Blog records: 2014 N/A Blog|Month_4

25.04.2014 20:49

Alltaf til gleðigjafar endalaust.


 Árstíðirnar leggjast misþungt á okkur bændaskarfana .


 Nú er annasamasti hluti ársins brostinn á fyrir nokkru og það verður allt á útopnu út maímánuð.

 Botnlaus blíðan síðustu dagana gerir þetta enn skemmtilegra og það að fá hvern logndaginn á fætur öðrum í mykjudreifinguna er eins og að vinna í lottóinu.



  Þessi 18 t. mykjudreifari barst líka upp í hendurrnar á okkur eins og hver annar lottóvinningur og það var alveg sérstaklega ánægjulegt að eiga viðskipti við Skeiðamenn. Fá 10,5 fyrir sanngirni og orðheldni.

 Kom mér reyndar ekki á óvart því konan sem hefur komið mér gegnum lífsins ólgusjó  síðustu, tæpu 40 árin er einmitt fædd og uppalin á Skeiðunum.

Já, þannig að mykjudreifingu lýkur vonandi á morgun.



 Vorboðinn í áburðarsekkjunum er samt ekki ókeypis og nú fer ég að verða búinn að kanna notkun næstum allra áburðartegunda sem í boði eru. Enginn hefur þó slegið út þjónustuna sem þessi flutningsaðili bauð, BB og synir Stykkishólmi. Ég gerði ekkert nema vísa honum á staðinn fyrir áburðinn og hann sá um losunina sjálfur.


 Það er óskaplega langt síðan hér hafa verið hross á húsi en nú er loksins búið að gera stíurnar klárar í fjárhúsinu og komnir inn 4 snillingar .  Tveir margreyndir og tveir verðandi, verða teknir til kostanna af verknemanum og yngri dótturinni.

 Óþarft að taka fram að ég mun  ekki verma hnakkinn fyrr en að loknum sauðburði.

 Næst á dagskrá er að koma upp burðarstíum , klára girðingarvinnu sem lenti inní vetrinum og taka á móti tæplega 300 lömbum.


 Yngri bóndinn mun hinsvegar tvíhenda sér í akuryrkjuna um leið og sígur úr ökrunum.


 Í þeim málaflokki er þó hægt að hugga sig við það, að útkoman úr þeirri búgreininni getur ekki orðið lakari en í fyrra.

 Alltaf hægt að finna eitthvað sem kætir mann. emoticon


07.04.2014 19:59

Að kenna gömlum hund að sitja .


Þetta gjörbreytta tíðarfar er ekki slæmt og nú vonar maður bara að páskahretið verði svona hret sem enginn tekur eftir.

Svoleiðis páskahret koma sem betur fer alltaf öðru hvoru.


 Það var fenginn klaufskurðarstóll að láni og bústofninn klaufsnyrtur með látum einn daginn.


Ekki slæmt að hafa það fyrir aftan sig.

 Planið var að loka á hundatamningar um síðustu helgi en það fór allt í klessu eins og fyrri daginn.


 Og til að bæta um betur endurskoðaði ég nokkurra ára ákvörðun um að hætta öllum leiðbeininganámskeiðum.


  Ég hafði í nokkurn tíma velt því fyrir mér að það væri gaman að prófa að stokka upp námskeiðstilhögunina, fækka þátttakendum og leggja meiri vinnu í hvern hund.

Þegar mér bauðst svo að skella upp tveim dagsnámskeiðum  með þessum hætti stóðst ég ekki freistinguna.




 Mér fannst þetta koma býsna vel út , miklu minna hangs á þátttakendum og þeir hundar sem á annað borð voru tilbúnir í kindavinnuna bættu sig.

 

 Og eins og alltaf, lærir maður sjálfur hitt og þetta og sumt hefði ég mátt gera öðruvísi við framkvæmdina.



 Þessi tvö fylgdust áhugasöm með því sem var í gangi á vellinum, bæði innflutt og annað þeirra  laust úr einangrun fyrir aðeins örfáum dögum.


 Alltaf skemmtilegt þegar svona kröftugir nemendur mæta og hrista aðeins upp í deginum.


  Aldrei áður hef ég fengið 8 ára hund á námskeið hjá mér.  Það var sérlega gaman að sjá hvernig eigandanum tókst að breyta vinnulaginu á honum þessa dagstund.

 

 Lítið mál að kenna gömlum hund að sitja emoticon .


  • 1
Today's page views: 3525
Today's unique visitors: 168
Yesterday's page views: 668
Yesterday's unique visitors: 92
Total page views: 651623
Total unique visitors: 58044
Updated numbers: 21.11.2024 18:27:08
clockhere