Blog records: 2011 N/A Blog|Month_7

29.07.2011 23:23

Hestaferð og hrakviðri.


  Það var ekki notalegt að ríða suður Litla Langadalinn móti hvassri sunnanáttinni sem færðist öll í aukana þar sem hún þrengdi sig niður innanverðan dalinn. Sunnanrokinu fylgdi að sjálfsögðu úrhellisrigning.

 Þetta var þriðji og síðasti dagurinn í hestaferð með tamningagenginu í Söðulsholti og við vorum þarna 4 á ferðinni með tæp 50 hross.

 Fyrri dagarnir höfðu verið mjög fínir og eftir fasta liði við að koma skikki á trippin/ hrossin í rekstrinum í upphafi gekk þetta býsna vel.



 Hér lestar hrossin sig fallega norðan Bullunnar á leið inn austanverðan Heydalinn  frá næturhólfi í Hallkelsstaðarhlíð, að Bíldhóli. Þetta var svo eins og í gamla daga að það beið manns veisla hjá bændunum þegar komið var með hrossin á næturstað.



 Það eru einhverjir áratugir síðan ég hafði farið á hrossum þessar leiðir og margt kom upp í hugann frá gömlum dögum . Hér er áð á gamalkunnum stað í því sem eftir var af fjárhúshólfinu á Höfða.

 Spáin var slæm fyrir síðasta daginn og veðrið var síðan mun verra spánni, mestan hluta leiðarinnar.
Við riðum gamlar og góðar götur frá Bíldhóli að L. Langadal í þokkalegu veðri og þó ég bæri mig vel við samreiðarfólkið þóttist ég vita að það yrði slæmt suðurúr.
 Við stoppuðum vel við eyðibýlið og lögðum á öflugustu hrossin því það gæti orðið erfitt um stopp með þennan hóp í vitlausu veðri.



 Reksturinn hélt forreiðinni vel við efnið og ekki náðist að stoppa þau almennilega fyrr en niður við Illagil. Hér snúa þau skutnum í veðrið,  sem varð nú strax mun skaplegra eftir að kom suður á Flatirnar.



 Dóri með hádegismatinn í höndunum og Illagil í baksýn.



 Hér er trúlega verið að líta til veðurs í fyrsta áningastað í upphafi ferðar, búinn að spretta af aðalhestinum eftir að talsverðan barning við að kenna stóðinu guðsótta og góða siði.

Fín ferð.

28.07.2011 23:43

Girðingar og græjurnar.

 Hestamiðstöðin var að taka hluta fjalllendisins í  stórt hrossahólf og Gylfi girðingarmeistari og þúsundþjalasmiður mætti á svæðið.

 Girt var þvert yfir dalinn úr skógræktargirðingunni hjá mér.


 Það var gaman fyrir gamlan girðingarmógúl að skoða græjuna hjá Gylfa.



 Það var búið að raða utan og innan á hjólið allt sem þurfti í harkinu.



 Sjón er sögu ríkari.


 Rafstöð og öflugur höggbor til að glíma við holt og klappir.



 Og nefndu það bara.



  Svona á að gera þetta.

24.07.2011 21:46

Bændareið 2011.

 Það var lagt upp frá Skógarnesi um kl. 3.30 og riðinn Skógarneshringurinn. 

 Reiðin var í boði þeirra Einars  Söðulsholti, Auðuns á Rauðkollstöðum og Steins Loga Hrútsholti ásamt Hótel Eldborg. 

 Auk þeirra gesta, bættust við 2 hópar frá Hótel Eldborg svo það voru um 150 í hnökkum og 200 í veislunni um kvöldið.

 Húsfreyjan í Skógarnesi, skörungurinn hún Guðríður bauð gestina velkomna og óskaði þeim velfarnaðar í reiðinni.


 Þessi leið er algjörlega óviðjafnanleg með sléttum gulum sandfjörum og vallendisbökkum, enda var farið greitt milli stoppanna.


 Hér sést yfir hluta hópsins á hlaðinu í Skógarnesi í upphafi ferðar.



 Það teygðist úr hópnum og hér erum við að nálgast rústir verslunarinnar en þar var kaffistopp í bakaleiðinni.



 Hluti hópsins á bakaleiðinni, en lægðinni sem var spáð  að yrði til leiðinda þennan dag var frestað um 12 tíma svo það var hefðbundið bændareiðarveður þennan daginn.



 Tveir forsprakkanna, Auðun og Steinn Logi bera saman bækur sínar áður en næsta JÆJA gellur við.



 Umgjörð Löngufjara, Snæfellsnesfjallgarðurinn sást að þessu sinni í öskumistri sem minnti okkur á að landið okkar á sér ýmsar hliðar.



 Vinkonur mínar úr sleppitúrunum þær Rósa og Diemut létu sig ekki vanta á svona degi.

Dagurinn endaði síðan með mikilli veislu í hlöðu og tjaldi í Skógarnesi þar sem lambslærið sannaði sig einu sinni enn og síðan var sungið inní nóttina.

Takk fyrir mig.
 
Today's page views: 3525
Today's unique visitors: 168
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651623
Total unique visitors: 58044
Updated numbers: 21.11.2024 18:27:08
clockhere