Færslur: 2009 Júlí

22.07.2009 21:59

Regnskortur, fyrrisláttarlok og hún Assa.


 Mér telst svo til að ekki hafi gert hér ærlega rigningardembu í rúman mán.

 Áburðurinn sem var bætt á rýgresið um miðjan júní liggur á akrinum óuppleystur og áburðurinn sem átti að berast á túnin milli slátta, er í sekkjunum enn og verður líklega komið í hús fljótlega og geymdur til næsta árs.

 Reynslan kennir manni hinsvegar það, að þurrkkaflarnir enda ávallt með rigningu, sem maður fær svo gjarnan  nóg af áður en lýkur.




  Minnugir þessa var drifið í að slá restina af fyrri slættinum á mánudaginn (um 20 ha. ) og  þrátt fyrir að vindurinn hér væri sirka helmingi meiri en fræðingarnir spáðu hélst heyið nokkurnveginn á túnunum. Þegar veðurhæðin sljákkaði svo í dag var brugðið við hart og múgað og rúllað, ágætlega þurru heyi þó ekkert hefði verið átt við það.

 Þetta urðu 314 myndarlegar rúllur og nú er Hestamiðastöðin komin með mjög ríflegar heybirgðir og rollurnar í Dalsmynni ættu að hafa nóg að bíta og brenna fram á næsta sumar. Kýrnar reyndar líka þrátt fyrir fyrirsjáanlegan uppskerubrest í hánni.

 Eftir er svo að slá  2.5 ha. af  rýgresi sem þýtur upp þessa dagana.

Þegar raksturinn stóð sem hæst hjá mér, hringdi svo í mig bóndinn sem keypti af mér 5 ára gamla tamda tík í vetur.

  Hann var bara að láta mig vita að það væri alveg botnlaus ánægja með gripinn. Frábær smalahundur og kæmi sér svo vel á heimilinu að það elskuðu hana allir.



 Mér þótti ákaflega gott að fá þetta símtal ekki síst vegna þess að þetta var  og er, annálaður smali og þekktur fyrir að eiga góða hunda.

  Hann þurfti reyndar að ganga dálítið á eftir mér að fá tíkina vegna þess að mér fannst hún ekki nógu góð fyrir hann.

 Það er búið að vera alltof mikið puð á mér í sumar og nú er bara að koma Campernum á bílinn og fara að skoða fjöllin og jaðarbyggðirnar.

 Það næst þó líklega ekki þessa helgina.emoticon

20.07.2009 17:39

Kirkjufellshringurinn riðinn.


 Við vorum 10 úr Fjörulallagenginu sem mættum kl 20.30 í hesthúsahverfinu í Grundarfirði á laugardagskvöldið.

 Þeir voru 5 Grundfirðingarnir sem tóku á móti okkur og einn bættist við síðar.

 Veðrið var ekki slæmt,stafalogn og kvöldsólin átti eftir að fylgja okkur mestallan tímann.

 Eftir að hafa leyft hrossunum að kljást, velta sér og slaka á, í nærliggjandi gerðum og náttúrulega fá sér einn lítinn öl var lagt á.

 Hesthúsahverfið er skemmtilega staðsett og maður er kominn á topp reiðgötur um leið og sest er í hnakkinn hvort sem farið er í austur eða vestur ( kannski ekki alveg öruggur á áttunum).


 Þarsem þetta var engin hraðferð var stoppað á öllum álitlegum stoppistöðum. Ásgeir  fór náttúrulega beint í að skyggna hylinn undir fossinum.

  Heimamenn gerðu lítið úr góðviðrinu, svona væri þetta alltaf þarna og þar sem þau  þekktu öll býsna vel til sunnanfjalls var ekki hafður uppi neinn áróður um logndagana þeim megin.



 Og þar sem gestirnir voru samansafn orðvarra prúðmenna spurði auðvitað enginn um, hvernig sunnan og suðaustanáttin væri þarna.



 Móttöku og fararstjórinn var bara þokkalega ríðandi þó maður væri nú ekkert að hafa orð á því við hann. Sá brúni var þó ekki lagður, fyrr en í hlaðsprettinum í ferðalok og þá urðum við eftir.


  Þetta var tímalaus ferð og þessi mynd segir nú kannski alla söguna um hvað var í gangi í blíðunni.

 Fjörðurinn var spegilsléttur og þótt ótrúlegt væri var engin fluga að angra okkur í ferðinni.



