekki þýðir að sökkva sér ofan í of nákvæma útreikninga, ef koma á meðaltalinu af góðu og slæmu árununum  réttu megin við strikið.

 Já, en það styttist í vorið og nú er rigningin sem er búin að gera akuryrkjuna alveg hundleiðinlega þetta haustið að breytast í fastara form.



 Plógurinn var því loksins settur við í gær og nú er plægt og plægt.

 Já,já, spennandi að vita hvoru megin striks tölurnar lenda næsta árið.

 

22.11.2011 21:49

Að rækta garðinn sinn. - nú eða búpeninginn.


   Í sveitinni þurfa ótal hlutir að ganga upp svo allt leiki í lyndi.

 Einn af grunnþáttunum er ræktunin sem er ákaflega margbreytileg, allt frá hundum til akuryrkju.

 Í gömlu góðu dagana tók maður þessu létt í sauðfjárræktinni. Setti á undan uppáhaldskindunum og eftir allskonar huglægu mati, litum og nefndu það bara.

 Svo tók alvaran við og sett voru allskonar mörk, lágmörk á plúsana og hámörk á mínusa þess sem líflömbin þurtu að hafa til brunns að bera. Í den var nú kjötmatið svo einfaldara og látlausara,  enda  datt engum í hug að éta fitulaust kjöt og annan óþverra sem menn jukka í sig í dag með tilheyrandi heilsuleysi.

 Ein af fyrstu kröfum bóndans við ásetninginn var að ekki yrði settur á einlembingur.
Þetta var gert að slíku grundvallaratriði að það er fyrst nú, síðustu árin að einlembingar eru skoðaðir við ásetninginn enda fljótlegt verk.
Það er svo gaman að skjóta því inn að nú er rætt i fullri alvöru um að hætta að setja á fleirlembinga. (þrí og fjórleminga.)



 Þegar tölvutæknin gat farið að meta kindurnar saman á búinu var farin að færast harka í bóndann ( og lífsbaráttuna)  og lömb þeirra sem voru undir meðaltali í afurðum voru sett út í kuldann.

 Sem betur fer er fjárbóndinn í mun betri stöðu en kúabóndinn við að ná nokkuð skjótum framförum í ræktuninn þar sem hann setur yfirleitt ekki á nema 20 - 30 % gimbranna.

 Kúabóndinn býr við afar þröngan kost í þessum efnum vegna lágs meðalaldurs kúnna og margir verða að setja á hverja kvígu hvort sem móðirin er nothæf eða ekki.
 Sem betur fer hafa  stórstígar framfarir í fóðrun og meðferð kúnna bjargað þvi sem bjargað verður í afkomunni þar. 



Til að særa ekki stolt kollleka  minna í landnámskúatrúflokknum ræði ég þetta nú ekki frekar.

 Sauðfjárræktin er hinsvegar orðin bráðskemmtilegt áhugamál hjá ótrúlegum fjölda fólks og framfarirnar miklar frá ári til árs. Styttist  hratt í að maður þurfi að nota smjör með kótelettunum.

 Á dögunum var sest við tölvuna og hún látin raða upp ám búsins eftir kjötgæðum lambanna( gerð og fita). Síðan var skoðuð frjósemi og mjólkurlagni.

 Þær 25 ær sem komu best út úr þessu, voru síðan samstilltar og munu verða sæddar með úrvalshrútum á öðru gangmáli eftir samstillinguna.



 Þær láta ekki mikið yfir sér þessar toppær búsins, líkar húsbóndanum í fádæma hógværð og lítillæti.

Best að hafa ekki fleiri orð um það.

 
 
Today's page views: 3525
Today's unique visitors: 168
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651623
Total unique visitors: 58044
Updated numbers: 21.11.2024 18:27:08
clockhere