Færslur: 2009 Júlí

15.07.2009 22:16

Hornstrandaferð síðasti göngudagur

Þriðji göngudagurinn rann upp, aldrei þessu vant engin þoka og allir frekar léttklæddir þegar lagt var í hann. Þó allt innan siðsamlegra marka. Stefnan var á Hornvíkina, yfir Kýrskarðið og svo vaða yfir ósinn og enda í Höfn hjá Jóni landverði. Því miður var engin sól svo við höfðum ákveðnar efasemdir um kökubakstur. 5 úr hópnum ætluðu svo að auka hraðann  þegar komið væri upp í Kýrskarðið og fara lengra, alla leið í Hvannadalinn. Það var töluverð viðbót við gönguplan dagsins. Í Hvannadalnum er kambur (reyndr 2) sem gengur góðan spöl út í sjóinn og mjög flott að horfa á Hælavíkurbjargið og fuglana þaðan. Ég set hér inn myndir frá Guðrúnu sem sýna þetta vel.

Gengið út á Langakamb.

Langikambur, Hornbjarg í baksýn.
Þegar fór að halla niður hinu meginn í Kýrskarðinu var víða töluverður snjór og skaflarnir sumir brattir. Á einum stað var smápríl og  greinilegt að skarðið heitir ekki Kýrskarð vegna þess að menn hafi farið þarna með kýrnar yfir. Alla vega er alveg á hreinu að Dalsmynniskýrnar færu þetta ekki.

Hér sést Kýráin koma niður hlíðina og þessi á drumbnum eru komin yfir Hafnarósinn á Kýrvaðinu.
Þegar komið er niður að Hafnaósnum þarf að vaða hann á svokölluðu Kýrvaði. Vaðið er langt og vatnið ískalt enda leysingavatn í Kýránni. Botninn er mjúkur leir og sandur. Vatnið var mest upp fyrir hné en sumir óðu á bakaleiðinni alveg upp í fjölskyldudjásnin og breyttu nafninu á vaðinu í Brókarvað.

Flottur baksvipurinn á mér.

Við gengum svo yfir sanda og melgresishóla að Höfn. Þar hefur landvörðurinn aðsetur í tjaldi. Þarna er hann svona 7-9 vikur á ári. Þarna var samt verið að reisa betri aðstöðu fyrir hann og einnig var verið að endurnýja salernin. Okkur skildist að töluverð umferð væri búin að vera þarna og einn hópur var nýkominn með bát og ætlaði að ganga í 6-7 daga með allt á bakinu þarna milli fjarða.
Í Höfn eru leifar af salthúsum og fleiru og einnig er þarna björgunarskýli. Eftir að Jón landvörður hafði haldið smá fyrirlestur um skófatnað, hann var ekkert allt of hrifinn af gönguskóm, taldi gúmmístígvél mun heilsusamlegri og hentugri á þessum slóðum, var haldið heimleiðis. Við ætluðum að fara Standavað en Jón hélt að það væri of fallið að og því var Kýrvaðið farið aftur. Síðan var gengið með Standahlíðinni í átt að Hornbæjunum. Þarna eru víða fallegar rekavíkur og bergstandar í sjó fram.

Stiklað á stóru. Hornbjarg og Miðfell í baksýn. Glittir í Hornbæina.
Nú lá leiðin um Almannaskarðið og þar sem sólin var farin að skína og allir rötuðu heim í vitann létu menn af öllu skipulagi og lögðust í sólbað eða náttúruskoðun. Við Sif vorum mjög fegnar að hafa ekki haft sólina hina göngudagana. Það var eiginlega óbærilega heitt að ganga upp Almannaskarðið í sól og logni. Þá var nú betra að hafa skýin.
Kvöldið fór aðallega í að reyna að ljúka sem mestu af nestinu.
Síðasti morgunninn rann upp. Það var frekar bjart yfir og von til að við sæjum meira af landinu á siglingunni til Norðurfjarðar. Allur farangur átti að vera kominn að togvindunni upp úr kl. 10 og þegar búið var að ryksuga og yfirfara herbergin var byrjað að trilla með töskurnar. Flestar höfðu heldur lést.

Hópurinn að bíða eftir bátnum.
Von var á Reimari á Sædísi upp úr hálfellefu með hóp. Vel gekk að selflytja allt frá borði og okkar dót til skips. Sjórinn alveg sléttur og hraðinn 22 hnútar???? (Sá það á einhverju siglingatækinu)
Útsýnið flott og í lokin ein mynd af Drangaskörðum.

