Blogghistorik: 2012 Denna post är låst. Klicka för att öppna.

29.08.2012 21:33

Lokað á smíðarnar . Opnað á hundana.

Eftir smásteyputörn í dag verður tekið frí frá allri byggingarvinnu fram á mánudag.


 
Næstu fjórir dagar verða helgaðir hundunum mínum og reyndar annarra, því um helgina stöndum við Í Snæfellingsdeildinni fyrir Landskeppni Smalahunda að Kaldármelum.
 
  Á morgun og föstudaginn verð ég ásamt fleirum á námskeiði hjá dómara keppninnar, James Mc Gee írskum snillingi og heimsmeistara frá því í fyrra.

 Keppt verður á laugardag og sunnudag í A, B , og unghundaflokki og ræður samanlagður stigafjöldi keppenda í þessum tveim rennslum úrslitum.



 Hér sést Vaskur sálugi einbeittur í keppnisslag.

 Aldrei sér maður gamla málsháttinn " að hinir síðustu verði fyrstir og þeir fyrstu síðastir" rætast jafnoft og í fjárhundakeppnum þar sem ótrúlegustu uppákomur verða oft í brautinni enda eiga kindur, hundur og smali sína góðu og slæmu daga .



 Hér leggur Dáð til atlögu við staðar ær í fyrra, en það má segja að hún hafi  óþarflega oft átt slæma daga í keppnunum sínum,

 Spennandi að sjá hvernig henni gengur um helgina.



 Að öllum líkindum mun hún Korka Tinnadóttir fá að þreyta frumraunina  í brautinni, en hvort henni tekst að verja íslandsmeistartitil föður síns í unghundaflokknum frá því í fyrra, er önnur saga.

 Það lítur út fyrir ágætt veður allavega á sunnudag og lokarennslin geta orðið spennandi enda munu sjást í brautinni hundar/tíkur sem óhætt er að fullyrða að séu á heimsmælikvarða að gæðum.

 Byrjað verður á unghundum kl 10 um morguninn báða dagana. síðan er B fl. og endað á öflugasta flokknum ( A ) eftir hádegi.

 Boðið verður uppá ódýran hádegismat í toppaðstöðu á Snorrastöðum í hádeginu og síðan verður þar mikil grillveisla á laugardagskvöldið. Þangað eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir, þurfa bara að skrá sig í kvöldmatinn tímalega á laugardeginum.

  Já, þetta verður bara skemmtilegt.

20.08.2012 23:04

Tölvuspár, hrakspár, heyskapur og............

 Einhverra hluta vegna fer það alltaf dálítið í mínar fínustu að vera í heyskap í ágústmán.

 Dimmt á kvöldin, veðurfarið einhvernveginn ótryggara en náttfallið öruggara o.sv.frv.

En maður verður nú samt að láta sig hafa það.

 Þegar átti að ráðast á hána í síðustu viku var spáin frekar loðin og teygjanleg. 10 m. na. vindur í spá þýðir oftast 12 - 14 m. hér og því var legið yfir vindatölvuspánni sem sýnir þennan mismun  af mikilli nákvæmni eftir svæðum. En tölvuspáin er eins og allar aðrar spár ekki sú nákvæmasta þó oftast fari ég alfarið eftir henni...

 Vandamálið er .það að í 10 m. er von til þess að háin fjúki ekki út á hafsauga eins og í 12- 14 m.


 Þegar metrunum fór fækkandi var samt látið vaða í þeirri von  að nást myndi að plasta áður en hvessti seinnipart laugardags. En spáin fór öll í klessu og ekki var hægt að eiga við stærstan hluta heysins fyrr en seinnipart sunnudags og mánudagsmorgun.



 Aldrei þessu vant stóð eða réttara sagt lá háin .þetta af sér og skilaði sér vel í múgana enda múgavélin alveg tær snilld við að sleikja upp hvert strá án þess að koma við rótina.




 Hér er innri stjörnunni lyft til að fyrsti múginn verði ekki of stór.



 Og Viconinn skilaði sínu fyrir utan 2 tveggja tíma stopp vegna bilunar sem Atla Sveini
tókst að redda enda hafa hann og Viconinn marga fjöruna sopið eða þannig..



 Það var samt ekki lagt í að slá hjáleigurnar vegna óvissunnar. svo það er ein törn eftir enn áður en endapunkturinn er settur við heyskapinn.

Það liggur þó fyrir að hér stefnir í heyskaparmet þrátt fyrir þurrkana enda borið á öll tún aftur sem er óvanalegt.

13.08.2012 23:50

Lok lok og læs og allt úr stáli- og steypu.

 Eftir að hafa lokið steypuvinnu í flatgryfju með allskonar dúlleríi, dælubrunni,loka göngudyrum og ganga frá gólfsamskeytum ofl. var sett stopp á þá framkvæmd í bili.

 Svona lítur þetta út í augnablikinu en til að gjörnýta gólfplássið  eru steyptar loftplötur fyrir fóðrun og fl. en undir þeim verða síðan hálmstíur fyrir smákálfa.



Hér muna koma 4 stíur. Yngstu kálfarnir munu taka sitt fóður hér næst  en hinar stíurnar af pallinum fjær.

Næst er að koma skemmunni upp og loka henni en síðan mun yngri bóndinn snúa sér að því að smíða innréttingar í flatgryfjuna fyrrverandi, sem notuð verður í kvíguuppeldið.



 Hér er búið að krossstaga milli sperra og stállangbönd komin á sinn stað.

  Það er dálítið skrítið að vera með hús í byggingu sem ekki á að fyrirfinnast spýta í, fyrr en þá kemur að innréttingum en skemman sem hér er í burðarliðunum er öll úr stáli.

 Sögin fær frí en slípirokkur, borvél og rafsuða eru málið.


Burðarvirkin sem voru flutt inn á síðustu metrunum fyrir hrun og hafa legið hjá innflytjandanum síðan, voru í upphafi ætluð fyrir íbúðarhús og þurfti að breyta endasperrum ( lengdar) og ýmsu öðru svo þessa dagana hefur mannskapurinn verið í allskonar föndri í misþurru tíðarfari.



  Atli Sveinn að bæta inn festingu fyrir langband sem kemur í gluggahæð.



 Og Diddi sem er trésmiður, lætur sig hafa það að föndra við blikkið með slípirokk og bora stálið eins og hann hafi aldrei gert annað.

 Þetta rúmlega 200 ferm.hús er ætlað fyrir lausafjárstofn búsins sem hefur verið á hrakhólum á tveim stöðum við ákaflega erfiðar vinnulegar aðstæður, síðan fína fjárhúsinu var breytt í fjós 2004 . Þarna verða einnig stíur fyrir 4 hross.

Eftir að hafa  stúderað fjárhús víðsvegar um landið síðustu árin mun reyna verulega á hægvirka heilastarfsemina þegar kemur að innra skipulagi fjárhússins.

En það verður pottþétt ekki erfitt að stússast í fénu lengur.
Antal sidvisningar idag: 3801
Antal unika besökare idag: 197
Antal sidvisningar igår: 668
Antal unika besökare igår: 92
Totalt antal sidvisningar: 651899
Antal unika besökare totalt: 58073
Uppdaterat antal: 21.11.2024 19:52:51
clockhere