Blog records: 2015 N/A Blog|Month_7
16.07.2015 10:52
Hvolpur til sölu.
Hvolpur til sölu.
Einungis á fjárbú þar sem nóg verður að gera .
Af sérstökum ástæðum er til sölu tík úr þessu öfluga goti .
Henni fylgir skilaréttur / endurgreiðsla til 1 árs aldurs, mánaðartamning og dagsnámskeið fyrir eigandann með hana í framhaldinu.
Gert er ráð fyrir að hún gæti orðið til verulegs gagns í fjárragi haustsins 2016.
Móðirin er Korka frá Miðhrauni.
Faðirinn Dreki frá Húsatóftum.
Foreldrarnir eru báðir mjög öflugir fjárhundar. Sérstaklega ákveðnir og öruggir með sig, með frábært vinnulag og áhuginn í efri mörkunum.
Þegar vinnunni sleppir, sérstaklega skemmtilegir og þægilegir karakterar á heimili.
Tíkin verður loðin og væntanlega yfir meðallagi að stærð.
Hægt að velja úr 4 systrum.
Tilbúin til afhendingar þegar örmerkingu, ormahreinsun og bólusetningu er lokið.
Verð . 75.000 + vsk. við afhendingu.
75.000 + vsk. að lokinni tamningu og námskeiði.
S. 6948020. SELD .
Written by svanur
14.07.2015 08:36
Dropi taminn .
Það koma stundum fyrirspurnir á borðið hjá mér um eitt og annað með hundatamninguna. Hér á eftir er myndband með stuttri kennslustund með rúmlega 7 mán. nemanda.
Þetta er tíundi dagurinn sem ég sýni honum kindur og þarna er ég farinn að kenna allar skipanirnar . Hægri , vinstri, nær og leggstu . Þarna sést hvernig ég byrja að senda hann fyrir hóp til að sækja. Örstutt fyrst en síðan lengt eftir getu hvolpsins.
Þarna stjórna ég öllu sem hundurinn gerir án þess að hann viti af því. Ég veit hvernig hann bregst við öllu sem kindurnar gera og með því að stjórna þeim læt ég hann fara til vinstri/hægri, koma með þær o.sv.frv.. Gef viðeigandi skipanir um leið og hann fer af stað.
Þarna vinnur hann með þeirri fjarlægð sem honum er í blóð borin og er að mínu mati ásættanleg fyrir það hlutverk sem bíður hans .
Þessi hundur er taminn til sölu og verður unninn með aðeins öðrum hætti en ef ég ætlaði mér að eiga hann sjálfur.
Stoppskipanirnar gef ég til að kenna honum að halda hæfilegri fjarlægð þegar hann kemur með kindurnar til mín. 5 - 10 m. er ágætt bil.
Þessi hvolpur er mjög áhugasamur með vinnuna sem hraðar tamningunni mjög og auðveldar hana. Ef áhuginn væri lítill væru t.d. trúlega engar stoppskipanir gefnar eða eitthvað gert sem honum fyndist íþyngjandi á þessum tíma.
Semsagt, það sem mér finnst henta þessum hvolpi í tamningunni þarf alls ekki að henta þeim næsta sem ég fer með út.
Það er svo óþarft að taka fram að það sem ég er að gera er alls ekki það eina rétta og ótal leiðir til þess að koma hundunum í skilning um hvað við erum að reyna að segja þeim.
Hér er slóðin. og verði ykkur að góðu.
Written by svanur
- 1