 Það urðu fagnaðarfundir með Dalsmynnis og Bergsbóndanum þrátt fyrir að hann hefði skilið betri helminginn eftir heima. Hún verður bara að mæta þegar farið verður  í kringum Stöðina.

 Bóndinn á Bergi hafði lagt á tvö fimm vetra og kom á móti okkur til að slást í hópinn. Þau eiga eftir að verða að einhverju nothæfu í höndunum á honum.

  Það drýpur smjör af hverju strái  sunnanfjalls en þar spretta ekki bjórkippur milli þúfna , eins og var raunin á næstsíðasta áningastaðnum.  Þetta er samt eitthvað sem við ræktunarmennirnir þurfum að taka til gagngerðar athugunar sem fyrst.



 Hér lítur Gústi yfir hópinn hinn ánægðasti með gang mála. Bjóruppskeran reyndist nokkuð góð þetta árið og Óli að taka við fararstjórninni.

 

 Trúlega hafa ekki margir skondrað jafn oft, upp og niður og allt um kring í Kirkjufellinu og Óli á Mýrum.

 Kvíabryggja blasti svo við  og það var velt vöngum yfir því hvort hún yrði orðin að nokkurskonar víkingarnýlendu áður en lyki..


 Já, menn urðu dálítið hugsandi yfir þessarri Kvíabryggjuumræðu.

 
Já, nú var ég farinn að heimta örnefnalýsingar svo við Óli tókum forystuna yfir Hálsvaðalinn.

Ég ætla samt að hlífa viðkvæmum lesendum síðunnar við, hvað liggur á bakvið nöfnin á Berhólnum og Reiðhólnum.


 Hér erum við komnir hringinn og  þessi hlið fellsins er mest notuð til uppgöngu. Það kitlaði grenjaskyttuna að heyra, að uppi á fellinu væri tófugreni sem ekki væri lagt í að eyða.

 Þetta var alveg meiriháttar ferð sem endaði svo með alvöru kjötsúpu að hætti Gústafs í félagsheimili hestamanna á staðnum ásamt dálitlu framhaldsspjalli fram á kvöldið. 


 Takk fyrir okkur.emoticon 

 Nokkrar vel ritskoðaðar myndir í albúmi.


 

17.07.2009 21:59

Graddar og girðingar.


 Nú styttist óðfluga í að hann Sigur frá Hólabaki komi í sveitina til að bæta hrossastofninn.

Það lá fyrir að koma þyrfti upp hólfi fyrir kappann og komu nokkrir staðir til greina. Niðurstaðan var sú að hann yrði hjá mér, en til þess að það gengi yrði að girða upp tæpa km girðingu.

 Í annríki sumarsins var þetta nú ekki forgangsverkefni hjá mér og var málið farið að reyna verulega á taugar og magasýrur hrossaliðsins í Söðulsholti/ Hrossholti.

Þetta gerði það jafnframt óðfúst til að koma að verkinu af miklum krafti  sem það og gerði.

 Dagurinn var semsé tekinn í girðingarvinnu. Búið var að rífa þá gömlu og var því hægt að byrja á því eftir mjaltirnar að fara með tætara í girðingarstæðið.
 Þessi mynd sýnir sitt lítið af hverju. Umferðarþungann hér seinnipart föstudags. Hluta girðingarstæðis. Neglingargengið að negla upp net og neðsta streng og síðast en ekki síst óheyrilegan grasvöxtinn í úthaganum. Já það drýpur smjör af hverju strái í landnámi Þórðar Gnúpu heitins.

 Hér voru vanir menn á ferðinni og skipt niður verkum. Ég  dró út vír og net og stjórnaði strekkingu. Tveir komu staurunum niður hratt og örugglega. Meira að segja ég, gat ekki sett út á línuna þegar reynt var að  kíkja út hlykki á girðingunni.


  Síðan sáu tvö um neglinguna og trúlega munu strengir og blöðrur  ergja þau á morgun.



 Þetta skotgekk, þrátt fyrir að það væri eiginlega óvinnufært vegna veðurs en logn og sól gerði þetta
dálítið erfitt.
 Nú á eftir að skella rafstreng efst. setja streng  með einum skurði og búa til eitt hlið. Síðan mæta hryssurnar á sunnudag og höfðinginn sjálfur á mánudaginn.

 Eins og ég sagði tamningagenginu alltaf. - Ekkert mál.emoticon

 Svo er það Kirkjufellið annað kvöld.emoticon



Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414707
Samtals gestir: 37290
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:46:41
clockhere