Færslur: 2008 Apríl

08.04.2008 23:07

Nú er hann enn að norðan.


  Norðan blásturinn var ansi napur í dag tók vel í þar sem ég var að þvælast á fjórhjólinu  niður með Laxá og síðan austur fjöruna. Ég gat ekki stillt mig um að kíkja aðeins á tvö gren sem voru þarna í leiðinni og það hafði greinilega stungið sér tófa nokkrum sinnum í  vetur, inn í annað þeirra. Annars var deginum varið í að hræra upp í haughúsi því nú á allt að fara að gerast. Það er tveggja daga prógramm að hræra upp og síðan er 15 tonna mykjudreifari tekinn á leigu til að drífa mykjuna á túnin. Nú á að prufa að skella mykju á einhverja byggakra og sjá hvað gerist. Til að koma taði, hálmskít og skeljasandi á akrana er  tekinn á leigu fjölnota Sampson dreifari.
 Svo eru fundirnir  sem fylgja aprílmánuði að bresta á hver á fætur öðrum. Þó ég reyni að "gleyma" eins mörgum og ég get eru samt þó nokkrir sem ég vil ekki sleppa og aðrir sem ég verð að mæta á nauðugur viljugur. Ég held því þó afdráttarlaust fram að 90 og eitthvað % af þessum fundum skili ekki neinu og séu hrein tímasóun.. Það er nefninlega þannig að ég hef alltaf dálitla þörf fyrir að ganga fram af fólki. Það er þó alltaf að lagast með aldrinum.(Held ég.)
 
 

07.04.2008 20:38

Myndir

  Nú eru komnar inn myndir af boðsballinu . Texta þær á morgun eða hinn.

06.04.2008 23:27

Rolludagur.

 Mín heittelskaða verður að vinna við kennslu 5 daga vikunnar til þess að standa straum af heimili og manni sem verður sífellt þyngri í rekstri.(Stærri bílar og eldra Whiskí.)
Þar sem hún treystir okkur hinum bændunum illa, ef sauðféð er annarsvegar, verður því að gera fleira en gott þykir um helgar þegar mikið stendur til og þarf að vanda sig. Dagurinn (hluti hans) var því tekinn í að bólusetja féð og gefa því ormalyf . Þetta er að vísu létt verk og löðurmannlegt þegar bústofninn er ekki stærri en þetta og ólíkt skemmtilegra en ýmislegt annað sem lagt er á mann í rolluharkinu. Heyin hefðu mátt vera aðeins minni að gæðum síðustu tvo mánuðina því ærnar eru orðnar fullmiklar um sig og þungar á sér núna, þegar þær þyrftu  aðeins að fara að bæta á sig fyrir burðinn.
 Nú er svo verið að plana hvenær stefnt skuli að dreifingu búfjáráburðarins sem á að nýta vel í ár vegna áburðarverðsins og það styttist óðfluga í akuryrkjuna og önnur vorverk enda vorblíðan í dag kærkomin eftir norðan belginginn undanfarið.
 Og það þyrfti að taka 10 daga törn í hundamálunum áður en tekið verður tveggja mánaða frí í þeim málaflokk.
Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403507
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:54:06
clockhere