Blog records: 2009 N/A Blog|Month_12

31.12.2009 09:05

Jólasveinn og hrossasmölun.

  Þegar afastelpan gisti í aðdraganda jólanna kom hún allt í einu þjótandi fram og fór að leita að skónum sínum.

 Það hafði nefnilega gleymst að setja hann upp í glugga.



 Þegar gamla liðið fór að velta því fyrir sér hvort sveinki myndi nú finna hana hér í ömmuhúsi þá hnussaði í þeirri litlu. Trú hennar á óskeikulleika jólasveinsins var algjör.

 Enda reyndist hún sannspá með það.

 Það er orðinn fastur liður í hrossahaldinu um áramót að ná saman hrossunum og koma þeim í gerði eða hús meðan hernaðarástand ríkir í sveitinni.

 Hrossin sem ekki eru hæf með hryssunum eða tryppunum eru ofan vegar þar sem þau komast inn á dal ef þannig liggur á þeim.

 Þar höfðu þau haldið sig í nokkra daga og þar sem drullukuldi var ríkjandi, dæmdist það á mig að ná þeim til byggða í gær.

 Það kom fljótt í ljós að þau voru nú eiginlega til í að fara í allar áttir annað en heim á  leið.

 Það getur orðið snúið að glíma við óþekk hross í fjallinu, þar sem þau geta forðað sér útí krappaþýfi eða upp í hlíðar.

 Þá er grundvallaratriði að fjórhjólamaðurinn sé klár smali, þekki landið vel og hafi almennilegum raddböndum á að skipa, á þýðingarmiklum augnablikum.

 Sem betur fer var akkúrat þannig smali á ferðinni núna þannig að allt náðist í kontrol áður en lauk.


Hrossin komin niður fyrir Þvergilið og virðast búin að ná áttum. Þau áttu samt eftir að taka eina góða aríu enn, áður en lauk.

 Og eins og Akureyringarnir segja voru þetta náttúrulega að stærstum hluta " aðkomuhross".



 Hér eru þau komin niður og stefna á smalann og heyrúlluna og öll dýrin í skóginum orðnir vinir.



 Kannski kannast einhverjir síðulesendur við óþekktarormana sína sem senda þeim jólakveðjur úr sveitinni.



 Þar sem ég er alltaf settur á lélegasta dótið ef eitthvað er verið að snúast fyrir hrossaaðalinn, var bensínputtinn um það að frjósa þegar hér var komið sögu.

 Spurning hvernig ástandið á honum verður eftir smalanirnar í dag, þegar öllum hópum verður komið í gerði, þar sem þau eyða nóttinni við ljós og einhverja graðhestamúsík.

 Megið þið svo eiga ánægjuleg áramót og farsælt komandi ár.emoticon

Með þökk fyrir það gamla.emoticon

 

30.12.2009 09:03

Saltborg óttans, skólamálin og lausaganga hrúta !!

 Það var hálfgerður skafrenningur þegar ég renndi uppúr göngunum á suðurleið i gær.

 Hálkan á leiðinni sem var búið að hræða mig með, fannst sem betur fer ekki en söltunin á bílnum var svo með hefðbundnum hætti á höfuðborgarsvæðinu.

 Það var verið að koma alvörubílnum á dekk fyrir næstu fjögur árin eða svo, en það var orðið löngu tímabært.

 Hafnfirðingurinn hann Pero, er sá alharðasti sölumaður sem ég hef kynnst og sem betur fer selur hann hvorki báta né flugvélar því hann hefði þá örugglega selt mér annaðhvort, nú eða bæði.

 Eftir að hafa fundið réttu dekkin og búið til rétta verðið á þau, var bíllinn tekinn á lyftuna en ég sneri mér að kaffidrykkju og símamálum á meðan.

 Þetta var hraðferð og eftir að hafa kíkt á eina útsölu var stefnan tekin útúr saltinu, stressinu og bensínstybbunni aftur í sveitina.

 Hvorki komið við hjá tengdamúttu né Hlað sem eru nú yfirleitt fastir viðkomustaðir í borgarferðunum. Enda stutt í næstu viðkomu þar.

 Og eins og Pero hafði fullvissað mig um komu nýju dekkin afbragðsvel út .

Kvöldinu var svo varið í hreppsnefndarfund um skólamálin en nú fer að styttast í niðurstöðu í samningaviðræðunum við Borgarbyggð um Laugargerðisskóla.

 Og mér skilst að fyrsta mál á dagskrá bæjarstjórnar Grundarfjarðar eftir áramótin, verði bann við lausagöngu hrúta í þéttbýlinu.emoticon

28.12.2009 08:59

Margrét í Dalsmynni og jólahaldið.

 Mamma sem er að verða 87 ára var í sveitinni um jólin.

 Annars dvelur hún á Dvalarheimilinu í Borgarnesi og er ótrúlega ánægð með sig þar en lengi vel kom ekki til greina hjá henni að yfirgefa sveitina.

 Hér er hún með heimasætunni í Dalsmynni en gamla konan á um 90 afkomendur og geri aðrir betur.
 
Allt toppfólk náttúrulega.

 Það var ekki nóg með að hún kæmi 11 börnum til manns, heldur minnist ég þess í uppvextinum  að oftast voru 2- 4 börn " í sveit " yfir sumarið, þó svona eftir á að hyggja skilji maður ekki  alveg hvernig þetta var hægt.



 Kolbrún skellti sér út í frumskóginn með pabba og jólatréð var sótt.



Langömmubörnin, Kolbrún og Aron koma fyrsta pakkanum fyrir á sínum stað.


Fyrir litla fólkið er borðhaldið alltaf of tímafrekt enda mikil vinna framundan.



 Það er rétt að hjálpa langömmu að opna pakkann sinn enda alltaf spennandi að sjá hvað er í þessum pökkum.



 Sumir voru nú ekkert að stressa sig á lengd borðhaldsins a.m.k. ekki þetta árið.

 Á laugardaginn kom svo allt í einu mikill ferðahugur í gömlu konuna en þó tókst fresta brottferð fram á sunnudaginn. 

 En veðrið í sveitinn er allt í einu orðið eins og það á að vera um jólin, logn og heiðskírt.

Today's page views: 3525
Today's unique visitors: 168
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651623
Total unique visitors: 58044
Updated numbers: 21.11.2024 18:27:08
clockhere