Blogghistorik: 2014 N/A Blog|Month_1
26.01.2014 08:07
Afskriftirnar !
Ég horfði ýmist íhugandi tíkina sem sótti að kindunum fyrir framan mig, eða konuna við hliðina á mér.
Mér leist miklum mun betur á konuna.
Hún hafði hringt í mig nokkrum dögum áður, sagðist vera komin í hálfgerð vandræði með tík sem hún var að temja.
Hún byggi í þéttbýli en væri úr sveit, færi þangað í leitir og ætlaði að koma sér upp góðu smaladýri.
Tíkin hélt sig alveg utaní kindunum og sótti ákaft í að bíta aftaní þær. Skellti skollaeyrum við umvöndunum eigandans , í orðsins fyllstu merkingu.
Aðspurð vildi konan nú ekki meina að tíkin hefði verið svona frá upphafi. Kannski aðeins meira frá þeim og ekki svona æst, en kindurnar verið óþjálar og svona væri þetta orðið.
Eftir að hafa reynt að koma dýrinu í eðlilegan vinnugír í nokkurn tíma setti ég upp gáfusvipinn sem notaður er í " faglegu " ráðgjöfinni.
Niðurstaðan var sú að ég gæti ekki metið hvort þarna vantað þessi smalagen sem ég vildi hafa í tíkinni, eða hvort þarna væru áunnin vandamál sem þá yrði hugsanlega hægt að vinna sig útúr.
Áhuginn væri þarna og kannski nægur kjarkur ef hægt væri að beina honum að réttum enda á kindunum.
Þar sem hluti af þessum pakka hjá konunni var að hún vildi temja sinn hund sjálf, varð niðurstaðan sú að hún kæmi nokkrum sinnum í einkatíma hjá mér til að sjá hvort hægt væri að snúa tíkinni af villu síns vegar.
Það yrði samt hellingsvinna og barningur en eigandanum óx það ekkert í augum.
Eftir að hafa heimsótt mig í 2 vikur, 6 - 7 skipti var búið að ná tíkinni frá kindunum og stoppa skæruliðaárásirnar svona að mestu. Konan var orðin full bjartsýni og ég hafði ekki hjarta í mér til þess að sýna einhverja neikvæðni í málinu enda ekki spurður álits á þróuninni eða beðinn um framtíðarspá.
Nú liðu nokkrar vikur þartil konan hringir í mig til að ræða við mig um stöðu mála.
Hún hafði aðgang að kindum nærri sér og hafði verið dugleg að halda áfram tamningunni en gekk ekki vel.
Hélt að tíkin væri komin í nákvæmlega sama farið og þegar hún kom til mín í upphafi.
Eftir að hafa upplýst um stöðu mála spurði hún mig umbúðarlaust hvað ég myndi gera við tíkina ef ÉG ætti hana.
Þetta fannst mér vond spurning.
Ég fór hálf vandræðalegur að útskýra það að ég gerði nú gríðarlegar kröfur til hundanna minn, væri að nota þá í erfið verkefni sem ég yrði að treysta þeim fyllilega í.
Þessi týpa sem hún væri með hentaði nú kannski ekki í það, þó tækist að temja hana.
Ég vil líka eiga þannig hund sagði konan og var orðin mjög ákveðin í röddinni, er ekki útilokað að gera tíkina þannig ?
Ég taldi nú kannski engar líkur á að það tækist, en benti á að það gengi enginn að neinu vísu í gæðunum hjá BC ræktendum.
Ég afskrifa hana þá bara sagði konan og var nú orðin óhugnanlega ákveðin í röddinni.
Mér sýndist að mínum ráðgjafastörfum væri lokið í bili og slitum við talinu.
Síðan eru liðin tvö ár og ég hef ekkert heyrt frá konunni,sem er í sjálfu sér gott mál.
Trúlega hefur hún ákveðið að afskrifa mig um leið og tíkina sína.
En sem betur fer með öðrum hætti.
21.01.2014 08:04
Hundatamningarnar og áfangarnir.
Ég er stundum spurður að því hvað taki langan tíma að temja eitt st. hund ?
Það fer eftir viðmælandanum og því hvernig liggur á mér hvert svarið verður.
Oftast skauta ég yfir málið með því að segja að þetta sé svona svipaður tími eins og að temja hest.
Sem segir auðvitað ekkert.
Eftir að ég fór í hlutastarf við að temja fjárhunda gerist það sjálfkrafa með bættri aðstöðu, að skipulagningin verði önnur en í dundinu áður.
