Blogghistorik: 2012 N/A Blog|Month_10

29.10.2012 20:40

Fénaður og framkvæmdir.

  Nú sækir veturinn að, bæði af dagatali og úr veðurstofunni og ekki lengur vikist undan því að taka inn lömb og veturgamalt.

 Ég kláraði þó fyrst að spúla sláttuvélarnar því það þarf að koma þeim í hús líka,  þó seint sé.



 Korka og Dáð urðu allshuga fegnar að fá að spreyta sig, því vegna annríkis hef ég lágmarkað allt smala og fjallastúss þetta haustið.



  Þær fengu því að vinna þetta og það var gert eins mikið úr þessu fyrir þær og mögulegt var.


 
Síðustu vikurnar er ég  að mestu leiti einn að dunda mér í fráganginum innanhúss og þetta gengur því nokkuð hægt og örugglega, allavega ef mælt er í hænufetum.
 
 Það sem að veldur þó mestu ólgunni á magasýrunum er að keyrsluhurðin er ekki tilbúin til afhendingar fyrr en eftir rúma viku.



 Og yngri bóndinn er að leggja lokahönd á járnverkið í geldneytastíurnar fyrir galvanhúðun.



 Ef allt gengur upp kemst þetta norður á Akureyri á morgun og rétt að gefa ekki upp áætlaða tímasetningu á því að steypa þetta niður.



 Já sumarið er búið og ljóst að framkvæmdirnar munu lifa eitthvað inn í veturinn.

27.10.2012 20:49

Útsmognar gæsir og öndvegis tíðarfar.

 Þó ég sé fyrir löngu búinn að læra að lifa með veðráttunni  sem í boði er á hverjum tíma, tuða ég gjarnan eitthvað þegar boðið hefur verið uppá rakna ótíð í lengri tíma.

  Áður var svo  sem ekkert verið að leggja slíka kafla á minnið og nú hverfa þeir fyrirhafnarlaust úr sífellt takmarkaðra minninu um leið og þeim lýkur.

  En óneitanlega hefur veðurfarið bein og óbein áhrif á afkomuna, þó ég og kollegar mínir í bændastétt eigi ekki jafnmikið undir því og Klettafjallaskáldið þegar honum varð að orði.

Ég er bóndi og allt mitt á,
undir sól og regni.

 Það situr þó í manni ef uppskerubrestur verður vegna veðurfars eins og s.l. ár í bygginu og hausttíð eins og þá, þegar ekki náðist einu sinni nothæfur hálmur.


 Rétt að taka fram að svörtu blettirnir eru sandur sem kom þegar rúllurnar voru lagðar niður til að stafla þeim uppá endann.

  Nú upplifir maður hinsvegar haust þar sem allt er í lukkunnar velstandi, bygguppskeran bara tekin áfallalaust þegar hún er tilbúin, hálmurinn loksins hirtur seint og um síðir vegna annríkis og vélabilana og síðast en ekki síst allar fjárleitir framdar í eðalsmalaveðri.

 Að sjálfsögðu er ég svo heppinn að akkúrat svona haust var ég dundandi  alla daga innandyra við fjárhúsbyggingu.

 
 Nú fer gæsinni að fækka á svæðinu enda hennar hlutur í bygguppskerunni minni en oftast áður vegna ólátalítils veðurfars. 


 Síðustu haust er eins og hún sé að breyta hegðunarmynstrinu og helgast það trúlega af því að henni líkar illa við síbreytilegar sóknaraðgerðir veiðimanna.  Reyndar var fullyrt við mig að þær alklárustu væru búnar að fatta framtíðarlausn á veiðimannavandamálinu og farnar að vitja akranna að næturlagi.



 Þessar komu þó í birtingunni og eru greinilega búnar að átta sig á að hér er ekki allt með felldu.



 Hér áttu þær þó góðan dag, enda eru þeir nú fleiri dagarnir  sem vopnahlé gildir en hinir.

Já þetta sumar og haust fá góð eftirmæli hér allavega hvað veðurfar varðar.

21.10.2012 20:54

Góðir og slæmir árgangar í víni,hrútum og fl.

 Ágætur vinur minn og næstum uppáhalds sveitungi er mikill áhugamaður um rauðvín. Hann fer árlega til Frakklands ásamt félögum sínum til að taka þátt í smökkun og mati nýja árgangsins þegar árangurinn liggur fyrir.

