Blog records: 2009 N/A Blog|Month_6
30.06.2009 21:00
Byrjaði illa en endaði vel. Mjólk og rebbar.
Það kom í ljós þegar mætt var í morgunmjaltirnar að gleymst hafði að kveikja á mjólkurtanknum kvöldið áður. Og það er alltaf jafn súrt að þurfa að hella niður mjólk.
Nú er fjórðungsmótið á Kaldármelum að bresta á og yngri bóndinn sem er djúpt sokkinn í björgunarsveitarmálin verður því lítið að þvælast fyrir í búskapnum næstu dagana.
Eftir að við skutum mórauðan ref í fyrrakvöld vöknuðu ýmsar spurninga og þvi ákvað ég að taka hring um fjöllin og kíkja á grenin þó ég hefði svo sem enga trú á þvi að það svaraði einhverjum spurningum.
Geldingaborgin. Hér í hrauninu eru 2 greni sem eru nokkuð virk . Þau voru tóm þetta árið.
Hnappadalurinn er flottur. Meira að segja Austurbakkinn. Ytri og Syðri Rauðukúlur sem Rauðamelsbæirnir draga nafn af. Gullborgin fjær til vinstri en Heggstaðir og Heggstaðarmúlinn óljóst í baksýn.
Horft niður Rauðamelsfjallið innst úr Urðarborgunum innaf Geldingarborg. Hlíðavatnið fjær, Oddastaðavatnið nær. Hér fyrir neðan er hraun sem ég þurfti að læðast yfir á hjólinu. Það slapp til þó ég hafi ekki farið þetta í nokkur ár.
Hraunkambagrenið ( Rauðmelsgrenið,sjá athugasemdir ) var nánast árvisst þegar ég var að byrja í þessu og fyrsta grenið sem ég komst á sem gestur í boði Sigga Odds. Mér þótti lítið til koma þegar læðan hljóp nánast yfir lappirnar á okkur án þess að verða nokkurs vör. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr tófunni . Það hefur hinsvegar ekki leitt út í þessu greni í mörg ár.
Þetta var síðasta grenið á rúntinum og öll tóm??
Þar sem ég hafði góðan tíma ákvað ég að kíkja á Höfðaurðirnar á stað sem Svenni í Hlíð hafði bent mér á sem hugsanlegt greni fyrir mörgum árum. Ég hafði reyndar aldrei keypt það að þarna væri alvörugreni því það var norðan í urðarborginni og ég hafði og hef aldrei séð greni á svæðinu sem ekki snýr í suður eða vestur. Reyndar fór ég á það í nokkur ár, áður en ég afskrifaði það nema sem viðkomustað fjölskyldu sem væri komin á flakk.
Það sjást tveir yrðlingar á myndinni en þeir eru í felulitunum.
Þarna var enginn umgangur sjánlegur en rétt þegar ég var að yfirgefa staðinn heyrði ég murr í yrðlingi nánast undir fótunum á mér.
Trúlega hefur læðan farið af stað með yrðlingana eftir að heimilisfaðirinn féll frá og komið hérna síðustu nótt..
En hvaðan hún kom er spurning??
Þarna var mikið fuglalíf. Meira að segja Jaðrakan spígsporaði þarna um við tjörn rétt við grenið.
Þeir sviku mig samt algjörlega við að tilkynna komu læðunnar sem var nánast samlit mosanum þarna.
Hvíta læðan sem laut samt í gras um rúmum 4 tímum seinna er trúlega með eldri dýrum sem ég hef skotið.
.
Við þóttumst þekkja læðuna sem betri helming þess mórauða sem fyrr er nefndur.
Hvað segið þið sérfræðingarnir svo um aldurinn á þessum tönnum..
Hún hafði samt skilað 5 yrðlingum í vor enda mikil frjósemi í rebbunum þetta árið.