Flestir ætluðu svo í Krossneslaugina en við Sif brunuðum áleiðis í Borgarnes. Eitt stopp í fjöru að ná í nokkur sprek, hamborgari á Hólmavík. Þar voru hamingjudagar að bresta á og á öllum húsum voru rauð hjörtu með hamingjutextum. Nokkur sýnishorn:
Ást er að setja niður kartöflur-saman.
Hamingja felst ekki í flottri bískúrshurð. (ljót hurð þar á bæ)
Ást er að færa honum einn ískaldan.

Við erum strax farnar að spá í ferð að ári. Veit reyndar ekki hvað ég á að halda.
Fékk svohljóðandi SMS: Er farin til Grænlands. Sif
Kannski er hún farin í könnunarleiðangur og er að skoða vænleg fjöll og gróðursæla dali.

13.07.2009 07:58

Hornstrandaferð dagur 3 og rebbarnir

Það var frekar þungbúið þegar við skriðum úr koju, brottför þennan daginn var ekki fyrr en klukkan 10 og því góður tími til að stússast í mat. Það hafði rignt um nóttina og allt frekar blautt. Stefnan þennan dag var í Bjarnarnesið, stutt labb en hægt að bæta við fyrir þá sem það vildu. Menn voru algallaðir þegar lagt var af stað upp Axarfjallið, en mjög fljótlega var fötum fækkað þrátt fyrir þokuna, enda var logn og hlýtt. Axarfjall heitir eftir berggangi sem er eins og öxi í laginu. Það er gengið í sneiðingum upp fjallið og vafalaust flott útsýni af toppi þess en við sáum lítið af því. Þegar við áðum við vörðuna efst birtist einn rebbinn með fugl í kjaftinum. Guðni sagði að það væri greni í urðinni rétt neðar.
Svona var skyggnið þarna uppi.
Fljótlega gengum við niður úr þokunni og sáum niður í Hrollaugsvíkina og Bjarnarnesið. Þarna er lítil á sem við þurftum að vaða eða fara yfir á drumbabrú. Allir fóru yfir brúna en misfagmannlega.

Sif á brúnni. Hún var í "ekki fimlega" hópnum ásamt mér og fleirum.
Þegar komið er yfir í Bjarnarnesið og horft niður í víkina sést þykkt hraunlag sem hefur runnið yfir mikla drumba. Þegar viðurinn eyddist urðu eftir djúpar holur og í þær verpir teistan. Trúlega nokkuð örugg fyrir svöngum rebba þar.

Hraunið með holunum.

Teistuegg í ca. 50-70 cm langri holu.
Þarna er flottur brimstallur með steinnökkva. Brimstallur verður eftir þegar brimið hefur sorfið bergið niður að sjávarmáli. Þeir sjást víða og einn flottur er við Hornbjargsvita.
Þarna skiptist hópurinn, sumir héldu áfram í næstu vík að skoða flottan foss, en aðrir  ætluðu að dóla sér heim. Við Sif vorum í dólhópnum. Þokan var nærri horfin svo við fengum heldur betra útsýni á heimleiðinni og sáum yfir vitann og umhverfi hans af Axarfjallinu.

Dæmigerður brimstallur.

Það eru ekki bara hrikaleg fjöllin sem gaman er að skoða þarna. Gróðurinn kemur líka á óvart. Þarna eru engir grasbítar og því eru gómsætar plöntur í engri hættu. Hvönnin er víða og afar gróskumikil, en það var burnirótin, sem er þarna alls staðar í stórum breiðum, sem kom mér mest á óvart. Svo eru þarna burknar og fullt af plöntum sem ég hafði bara séð í bókum áður. Og svo eru það blessaðir rebbarnir. Allur úrgangur er flokkaður í Hornbjargsvitaeldhúsinu í:
1.brennanlegt rusl
2. lífrænt
3. dósir og flöskur
4. rebbar.
Í rebbafötuna fer kjöt, bein, álegg og PASTA. Rebbafatan er svo losuð við veðurathugaunarstöðina. Sú stöð er reyndar bara til heimabrúks núorðið.. Veðrið er tekið sjálfvirkt í dag.

Einn af heimarefunum.
Ævar húsráðandi sagði það væri tær snilld að sjá rebba grípa kjaftfylli af spaghettí og rölta svo af stað með það lafandi út um munnvikin. Við sáum a.m.k. 3 refi sem komu reglulega  í mat þarna við vitann.

Velkomin í Hornbjargsvita.
 Í öllum gönguferðunum sáust svo nokkrir. Einn var að skjótast niður í Skófnabergið fyrsta göngudaginn og einn elti okkur nokkurn spöl þann daginn.

