Færslur: 2008 Janúar

31.01.2008 21:37

Vetur konungur. (Og fyrsti hundurinn skráður i sölu)

 Já það er bara kominn alvöruvetur. Nú er þetta vestanáttargutl búið og norðaustanáttin hefur komið súrefninu á góða hreyfingu. Mér finnst það þakkarvert þegar sá sem veðrinu stjórnar notar nóttina í versta veðrið. Um það leyti sem ég skreiddist upp úr pottinum um kl 11 í gærkveldi var ljóst að eitthvað var að gerast , farið að snjóa og þaut vel í fjöllunum. Þegar ég hrökk upp við vondan draum um fimmleytið ( feilskaut á mórauða refinn sem var að koma í ætið) var auðheyrilega albrjálað veður. Það var gengið yfir þegar skrönglast var í fjósið í morgun .
 Og na áttin klikkaði ekki á því, að allur snjór sem eitthvað los var á hafði  fokið út á hafsauga nema nýir skaflar höfðu myndast  þar sem aðstæður buðust.
  Þar var hestamiðastöðin í Söðulsholti veikust fyrir og fór hluti dagsins í að moka snjó þar af plani og úr gerði.

    Og þau merku tíðindi gerðust í dag, að fyrsta skráning heimasíðunnar í hundar/hvolpar til sölu, fór fram. Þarna er kominn inn hvolpur sem ég held að verði vandræðalítið ungmenni og notadrjúgur vinnuhundur án flókinnar tamningar. Reyndar þekki ég hann ekki persónulega en systir hans kemur sér ákaflega vel hér og vekur tiltrú hjá eigandanum um gæfuríka framtíð.

30.01.2008 20:59

Leika sér.


 Ég komst bara á hestbak í dag .Og það var flott. Stígandi hefur verið í fríi síðan í leitum og lék við hvern sinn hóf. Ég sýni ykkur einhvern tímann montmyndir af honum.
Þegar ég var að setja mig í stellingar að klára málið og skella út kindum/hvolpi kom babb í bátinn. Atli birtist í vélsleðagallanum og eftir smá íhugun sá ég að hvolpurinn er ekki nema 6 mán. og fullsnemmt að fara með hann í kindur. Já það var tekið á því á sleðunum. Söðulsholtsbóndinn var tekinn með ásamt kaupakonunni. Vegna þess að Atli er á alvörusleða og hagar sér stundum eins og hann búi við verulega heilaskerðingu, var nágrannanum gerð rækileg grein fyrir því, að hann væri á skilorði og ef hann reyndi að elta vitleysinginn upp á fjallstoppana myndi hann ekki frétta af næstu ferð fyrr en við kæmum til byggða. Hann samþykkti það með brosi á vör minnugur þess hvað skeði, þegar hann nálgaðist einn fjallstoppinn í síðustu fjallaferð sem var að vísu fyrir tveim árum. Síðan við feðgarnir urðum næstum úti í snælduvitlausu veðri sem skall á okkur hér uppi á fjallgarðinum erum við ákaflega veðurhræddir þegar snjósleðaferðir eru annarsvegar, þá vorum við frekar litlir með Stóra Langadalinn + Hestgilið á hægri hönd og Hestinn til vinstri og sáum ekki til jarðar og rétt héngum á sleðunum í rokinu.
 Nú var spáð vitlausu veðri þegar liði á daginn og var því litið til lofts á 5 mín. fresti.
 Reyndar horfðum við stíft til jarðar þegar við brunuðum gegnum refaóðalið (mikið af slóðum) þar sem óþekkt gren komst upp í vor en þar eru á vakki refurinn og 4-5 hvolpar. Þeim á trúlega eftir að fækka fyrir sumarið en gamli rebbinn verður erfiður því hann hefur einhverntímann hitt óheppinn veiðimann (bílgluggamann) og er sá styggasti sem ég hef séð úr bíl.
 

29.01.2008 20:50

Áburðarverðið og !

 Ég var að prenta út hjá mér áburðarverðin hjá F.B og S.S. Þegar ég sá tölurnar ákvað ég að ljúka kvöldblogginu áður en ég legðist yfir þær en það er ljóst að trúlega verð ég ekki blogghæfur næstu dagana eftir það. Af fyrstu tölum mátti þó ráða að þótt áburðarsölumaður FB vestan Breiðafjarðar verði auðvitað ekki i góðum málum að selja í vor verði þó aðrir í enn verri málum. Nú liggur fyrir að ljúka við áburðaráætlunina og gera sér grein fyrir kostnaðaraukanum sem verður á bilinu 4 - 600.000 ´hér.
 Það lítur út fyrir að köfnunarefnið hækki minnst( ekki eins mikið) og hin efnin svo nú verður búfjáráburðurinn tekinn með í dæmið og svindlað e.h. á hinum efnunum þetta árið, allavega á eldri túnunum.
 Og það var bara gott veður í dag fyrir utan éljagang í morgun. Byggið er komið vestur yfir fjörð og þó ég sé samviskulaus í viðskiptum létti mér stórlega við það.

  Nú er ég ákveðinn í tvennu sem ég ætla að framkvæma fyrir eða um helgina. Fara með 6 mán. hvolpinn minn í kindur og taka skeifnasprettinn á Stíganda. Vonandi stendur hvolpurinn sig, svo ég geti sýnt hundaáhugamönnum sem slæðast hér inn hvernig hann ber sig til við frumraunina. Ef hinsvegar ekkert heyrist um þetta meir má búast við geðvonskupistlum frá mér í framhaldinu.
Flettingar í dag: 622
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420622
Samtals gestir: 38341
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 20:39:44
clockhere