22.03.2009 10:21

Sauðfjárbændur af Snæfellsnesi á ferð um Vatnsnesið.



  Laugardagurinn var tekinn í að heimsækja fjóra sauðfjárbændur á Vatnsnesi og var sláturhúsið á Hvammstanga skoðað í leiðinni.

  Það var félag Sauðfjárbænda á Snæfellsnesi sem stóð fyrir ferðinni og   rúmlega 20 manna hópur sem lagði af stað um níuleitið með Sæmund sjálfan sem bílstjóra.

  Byrjað var á að skoða SKVH ( sláturhúsið á Hvammstanga) en þar tóku á móti okkur Magnús sláturhússtjóri og Heimir á Sauðadalsá. Heimir fylgdi okkur síðan allan daginn og fræddi okkur óspart um sveitungana og Vatnsnesið.

 M.a. sýndi Magnús okkur nýja línu sem verið er að setja upp. Þar verða vambir og garnir hreinsaðar og síðan fluttar út í stað urðunar.Nánast allur innmatur, slög o.fl. er flutt út, fyrir utan það sem landinn kaupir til sláturgerðar.


                          Þvottaskiljan og hluti nýju línunnar  í uppsetningu.

  Þarna var okkur boðið í veislumat og það fór ekki milli mála um leið og við smökkuðum þetta lostæti sem þarna var á borðum að lambið hafði örugglega alið aldur sinn á vesturbakkanum (austan varnarlínu), og kom mér í hug vísan sem fylgdi lambslæri til kunningja fyrir margt löngu.

Þetta læri fyrrum frátt,
um fjöll vann steðja.
Megi það ykkar maga gleðja.

 Ekki náði Þóra formaður að ganga frá verðsamningum við Magnús um haustverðin og að lokinni veislunni, tók Heimir við leiðsögninni þegar lagt var af stað að fyrsta búinu, Sauðadalsá. Þar er rekið eitt afurðamesta sauðfjárbú landsins.

 Þarna var féð í hefðbundnum eldri fjárhúsum en hluta þeirra var gefið úti við eldri hús þar sem það var hýst í verri veðrum. Þarna var eins og á hinum bæjunum afbragðsgott fé í sjón og raun, flest kollótt.Þarna var heyskapurinn að hluta heyjaður í vothey í flatgryfju.

  Næsti bær í prógramminu var Bergstaðir, einnig landsfrægt býli fyrir afurðir og vel gert fé. Þarna búa ung hjón sem fluttu á jörðina fyrir þremur árum og tekst vel að halda við snyrtimennskunni og fjárstofninum. Þarna var allt féð með handföngum og hvað sem hver segir er byggingarlagið því hyrnta oftast í hag þegar farið er milli bæja í þeim gæðastandard sem þessir bæir eru í.


         Já,já, það var allt í góðu lagi með gemlingana á Bergstöðum.

Þarna var líka heyjað að hluta í flatgryfju svo ég kannaðist vel við bæði fjárhúsin og heyverkunina, sem ég lagði af upp úr 92. Fjárhúsin mín breyttust svo í 50 kúa fjós á einu sumri.

  Saurbær var næsti viðkomustaður en þar er nýbyggt stálgrindarhús með gjafagrindafóðrun.



  Þarna sannaðist að oft er mislitur sauður í mörgu fé. Gjafagrindurnar komu mér líka kunnuglega fyrir sjónir . Þær voru heimasmíðaðar eins og reyndar allar innréttingarnar og voru nákvæmlega eins og þær sem ég skoðaði á Brjánslæk á dögunum.

  Bóndinn var eitthvað daufur í dálkinn til að byrja með og fljótlega kom í ljós að við sónarskoðun á kindunum nokkrum dögum áður hafði tíkin á bænum verið sónuð í leiðinni. Hún átti að vera hvolpafull og gjóta innan þriggja vikna. Talningameistarinn hafði úrskurðað tíkina hvolpalausa og var ljóst að bóndanum þótti þetta þyngri raun en þó ótiltekinn hópur fjárins hefði verið lamblaus.


  Budda frá Súluvöllum er mikils afbragðstík og á fáa sína líka, allavega norðan Holtavörðuheiðar og vestan Vaðlaheiðar svo ég særi nú sem fæsta.

  Nú vorum við Snæfellingar orðnir léttir í lund og fullir bjartsýni. Í hópnum voru miklir hundagúrúar hver öðrum fremri og fullvissuðum við bóndann um að fósturvísateljarar hefðu ekkert vit á hundum.
 Lauk þessu máli síðan með því að menn deildu um hvort í tíkinni væru 5 eða 8 hvolpar og tók Baldur nú gleði sína á nýjan leik. Síðan er spurningin sú, hvort bjartsýni gærdagsins dugir Buddu til hvolpaeignar.

 Síðasti bærinn var Böðvarshólar. Þar var líka nýbyggt stálgrindarhús með galvanhúðuðu burðarvirki og samlokueiningum í þaki og veggjum.

 Þegar þangað kom var ljóst að þeir Böðvarshólabændur treystu sveitungum sínum illa til að sjá um að við ferðalangarnir hefðum nóg matar og drykkjar í ferðinni.


 Þó það væru algjörlega óþarfar áhyggjur varð nú ljóst að vel horfði með daginn og fjárhúsin í Böðvarshólum yrðu skoðuð mjög nákvæmlega.

  Þarna var loksins vel séð fyrir fjárraginu með rekstrargangi meðfram öðrum útveggnum og var því hægt að hringreka féð um húsin.

 
    Það fór ánægjutilfinning um bakið á mér við að sjá þessa aðstöðu, en fjárragið á haustin hafði alltaf skelfilegar afleiðingar í för með sér hjá mér þar til fúskað var upp lágmarks aðstöðu til rögunar í Dalsmynni.

 

  Á heimleiðinni deildu menn hart um kosti og galla þess að rækta hyrnt eða kollótt.

Ég tók ekki þátt í þeirri orrahríð enda áratugir síðan ég gerði mér ljóst að ekki þýðir að rökræða um kosti einhverra ræktunarlína, hvort sem er í  hunda,sauðfjár, nautgripa eða hrossarækt.

  Þar verður hver að hafa sína skoðun sem eru oft afar misvísandi sem betur fer.

Það eru textaðar myndir í albúmi úr ferðinni, fyrir rollufólkið.

Og takk fyrir okkur, Vatnsnesingar.emoticon 




 

  
 

Flettingar í dag: 76
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1482
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 448859
Samtals gestir: 41448
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 03:37:18
clockhere