Svo er það spurningin fyrir vini mína á austurbakkanum sem eiga, eða taka sér beitarrétt í gósenlöndum vesturbakkans, hvort það sé nokkur sanngirni í því, að þeir njóti grenjavinnslu hér þegar sveitarfélagið þeirra er búið að leggja af þessa þjónustu heimafyrir??. Ja, ég bara spyr nú svona.
Og enn er a.m.k. 3 spurningum ósvarað í rebbamálunum.
28.06.2009 22:00
Veðurfræðingarnir og heyskapurinn.
Já, loksins var tekið hraustlega á því um helgina í heyskapnum.
Eftir að í ljós kom að rigningin sem veðurstofan hafði verið harðákveðin í að kæmi á
fimmtudagskvöld myndi ekki mæta á þessu svæði hér ( 2 þurrkdagar tapaðir), var föstudagurinn tekinn í slátt.
Þar sem þurrkurinn yrði greinilega stuttur og yngri bóndinn sífellt kröfuharðari um þurrara hey var einungis slegið með knosaravélinni. Reyndar er áhættan talsverð ef rigndi ofaní knosað heyið en lífið yrði dauflegt ef ekki eru teknar alvöru áhættur öðru hvoru.
Það voru slegnir um tuttugu ha. og þessu var síðan rúllað í dag. Sá yngri hefði vafalaust viljað sjá það þurrara en hann bar harm sinn í hljóði.
Sprettan var mjög fín en þroskastigið hefði þolað nokkra daga í viðbót.
Hinsvegar bar talsvert á legum í vallarfoxinu sem staðfesti það að mykjan hefur nýst afar vel , síðan er hugsanlega meiri köfnunarefnislosun í mýrartúnunum þetta árið en vanalega?
Það eru samt fræði sem ég ætla ekki að hætta mér út í.
Mér finnst alltaf jafnslæmt að geta ekki treyst betur á veðurfræðingana þegar þurrkurinn er tæpur í sunnan og vestanáttunum. Það segir manni lítið þegar þeir benda á vesturlandið og tala um skúri á stöku stað eða inn til landsins. Það er líka bíbölvað þegar er ákveðin rigningarspá á Snæfellsnesi og vestur í Dali en rigningin nær aldrei nema upp í Borgarnes eins og núna á fimmtudaginn.
I natt og i morgon, 28. juni 2009
Hérna sjáið þið þjónustuna sem vinir okkar norðmenn veita og nú verður gaman að sjá hvort rigningin sem veðurvitarnar okkar á klakanum voru búnir að segja að yrði komin hér á hádegi 28. og er ókomin enn, verði á tíma norsaranna um miðja nótt.
Nú er bara að bíða eftir næsta þurrk hvort sem hann verður í boði Íslendinga eða Norðmanna, en þá verður tekin önnur 20 ha. törn.
Megi hann bara koma sem fyrst.
27.06.2009 21:00
Lúpínan. Bjargvættur eða óvættur?
Mamma féll náttúrulega fyrir þessu eins og eðlilegt er og setti niður Lúpínu í opna mela t.d. eins og sést hér fyrir miðri mynd.(Litli bletturinn). Lúpínan til vinstri á myndinni er að leggja undir sig mosa og annan gróður hægt en örugglega.
Já, stundum fer allt úr böndunum og hér sést ógnandi Lúpínuhersveitin kíkja framaf brekkubrúninni fyrir ofan aðal, aðalbláberjaforðabúr heimilisins.
Hér sést vel hvernig óvinurinn er búinn að rótfesta undanfarana, niður í bláberjalynginu. Þarna uppi var Lúpínan sett niður í mel og út úr honum sækir hún í allar áttir.
Já, innrásin í gamalgróna brekkuna er miskunnarlaust hafin, og trúlega óþarfi að spyrja að leikslokum..
Það hefði nú ekki þurft margra ára tilraunir til að komast að þessum galla bjargvættarins hér á skerinu og í framhaldinu hefðu menn haldið Lúpínunni frá öðru en uppgræðslu á örfoka eyðimerkum/söndum.
En það er of seint að byrgja brunninn.........................