Á leið í bergið.

Rétt hjá Hornbæjunum gengum við svo fram á tvo yrðlinga, trúlega við greni. Þeir voru alls óhræddir og héldu áfram að leika sér meðan við gengum fram hjá í nokkurra metra fjarlægð.


Síðasta daginn hittu fóru 5 úr hópnum, Hvannaglannarnir svonefndu, í Rekavíkina og yfir í Hvannadalinn. Á þeirri leið hittu þau svangan rebba sem var hrifinn af harðfiski og var tilbúinn að koma ansi nálægt.

Guðrún, kannski að spá í væntanlegan pels.

Smá viðbót vegna athugasemdar frá Svani.
Ein afleiðingin af þessum rebbaflota er að engir mófuglar sjást eða heyrast á svæðinu. Ekkert dirrindí, eða köll í stelki. Einu sinni heyrðum við samt í hrossagauk. það er líka borin von fyrir mófuglana að koma upp ungum við svona aðstæður. það var hins vegar mikið af sólskríkju og steindepli. Þeirra hreiður eru kannski auðfaldari inni í urðunum eða milli steina.

10.07.2009 22:10

Heyskapur og dótaraunir.

  Þegar ég byrjaði að múga upp, um hádegi á fimmtudag var flatt á um 30 hekt. Það er trúlega Dalsmynnismet í flatneskju.
 

 Þetta er reyndar úrelt mynd síðan í fyrra. Núna er vélinni breytt þannig að hún skilur eftir tvo múga í stað eins vegna sprettunnar.

Ekki nóg með það heldur var heymagnið per ha. með allra mesta móti.

 Þrátt fyrir frekar einkennilegt tíðarfar þessa vikuna, þurrviðri í sunnan og vestanátt með logni allar nætur með tilheyrandi náttfalli ,og  skýjuðu fram eftir morgni var heyið orðið vel þurrt. Það eina sem skyggði á ánægjuna, var að það hafði verið farið að spretta úr sér og hafði legið  of lengi, svo mesti ferskleikinn var horfinn.

 Sem sagt ekki sama úrvalsfóðrið og undanfarin ár.


  Það glaðnaði oftast til að deginu, og þá verður stundum dálítið heitt fyrir suma, þrátt fyrir rólegheit í vinnu og námi.

 Nú er semsagt lokið fyrri slætti fyrir kýrnar og haust og vorfóðrið fyrir féð fer vonandi í plast á morgun. Þessi heyskapur er tekinn hér heima og í Hrútsholti.
 
Næst liggur fyrir að heyja fyrir Hestamiðstöðina, túnin í Hrossholti og Söðulsholti.


  Fyrri slætti lýkur síðan með heyskap fyrir útiganginn og miðsvetrarfóðrið  í féð.  Sá heyskapur er sóttur í Skógarnes og Miklaholtssel og þar er grasið látið spretta " hæfilega" úr sér.

  Það skiptir ekki máli þó dótið sé dýrt og nýlegt, allt getur þetta bilað.

  Keðjuhlekkurinn sem slitnaði í rúlluvélinni í gærkvöldi hefði ekki átt að vera stórmál en einhvernveginn flæktist keðjan í strekkjara og rústaði honum. Sem betur fer, er til bæði lítil og stór sleggja ásamt járnkalli og í höndunum á réttum aðilum eru þetta tæki sem virka stundum vel.

 Hitt var öllu verra að síðan kom í ljós að keðjan hafði tjónast verulega í látunum og var dæmd ónýt af hnípnum bændunum. Það er bæði gott og nauðsynlegt að eiga góða nágranna og hér eru þeir í allar áttir. Það var farið í gamla rúlluvél hjá einum þeirra og þrátt fyrir að hún sé að nálgast tvítugsaldurinn var hún með keðju sem nýttist með smá viðbót úr þeirri löskuðu.

 Yngri bóndinn þverbraut síðan allar reglur í hvíldarákvæðum vinnulöggjafarinnar í nótt, því Kolviðarnesbóndinn var með  vélina bókaða í dag.

  Þó allt væri  brjálað að gera hjá Jötunn Vélum tókst Magga að finna handa mér keðju og lása og koma þeim af stað til mín. Þeir fá prik fyrir það.

Já, svo heyrir maður svona með öðru eyranu að nú sé tilhugalífinu lokið hjá blessaðri ríkisstjórninni.

 Þá reynir á vitið, viljann, og skynsemina.emoticon
Flettingar í dag: 2560
Gestir í dag: 264
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430539
Samtals gestir: 39779
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 21:16:05
clockhere