Færslur: 2009 Mars

22.03.2009 10:21

Sauðfjárbændur af Snæfellsnesi á ferð um Vatnsnesið.



  Laugardagurinn var tekinn í að heimsækja fjóra sauðfjárbændur á Vatnsnesi og var sláturhúsið á Hvammstanga skoðað í leiðinni.

  Það var félag Sauðfjárbænda á Snæfellsnesi sem stóð fyrir ferðinni og   rúmlega 20 manna hópur sem lagði af stað um níuleitið með Sæmund sjálfan sem bílstjóra.

  Byrjað var á að skoða SKVH ( sláturhúsið á Hvammstanga) en þar tóku á móti okkur Magnús sláturhússtjóri og Heimir á Sauðadalsá. Heimir fylgdi okkur síðan allan daginn og fræddi okkur óspart um sveitungana og Vatnsnesið.

 M.a. sýndi Magnús okkur nýja línu sem verið er að setja upp. Þar verða vambir og garnir hreinsaðar og síðan fluttar út í stað urðunar.Nánast allur innmatur, slög o.fl. er flutt út, fyrir utan það sem landinn kaupir til sláturgerðar.


                          Þvottaskiljan og hluti nýju línunnar  í uppsetningu.

  Þarna var okkur boðið í veislumat og það fór ekki milli mála um leið og við smökkuðum þetta lostæti sem þarna var á borðum að lambið hafði örugglega alið aldur sinn á vesturbakkanum (austan varnarlínu), og kom mér í hug vísan sem fylgdi lambslæri til kunningja fyrir margt löngu.

Þetta læri fyrrum frátt,
um fjöll vann steðja.
Megi það ykkar maga gleðja.

 Ekki náði Þóra formaður að ganga frá verðsamningum við Magnús um haustverðin og að lokinni veislunni, tók Heimir við leiðsögninni þegar lagt var af stað að fyrsta búinu, Sauðadalsá. Þar er rekið eitt afurðamesta sauðfjárbú landsins.

 Þarna var féð í hefðbundnum eldri fjárhúsum en hluta þeirra var gefið úti við eldri hús þar sem það var hýst í verri veðrum. Þarna var eins og á hinum bæjunum afbragðsgott fé í sjón og raun, flest kollótt.Þarna var heyskapurinn að hluta heyjaður í vothey í flatgryfju.

  Næsti bær í prógramminu var Bergstaðir, einnig landsfrægt býli fyrir afurðir og vel gert fé. Þarna búa ung hjón sem fluttu á jörðina fyrir þremur árum og tekst vel að halda við snyrtimennskunni og fjárstofninum. Þarna var allt féð með handföngum og hvað sem hver segir er byggingarlagið því hyrnta oftast í hag þegar farið er milli bæja í þeim gæðastandard sem þessir bæir eru í.


         Já,já, það var allt í góðu lagi með gemlingana á Bergstöðum.

Þarna var líka heyjað að hluta í flatgryfju svo ég kannaðist vel við bæði fjárhúsin og heyverkunina, sem ég lagði af upp úr 92. Fjárhúsin mín breyttust svo í 50 kúa fjós á einu sumri.

  Saurbær var næsti viðkomustaður en þar er nýbyggt stálgrindarhús með gjafagrindafóðrun.



  Þarna sannaðist að oft er mislitur sauður í mörgu fé. Gjafagrindurnar komu mér líka kunnuglega fyrir sjónir . Þær voru heimasmíðaðar eins og reyndar allar innréttingarnar og voru nákvæmlega eins og þær sem ég skoðaði á Brjánslæk á dögunum.

  Bóndinn var eitthvað daufur í dálkinn til að byrja með og fljótlega kom í ljós að við sónarskoðun á kindunum nokkrum dögum áður hafði tíkin á bænum verið sónuð í leiðinni. Hún átti að vera hvolpafull og gjóta innan þriggja vikna. Talningameistarinn hafði úrskurðað tíkina hvolpalausa og var ljóst að bóndanum þótti þetta þyngri raun en þó ótiltekinn hópur fjárins hefði verið lamblaus.


