15.07.2009 22:16

Hornstrandaferð síðasti göngudagur

Þriðji göngudagurinn rann upp, aldrei þessu vant engin þoka og allir frekar léttklæddir þegar lagt var í hann. Þó allt innan siðsamlegra marka. Stefnan var á Hornvíkina, yfir Kýrskarðið og svo vaða yfir ósinn og enda í Höfn hjá Jóni landverði. Því miður var engin sól svo við höfðum ákveðnar efasemdir um kökubakstur. 5 úr hópnum ætluðu svo að auka hraðann  þegar komið væri upp í Kýrskarðið og fara lengra, alla leið í Hvannadalinn. Það var töluverð viðbót við gönguplan dagsins. Í Hvannadalnum er kambur (reyndr 2) sem gengur góðan spöl út í sjóinn og mjög flott að horfa á Hælavíkurbjargið og fuglana þaðan. Ég set hér inn myndir frá Guðrúnu sem sýna þetta vel.

Gengið út á Langakamb.

Langikambur, Hornbjarg í baksýn.
Þegar fór að halla niður hinu meginn í Kýrskarðinu var víða töluverður snjór og skaflarnir sumir brattir. Á einum stað var smápríl og  greinilegt að skarðið heitir ekki Kýrskarð vegna þess að menn hafi farið þarna með kýrnar yfir. Alla vega er alveg á hreinu að Dalsmynniskýrnar færu þetta ekki.

Hér sést Kýráin koma niður hlíðina og þessi á drumbnum eru komin yfir Hafnarósinn á Kýrvaðinu.
Þegar komið er niður að Hafnaósnum þarf að vaða hann á svokölluðu Kýrvaði. Vaðið er langt og vatnið ískalt enda leysingavatn í Kýránni. Botninn er mjúkur leir og sandur. Vatnið var mest upp fyrir hné en sumir óðu á bakaleiðinni alveg upp í fjölskyldudjásnin og breyttu nafninu á vaðinu í Brókarvað.

Flottur baksvipurinn á mér.

Við gengum svo yfir sanda og melgresishóla að Höfn. Þar hefur landvörðurinn aðsetur í tjaldi. Þarna er hann svona 7-9 vikur á ári. Þarna var samt verið að reisa betri aðstöðu fyrir hann og einnig var verið að endurnýja salernin. Okkur skildist að töluverð umferð væri búin að vera þarna og einn hópur var nýkominn með bát og ætlaði að ganga í 6-7 daga með allt á bakinu þarna milli fjarða.
Í Höfn eru leifar af salthúsum og fleiru og einnig er þarna björgunarskýli. Eftir að Jón landvörður hafði haldið smá fyrirlestur um skófatnað, hann var ekkert allt of hrifinn af gönguskóm, taldi gúmmístígvél mun heilsusamlegri og hentugri á þessum slóðum, var haldið heimleiðis. Við ætluðum að fara Standavað en Jón hélt að það væri of fallið að og því var Kýrvaðið farið aftur. Síðan var gengið með Standahlíðinni í átt að Hornbæjunum. Þarna eru víða fallegar rekavíkur og bergstandar í sjó fram.

Stiklað á stóru. Hornbjarg og Miðfell í baksýn. Glittir í Hornbæina.
Nú lá leiðin um Almannaskarðið og þar sem sólin var farin að skína og allir rötuðu heim í vitann létu menn af öllu skipulagi og lögðust í sólbað eða náttúruskoðun. Við Sif vorum mjög fegnar að hafa ekki haft sólina hina göngudagana. Það var eiginlega óbærilega heitt að ganga upp Almannaskarðið í sól og logni. Þá var nú betra að hafa skýin.
Kvöldið fór aðallega í að reyna að ljúka sem mestu af nestinu.
Síðasti morgunninn rann upp. Það var frekar bjart yfir og von til að við sæjum meira af landinu á siglingunni til Norðurfjarðar. Allur farangur átti að vera kominn að togvindunni upp úr kl. 10 og þegar búið var að ryksuga og yfirfara herbergin var byrjað að trilla með töskurnar. Flestar höfðu heldur lést.

Hópurinn að bíða eftir bátnum.
Von var á Reimari á Sædísi upp úr hálfellefu með hóp. Vel gekk að selflytja allt frá borði og okkar dót til skips. Sjórinn alveg sléttur og hraðinn 22 hnútar???? (Sá það á einhverju siglingatækinu)
Útsýnið flott og í lokin ein mynd af Drangaskörðum.

Flestir ætluðu svo í Krossneslaugina en við Sif brunuðum áleiðis í Borgarnes. Eitt stopp í fjöru að ná í nokkur sprek, hamborgari á Hólmavík. Þar voru hamingjudagar að bresta á og á öllum húsum voru rauð hjörtu með hamingjutextum. Nokkur sýnishorn:
Ást er að setja niður kartöflur-saman.
Hamingja felst ekki í flottri bískúrshurð. (ljót hurð þar á bæ)
Ást er að færa honum einn ískaldan.

Við erum strax farnar að spá í ferð að ári. Veit reyndar ekki hvað ég á að halda.
Fékk svohljóðandi SMS: Er farin til Grænlands. Sif
Kannski er hún farin í könnunarleiðangur og er að skoða vænleg fjöll og gróðursæla dali.

Flettingar í dag: 88
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 1482
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 448871
Samtals gestir: 41451
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 04:00:08
clockhere