 Nú á lokaspretti haustsins koma sauðfjáræktendur saman með nýjasta árganginn af ræktuninni sem næstu ára framleiðsla af besta kjöti í heimi mun byggjast á.
  Það er ekki nóg ,með að lambhrútaeigendur fjölmenni á sýningar með hrútana sína heldur mætir alltaf nokkur hópur hrútlausra áhugasamra ræktenda og ekki er óalgengt að menn og konur komi úr öðrum héruðum til að athuga hvort nokkuð sé nothæft á viðkomandi sýningu.

 Hér á Nesinu  er félagssvæðið slitið í sundur af sauðfjárvarnarlínu sem liggur þvert yfir  það. Þetta kallar á tvær sýningar , austan girðingar og vestan.  Föstudagskvöldið var tekið í sýninguna austan girðingar og var hún haldin að Haukatungu.

 Á laugardeginum var svo aðalsýningin haldin að Gaul í Staðarsveit og var eðli málsins samkvæmt  mun stærri í sniðum. Þar er síðan sameiginleg niðurstaða  kynnt.

 Gamalreyndir ræktendur halda því blákalt fram að í hrútunum sé rétt eins og í víninu, góðir árgangar og slæmir. Eitt haustið sé mikið úrval af topphrútum og vandi að velja en varla náist svo nothæfur hrútur annað haustið. Oft sé gimbraúrvalið svo í öfugu hlutfalli við hrútana. Þetta á samt ekki við um héruð eða landshluta heldur einstaka bæi.  Að sjálfsögðu kunna menn enga skýringu á þessu frekar en svo mörgu öðru á flóknum refilstigum búfjárræktarinnar. 

Á fyrri sýningunni í Haukatungu settu dómararnir upp pókerfésið og gættu þess vandlega að ekki sæist með nokkru móti hvað þeir teldu álitlegast. Völdu 5 úr hverjum flokki sem þeir grandskoðuðu án þess að láta nokkuð uppi.



 Hér eru áhugamennirnir komnir af stað en þeir eru gjarnan mun lausari á skoðunum sínum og þessir tveir voru nú með þetta á hreinu þegar þarna var komið sögu.



 Þegar fór að líða á sýninguna í Gaul fór að æsast leikurinn enda mikið af úrvalshrútum á ferðinni.
Hobbýbændurnir á þéttbýlisstöðunum setja mikinn svip á sýninguna þarna. Gríðarlegt áhugafólk í ræktuninni. Mislitu hrútarnir á svæðinu eru svo margir orðnir afbragðsgóðir og gefa sumir þeirra þeim bestu hvítu lítið eftir.

 Ég var nú alveg dottinn útúr þessu sýningarhaldi á tímabili en fyrir 3 árum tóku börnin til sinna ráða, smöluðu lambhrútunum upp á kerru og mættu með þá á sýningu.

 Þetta var trúlega gott ræktunarár hjá mér því einn þeirra datt inn í annað sætið í hvítum hyrndum.

  Það hefur svo líklega verið slæmur árgangur í fyrra en þá fór engum sögum af góðum lambhrútum í Dalsmynni.
  Í ár fannst mér nú að gimbraárgangurinn hefði alveg mátt vera betri,( finnst það nú reyndar alltaf) en kvarta ekki yfir hrútunum.

 
 Reyndar komst sá stigahæsti ekki á pall. Sá var 62 kg og með 86.5 stig.
Myndaefnið hér að ofan var 53 kg og með 85.5 stig. 8-9-9-9-8.5-18.5-7.5-8-8- fótl 111. Ómvöðvi 37-4.3- 4.5.  Hann gerði sér lítið fyrir og vann hv. hyrnda.

 Þessi hrútur er undan tveggja vetra Atsdóttur. Sú er undan Busadóttur. Faðirinn er Borðasonur frá Ásbirni í Haukatungu. Hann hefur verið vatni ausinn og skírður Arnar Ásbjörnsson.



 Yngri húsfreyjan, Guðný Linda tekur við farandskildinum af dómurunum þeim Lárusi og Eyjólfi.

Það er svo allt um sýninguna, úrslit stigun og nefndu það bara á blogginu hennar Dísu frá Mávahlíð.   http://isak.123.is/home/
Antal sidvisningar idag: 3801
Antal unika besökare idag: 197
Antal sidvisningar igår: 668
Antal unika besökare igår: 92
Totalt antal sidvisningar: 651899
Antal unika besökare totalt: 58073
Uppdaterat antal: 21.11.2024 19:52:51
clockhere