Blogghistorik: 2008 Visa kommentarer
31.07.2008 23:03
Heyskapur.
Atli Sveinn á fullri siglingu með Viconinn sem hefur ekki slegið feilpúst í sumar, eftir að skemmda beltið var lagfært. Yrkjar ehf. eiga Viconinn og er greitt fast gjald á rúllu.
Það var ekki legið í leti í dag heldur drifið í plast, bæði há og hrossahey. Við feðgarnir sem eru manna rólegastir, komumst alltaf í mikið stuð þegar að heyskapnum kemur og þó hann sé alltaf (oftast) skemmtilegur er hluti af ánægjunni að hann skotgangi.
Það var líka eins gott því 10 m. vindhraðinn sem spáð var í kvöld er orðinn eitthvað mikið meira sem er velþekkt hér í ákveðinni átt.( En annars er náttúrulega oftast logn).
Þessi Pöttinger múgavél er alveg tær snilld. Hægt er að lyfta ytri stjörnunni og minnka þar með vinnslubreiddina um helming. Þá er hægt að skjóta út stjörnunum og setja múgspjald milli þeirra. Þá koma tveir múgar. Og þó fyrirferðin sé mikil er lipurðin alveg ótrúleg því hjólin aftast á vélinni beygja með dráttarvélinni. Og ef maður nennir að stilla hana sleikir hún túnin algjörlega.
Ég var í rakstrinum og þar sem rúlluvélin takmarkar afköstin er mottóið að hafa múgana eins stóra og Viconinn þolir, til að minnka yfirferðina hjá henni. Sem gamall rúllunarmaður var mér farið að blöskra stærðin á múgunum í dag, en Atli hefur ekki kvartað enn. Og hrossaheyið sem átti að vera eftir uppskriftinni hennar Ransý var orðið nokkuð þurrt, þó því hefði ekki verið snúið. Fóðurgildið var hinsvegar orðið dapurt en þetta leit samt býsna vel út í plastinu.
Svo þegar ég var að stinga mér í pottinn í kvöld hringdi Hallur í Sænautarseli og sagði að hjá sér væru staddir Þjóðverjar sem væru að leita að B.C. hvolpi til kaups. Aðspurður sagði hann að dóttur sín hefði fundið mig/hvolpana á netinu.Hvernig hún hefur farið að því er mér hulin ráðgáta.
En þeir eru alltaf góðir Jökuldælingarnir hvort sem þeir eru að gera grín að mér eða öðrum.
30.07.2008 23:56
Hildur og Jonni gifta sig.
Það var hátt til lofts og vítt til veggja í guðshúsinu þar sem athöfnin fór fram á sunnudeginum.
Það er alltaf skemmtilegt að mæta í giftingar því allir eru svo hamingjusamir og glaðir. Stundum finnst manni örla á því að foreldrar (sérstaklega mömmurnar) brúðhjónanna verði stundum dálítið hugsi en það er trúlega misskilningur.
Það var búið að vera pínu stress í gangi um morguninn því rigning í kortununum og skýjafar sem jókst þegar leið að giftingu ógnaði athöfninni. Þetta slapp samt allt og það birti til á ný og dagurinn endaði í logni og sól.
Veislan var síðan í hlöðunni og þar var bóndinn nánast á heimavelli og erfiði gærdagsins (bændareiðin) hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Vegna veðurblíðunnar gekk illa að hemja veislugesti innandyra og þessu lauk síðan með dansi á flötinn framan við hlöðuna.
Megi svo ávallt verða svona bjart yfir ungu hjónunum og þennan eftirmiðdag.
29.07.2008 20:35
Kvóti, dótakaup og heyskapur.!!
Það fæst ekki fjárveiting fyrir þessum þó flotið í afturbeltunum sé það sama og í 8 hjólum og trúlega rigningarhaust framundan!!!.
Mega útlendingar kaupa bújarðir á Íslandi spurðu dönsku bændurnir sem komu til mín í dag? Þeim þótt ég fá gott verð fyrir mjólkina mína. Það sló á áhugann að heyra verðið á kvótanum en landverðið óx þeim ekki svo mjög í augum.
Það versnaði í því þegar spurt var um þennan mikla og dýra/nýlega vélaflota á mörgum býlanna sem þeir höfðu ekið framhjá. Ég sagði sem satt var(aldrei þessu vant) að íslendingar upp til hópa væru dótafíklar. Í þeim hópi væru nokkur hluti bændanna.
Þetta var skemmtilegur hópur og þó ég hefði verið ræstur út í miðjum slætti með 30 mín. fyrirvara bauðst ég til að sýna þeim hvolpana mína. Gædinn .ísl. búsettur í Danmörku ákvað að kaupa hvolp af mér. Ég vil fá þennan sagði hann og strauk hvolpinum sem kom fyrstur til hans. Sá var því miður seldur . Þú heyrir í mér þegar ég hef skoðað útflutningsmálin sagði kaupandinn, en hann valdi sér samt ekki annan úr þvögunni.
Já það var tekið til hendinni og slegið í dag. Hrossaheystúnin sem við Einar höfum hjá Trausta vini okkar í Skógarnesi,(um 15 ha.) og háin hér heima, var tekin líka. Hrossaheyið var orði trénað og verulega úr sér sprottið eins og vera ber. Háin var frá því að vera moksprottin og niður í helv. hörmung. Þetta var samt allt tekið því nú þurfa þessi tún að gera sig klár fyrir beitina sem fyrst. Kýrnar sem fyrst og seinna fer hluti af fénu þar inn..
Og um leið og slættinum lauk var farið að hóta rigningu á fimmtudagskvöld.