Skæruliðahólfið var nú ekki notað svona, nema einu sinni.
Nú skipti ég tamningunni í áfanga og þó skilin milli þeirra sé kannski ekki mjög skýr finnst mér það henta því vel sem ég er að gera.
Nú er fyrsta áfanga lokið með systkinahópinn sem ég byrjaði með fyrir rúmri viku.
Ég hef aldrei áður verið með svona systkinahóp tekinn inn sama daginn .
Hér eru systkinin á frídegi eftir vikutörn. Frökk litla t. h. sem er yngri og ekki alveg tilbúin fær samt að spreyta sig öðru hvoru sem aukanemandi.
Og þar sem ég er ræktandinn að hópnum finnst mér aldeilis frábært að geta spáð í útkomuna og fengið að vinna úr henni. Einn í hópnum er nánast alveg copy - paste af móður sinni en hinir eru blandaðri.
Þau eru þó það lík að ég útskrifaði þau öll úr áfanga eitt, á sama tíma . Það er ekki hefðbundið hjá mér með fjögurra hvolpa hóp sem kemur sitt úr hverri áttinni.
Neró er alveg með þetta í genunum.
Til að byrja áfanga 2 þurfa nemendurnir að vera orðnir mjög öruggir í að halda hópnum að mér.
Ég vil geta stoppað þá af hvar sem er, helst án þess að þurfa að hækka röddina.
Hægri og vinstri skipanirnar eiga að koma þeim af stað úr kyrrstöðu þó það sé langt í land með að þeir séu öruggir á áttunum.
Og síðast en ekki síst eiga þeir að yfirgefa kindurnar og koma til mín við skipun.
Ég mæli hiklaust með því að þeir sem eiga efnilegan hvolp og langar að temja hann sjálfir, en hafa kannski ekki aðstöðu eða kindur í það, kaupi þennan áfanga hjá einhverjum tamningarmanni nálægt sér.
Það flýtir ótrúlega fyrir og auðveldar eftirleikinn.
Tamningamönnunum fjölgar sem betur fer hægt og örugglega.
Eftir áfanga 1. vil ég komast í meira rými með kennsluna, helst út á stórt tún laus við girðingar og skurði.
Hér er afi hvolpanna , Tinni frá Staðarhúsum kominn vel af stað í áfanga 2.
Þá er farið í að senda hundinn lengra frá sér eftir hópnum og sett aðeins meiri pressa á hliðarskipanir.
Þarna er ákveðið hvaða form ég held að henti eigandanum og hvort eitthvað þarf að breyta vinnulagi hundsins í því sambandi. Stundum þarf að víkka úthlaup eða þrengja. Ákveða hvort hann eigi að koma viðstöðulaust með hópinn eða stoppa þegar komið er fyrir hann o.sv.frv.
Ef það eru ákveði tímamörk á því hvað ég hef hvolpinn lengi forgangsraða ég áherslunum eins og ég held að henti best í hverju tilviki.
Það er sjaldgæft að menn splæsi í áfanga 3, en þá er farið í alvöru vinnu með óvanar kindur og kennt ýmislegt bráðnauðsynlegt .
En það komast nú ótrúlega margir hundaeigendur ágætlega af án þeirrar kunnáttu hundanna sinna.
Það er svo kannski rétt að upplýsa það að hvolpur sem er ekki gott efni eða kemur skemmdur úr uppeldinu getur stoppað býsna lengi í áfanga 1 .
15.01.2014 20:52
Dráttarvélasalan 2013
Það var búið að spá líflegrum sölukipp í dráttarvélum á síðasta ári.
Það gekk ekki eftir og samkvæmt meðfylgjandi töflu stendur innflutningurinn nánast í stað.
Það var Fegginn sem toppaði þetta árið.
Þó hafa verið tilfærslur milli merkja og ljóst að Zetorinn er hástökkvari ársins.
Fréttinni stal ég af heimasíðu Jötunn Véla.
Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu var heildarsala nýrra dráttarvéla hérlendis í fyrra 107 vélar í samanburði við 108 vélar árið 2012. Til viðbótar voru fluttar inn 17 notaðar vélar á árinu af ýmsum merkjum samanborið við 14 árið 2012.
Hér fyrir neðan má sjá töflu sem sýnir fjölda seldra véla og markaðshlutdeild söluhæstu framleiðenda hérlendis árið 2013. Sölutölur fyrir árið 2012 eru til hliðsjónar fyrir aftan í skyggðum reitum.
Alltaf gaman að spá í innflutningstölurnar.
- 1
- 2