29.04.2008 23:37

Rétt hára og hugafar!!!

 

Nei, sagði konan í símanum og bætti svo við með miklum alvöruþunga. Ég vil hvolp frá þér, helst undan tíkinni sem ég sá á sýningunni hjá þér í sumar. Hann á að vera loðinn bætti hún við.  Hún hafði hringt í mig og spurt  hvort ég ætti hvolpa, eða þeir væru væntanlegir og þessi orð féllu þegar ég sagði henni að svo væri ekki en ég vissi um hvolpa sem gætu mjög trúlega hentað þeim hjónunum vel.    Ég hef margreynt það að þegar, sérstaklega kvenkyns viðmælendur eru komnir með alvöruþunga upp fyrir viss mörk í röddina er bara um tvær leiðir að velja. Samþykkja umyrðalaust allt sem viðkomandi segir eða reyna að leiða umræðuna útá einhverja hjáleið (Norðlingaholtsleið)  og eyða talinu. Það kallast virðulegt undanhald. Í þetta sinn valdi ég auðveldu leiðina,upplýsti konuna um að væntanlega myndi umrædd tík fyllast áhuga á að fjölga sér í áliðnum des.(2 mán seinna) og ef það gengi eftir gætum við rætt málin seinna í vetur. Þetta þóttu konunni góð tíðindi og vildi hún nú ljúka málinu , fá hjá mér reikningsnúmer og borga hvolpinn.Hún hefur trúlega haldið að hér lægi á borði langur biðlisti áfjáðra hvolpakaupenda sem er nú því miður ekki raunin. Nú var það ég sem gerðist  mjög ákveðinn í röddinni og sagði sem satt var, að ég hefði mikla ótrú á að lofa ófæddum hvolpum ,hvað þá heldur hvolpum sem ekki væri nú einu sinni búið að finna föður að. Varð nú að samkomulagi að hún hefði samband í feb. og tæki á stöðunni. Er skemmst frá því að segja að áhugi tíkarinnar á allri fjölgun var enginn í des, jan ,feb og mars. Var þá svo komið að  eiginmaðurinn var búinn að yfirtaka viðræðurnar og þegar ég sagði honum í mars, að þetta væri vinnutík sem yrði að vera klár í haustverkin þótti honum greinilega illa horfa í málinu. Ég veit svo ekki hvor okkar var ánægðari þegar hann hringdi í mig fyrir helgina og ég gat glatt hann með því að nú væri allt á fullu í sveitinni. Kominn loðinn og gullfallegur hundur í heimsókn með fullt af góðum genum og allt að smella saman.

 Já það hafa alltaf reynst mér bestu kaupendurnir sem ekki spyrja um verðið fyrr en hvolpurinn er tekinn.
Flettingar í dag: 91
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412821
Samtals gestir: 37044
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 12:07:22
clockhere