  Budda frá Súluvöllum er mikils afbragðstík og á fáa sína líka, allavega norðan Holtavörðuheiðar og vestan Vaðlaheiðar svo ég særi nú sem fæsta.

  Nú vorum við Snæfellingar orðnir léttir í lund og fullir bjartsýni. Í hópnum voru miklir hundagúrúar hver öðrum fremri og fullvissuðum við bóndann um að fósturvísateljarar hefðu ekkert vit á hundum.
 Lauk þessu máli síðan með því að menn deildu um hvort í tíkinni væru 5 eða 8 hvolpar og tók Baldur nú gleði sína á nýjan leik. Síðan er spurningin sú, hvort bjartsýni gærdagsins dugir Buddu til hvolpaeignar.

 Síðasti bærinn var Böðvarshólar. Þar var líka nýbyggt stálgrindarhús með galvanhúðuðu burðarvirki og samlokueiningum í þaki og veggjum.

 Þegar þangað kom var ljóst að þeir Böðvarshólabændur treystu sveitungum sínum illa til að sjá um að við ferðalangarnir hefðum nóg matar og drykkjar í ferðinni.


 Þó það væru algjörlega óþarfar áhyggjur varð nú ljóst að vel horfði með daginn og fjárhúsin í Böðvarshólum yrðu skoðuð mjög nákvæmlega.

  Þarna var loksins vel séð fyrir fjárraginu með rekstrargangi meðfram öðrum útveggnum og var því hægt að hringreka féð um húsin.

 
    Það fór ánægjutilfinning um bakið á mér við að sjá þessa aðstöðu, en fjárragið á haustin hafði alltaf skelfilegar afleiðingar í för með sér hjá mér þar til fúskað var upp lágmarks aðstöðu til rögunar í Dalsmynni.

 

  Á heimleiðinni deildu menn hart um kosti og galla þess að rækta hyrnt eða kollótt.

Ég tók ekki þátt í þeirri orrahríð enda áratugir síðan ég gerði mér ljóst að ekki þýðir að rökræða um kosti einhverra ræktunarlína, hvort sem er í  hunda,sauðfjár, nautgripa eða hrossarækt.

  Þar verður hver að hafa sína skoðun sem eru oft afar misvísandi sem betur fer.

Það eru textaðar myndir í albúmi úr ferðinni, fyrir rollufólkið.

Og takk fyrir okkur, Vatnsnesingar.emoticon 




 

  
 

20.03.2009 21:27

Pólitíkin og kvótakerfið !


 Nú fer að lifna yfir kosningabaráttunni og frambjóðendurnir birtast manni hver á fætur öðrum.

Sem betur fer koma þeir nú einungis í póstkassann ennþá, og nýi pappírsgámurinn sem tekur viðstöðulaust við öllum óþarfa pappír kemur sér vel.

  Fyrir ódrepandi áhugamann um landbúnaðinn og sveitina er áhugavert að fylgjast með því hvernig landbúnaðarlínurnar eru lagðar því nú er landbúnaðurinn "inni "á öllum vígstöðvum,  þar til kemur að frekari niðurskurði. Hann kemur þó ekki fyrr en eftir kosningar.

 Háttvirtur landbúnaðarráðherra lét þau orð falla fyrir skemmstu að nú ætti að endurskoða kvótakerfið í landbúnaðinum  og þó fyrr hefði verið. Það myndi þó bíða framyfir kosningar. Nú þinga hann og félagar hans um helgina og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir lenda málinu.

  Um næstu helgi kemur saman hinn póllinn í pólitíkinni og ég varð nú pínu hissa við að sjá drögin að landbúnaðarályktun þeirra sjálfstæðismanna.

Þar var m.a. þessi klásúla.

" Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að gerður verði heildstæður búvörusamningur um íslenska landbúnaðarframleiðslu með aðkomu allra búgreina. Jafnframt verði núverandi kvótakerfi lagt af í áföngum þannig að framleiðendur þurfi ekki að kaupa sér aðgang að markaði. "

  Meir að segja kvótaflokkurinn mikli er farinn að átta sig á því að styrkir til matvælaframleiðslu eiga að renna til þeirra sem framleiða matvælin. Ekki til þeirra sem eru hættir því, en geta gegnum stórgallað kerfi selt þeim sem þrauka þorrann og góuna aðganginn að styrknum fyrir offjár.

