13.07.2009 07:58

Hornstrandaferð dagur 3 og rebbarnir

Það var frekar þungbúið þegar við skriðum úr koju, brottför þennan daginn var ekki fyrr en klukkan 10 og því góður tími til að stússast í mat. Það hafði rignt um nóttina og allt frekar blautt. Stefnan þennan dag var í Bjarnarnesið, stutt labb en hægt að bæta við fyrir þá sem það vildu. Menn voru algallaðir þegar lagt var af stað upp Axarfjallið, en mjög fljótlega var fötum fækkað þrátt fyrir þokuna, enda var logn og hlýtt. Axarfjall heitir eftir berggangi sem er eins og öxi í laginu. Það er gengið í sneiðingum upp fjallið og vafalaust flott útsýni af toppi þess en við sáum lítið af því. Þegar við áðum við vörðuna efst birtist einn rebbinn með fugl í kjaftinum. Guðni sagði að það væri greni í urðinni rétt neðar.
Svona var skyggnið þarna uppi.
Fljótlega gengum við niður úr þokunni og sáum niður í Hrollaugsvíkina og Bjarnarnesið. Þarna er lítil á sem við þurftum að vaða eða fara yfir á drumbabrú. Allir fóru yfir brúna en misfagmannlega.

Sif á brúnni. Hún var í "ekki fimlega" hópnum ásamt mér og fleirum.
Þegar komið er yfir í Bjarnarnesið og horft niður í víkina sést þykkt hraunlag sem hefur runnið yfir mikla drumba. Þegar viðurinn eyddist urðu eftir djúpar holur og í þær verpir teistan. Trúlega nokkuð örugg fyrir svöngum rebba þar.

Hraunið með holunum.

Teistuegg í ca. 50-70 cm langri holu.
Þarna er flottur brimstallur með steinnökkva. Brimstallur verður eftir þegar brimið hefur sorfið bergið niður að sjávarmáli. Þeir sjást víða og einn flottur er við Hornbjargsvita.
Þarna skiptist hópurinn, sumir héldu áfram í næstu vík að skoða flottan foss, en aðrir  ætluðu að dóla sér heim. Við Sif vorum í dólhópnum. Þokan var nærri horfin svo við fengum heldur betra útsýni á heimleiðinni og sáum yfir vitann og umhverfi hans af Axarfjallinu.

Dæmigerður brimstallur.

Það eru ekki bara hrikaleg fjöllin sem gaman er að skoða þarna. Gróðurinn kemur líka á óvart. Þarna eru engir grasbítar og því eru gómsætar plöntur í engri hættu. Hvönnin er víða og afar gróskumikil, en það var burnirótin, sem er þarna alls staðar í stórum breiðum, sem kom mér mest á óvart. Svo eru þarna burknar og fullt af plöntum sem ég hafði bara séð í bókum áður. Og svo eru það blessaðir rebbarnir. Allur úrgangur er flokkaður í Hornbjargsvitaeldhúsinu í:
1.brennanlegt rusl
2. lífrænt
3. dósir og flöskur
4. rebbar.
Í rebbafötuna fer kjöt, bein, álegg og PASTA. Rebbafatan er svo losuð við veðurathugaunarstöðina. Sú stöð er reyndar bara til heimabrúks núorðið.. Veðrið er tekið sjálfvirkt í dag.

Einn af heimarefunum.
Ævar húsráðandi sagði það væri tær snilld að sjá rebba grípa kjaftfylli af spaghettí og rölta svo af stað með það lafandi út um munnvikin. Við sáum a.m.k. 3 refi sem komu reglulega  í mat þarna við vitann.

Velkomin í Hornbjargsvita.
 Í öllum gönguferðunum sáust svo nokkrir. Einn var að skjótast niður í Skófnabergið fyrsta göngudaginn og einn elti okkur nokkurn spöl þann daginn.

Á leið í bergið.

Rétt hjá Hornbæjunum gengum við svo fram á tvo yrðlinga, trúlega við greni. Þeir voru alls óhræddir og héldu áfram að leika sér meðan við gengum fram hjá í nokkurra metra fjarlægð.


Síðasta daginn hittu fóru 5 úr hópnum, Hvannaglannarnir svonefndu, í Rekavíkina og yfir í Hvannadalinn. Á þeirri leið hittu þau svangan rebba sem var hrifinn af harðfiski og var tilbúinn að koma ansi nálægt.

Guðrún, kannski að spá í væntanlegan pels.

Smá viðbót vegna athugasemdar frá Svani.
Ein afleiðingin af þessum rebbaflota er að engir mófuglar sjást eða heyrast á svæðinu. Ekkert dirrindí, eða köll í stelki. Einu sinni heyrðum við samt í hrossagauk. það er líka borin von fyrir mófuglana að koma upp ungum við svona aðstæður. það var hins vegar mikið af sólskríkju og steindepli. Þeirra hreiður eru kannski auðfaldari inni í urðunum eða milli steina.

Flettingar í dag: 2220
Gestir í dag: 163
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433148
Samtals gestir: 39966
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 17:44:37
clockhere