10.07.2009 22:10

Heyskapur og dótaraunir.

  Þegar ég byrjaði að múga upp, um hádegi á fimmtudag var flatt á um 30 hekt. Það er trúlega Dalsmynnismet í flatneskju.
 

 Þetta er reyndar úrelt mynd síðan í fyrra. Núna er vélinni breytt þannig að hún skilur eftir tvo múga í stað eins vegna sprettunnar.

Ekki nóg með það heldur var heymagnið per ha. með allra mesta móti.

 Þrátt fyrir frekar einkennilegt tíðarfar þessa vikuna, þurrviðri í sunnan og vestanátt með logni allar nætur með tilheyrandi náttfalli ,og  skýjuðu fram eftir morgni var heyið orðið vel þurrt. Það eina sem skyggði á ánægjuna, var að það hafði verið farið að spretta úr sér og hafði legið  of lengi, svo mesti ferskleikinn var horfinn.

 Sem sagt ekki sama úrvalsfóðrið og undanfarin ár.


  Það glaðnaði oftast til að deginu, og þá verður stundum dálítið heitt fyrir suma, þrátt fyrir rólegheit í vinnu og námi.

 Nú er semsagt lokið fyrri slætti fyrir kýrnar og haust og vorfóðrið fyrir féð fer vonandi í plast á morgun. Þessi heyskapur er tekinn hér heima og í Hrútsholti.
 
Næst liggur fyrir að heyja fyrir Hestamiðstöðina, túnin í Hrossholti og Söðulsholti.


  Fyrri slætti lýkur síðan með heyskap fyrir útiganginn og miðsvetrarfóðrið  í féð.  Sá heyskapur er sóttur í Skógarnes og Miklaholtssel og þar er grasið látið spretta " hæfilega" úr sér.

  Það skiptir ekki máli þó dótið sé dýrt og nýlegt, allt getur þetta bilað.

  Keðjuhlekkurinn sem slitnaði í rúlluvélinni í gærkvöldi hefði ekki átt að vera stórmál en einhvernveginn flæktist keðjan í strekkjara og rústaði honum. Sem betur fer, er til bæði lítil og stór sleggja ásamt járnkalli og í höndunum á réttum aðilum eru þetta tæki sem virka stundum vel.

 Hitt var öllu verra að síðan kom í ljós að keðjan hafði tjónast verulega í látunum og var dæmd ónýt af hnípnum bændunum. Það er bæði gott og nauðsynlegt að eiga góða nágranna og hér eru þeir í allar áttir. Það var farið í gamla rúlluvél hjá einum þeirra og þrátt fyrir að hún sé að nálgast tvítugsaldurinn var hún með keðju sem nýttist með smá viðbót úr þeirri löskuðu.

 Yngri bóndinn þverbraut síðan allar reglur í hvíldarákvæðum vinnulöggjafarinnar í nótt, því Kolviðarnesbóndinn var með  vélina bókaða í dag.

  Þó allt væri  brjálað að gera hjá Jötunn Vélum tókst Magga að finna handa mér keðju og lása og koma þeim af stað til mín. Þeir fá prik fyrir það.

Já, svo heyrir maður svona með öðru eyranu að nú sé tilhugalífinu lokið hjá blessaðri ríkisstjórninni.

 Þá reynir á vitið, viljann, og skynsemina.emoticon
Flettingar í dag: 2105
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433033
Samtals gestir: 39935
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 12:17:25
clockhere