   Það er fróðlegt að skoða annarsvegar " beingreiðslur " til sauðfjárbænda og hinsvegar kvótagreiðslur til mjólkurframleiðenda.

Sauðfjárbændur hafa í raun ótakmarkaðan framleiðslurétt.
 
 Beingreiðslurnar þeirra eru greiddar eftir gömlu kerfi  sem einhvernveginn leystist upp og kemur í raun framleiðslunni sáralítið við, nema þeir verða að uppfylla ákveðna framleiðsluskyldu til að fá greiðslurnar.
 Menn sem búa stóru sauðfjárbúi geta þessvegna selt frá sér allar beingreiðslur en framleitt eftir sem áður sama magn af kjöti styrkjalaust. Nú er verið að beina vaxandi hluta greiðslanna yfir á alla dilkakjötsframleiðslu sem er eðli málsins samkvæmt rétta leiðin.
 Brotalömin í þessu kerfi er að detta inn, þar sem útflutningsskyldan á umframframleiðslunni er í uppnámi.

 Þar eru menn sem sagt að selja eða kaupa peningagreiðslur/beingreiðslur frá ríkinu, ekki framleiðslurétt.

 Í mjólkinni er styrkurinn alfarið tengdur framleiðslunni og gefur tryggingu fyrir ákveðnu framleiðslumagni sem fæst fullt verð fyrir. Þar eru menn að kaupa sér styrkinn ásamt markaðshlutdeild. Þeir sem ætla að auka við sig eða hasla sér völl í mjólkurframleiðslu verða að kaupa sér ríkisstyrkinn og réttinn til að framleiða matvælin á okurverði sem nemur oft styrkupphæð næstu 8- 12 ára.


 Þetta niðurslitna júgur er að framleiða um 9000 litra ári. Þó það sé nú kannski á síðasta snúning vantar mig framleiðslurétt fyrir það og nokkur í viðbót. Kaupin á réttinum færi ekki að skila mér launum fyrr en eftir svona 5- 8 ár.

 Það er ljóst að þetta kerfi er orðið fótafúið.

Og einhvernveginn missti ég af  framtíðarsýn frammaranna á málaflokkinn.

 Hann hlýtur að birtast mér í póstkassanum fljótlega.emoticon 

 
 


19.03.2009 22:27

Allir á flakki.


  Það var mikið flakk á Dalsmynnispakkinu í dag.
 Reyndar var byrjað á því að lesta " nýju" byggflutningsgræjuna okkar Yrkjamanna.



  Það tók innan við klukkutíma að lesta  rúmum tíu tonnum af byggi sem yngri bóndinn skutlaði síðan til kaupandans. Að því loknu brugðu yngri bændurnir sér til borgar óttans og hafa ekki sést síðan.

   Við þessi öldruðu vorum líka á fleygiferð um vesturlandið, fyrirvinnan á fundi í Borgarnesi en ég þurfti á Akranes að sækja  dót í húsið okkar gamlingjanna en nú standa fyrir dyrum allskonar endurbætur á því á árinu. Það er að verða  30 ára gamalt og bóndinn ekki sá alnatnasti í viðhaldsdútlinu.

  Smiður búsins er allt í einu orðinnn hinn vinnufúsasti, eftir allkonar undanfærslur megnið af þessari öld svo það eru nú til jákvæðar hliðar á kreppunni, hvað sem hver segir.

  Og vorblíðan lék við hvern sinn fingur og sá gamli sem ég hitti í Borgó og spáði löngum illviðrakafla og snjóþyngslum hafði engin áhrif á góða skapið. Ég gleymdi meira að segja að fara í ríkið og orðin veruleg hætta á að maður hætti að rata þangað, núna þegar fer að vora( 7- 9 - 13.).

 Og áætluð Selfossferð á morgun, frestast um viku sem er fínt, því nú er í nógu að snúast í sveitinni. emoticon 



  
Flettingar í dag: 2380
Gestir í dag: 252
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430359
Samtals gestir: 39767
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 17:14:42
clockhere