Færslur: 2008 Janúar

25.01.2008 22:39

Landnámskýrin .annar kafli.

 Í fyrsta sinn sem ég kom í fjós erlendis var það í Finnlandi.(Af öllum löndum). Þetta var gamalt básafjós með flór og öllum pakkanum og miklum spæni á gólfum og stéttum í tilefni gestakomunnar. Þarna stóðu um 20 - 30 kýr í röð. Þær voru ívið stærri en þær íslensku og hópurinn samsvaraði sér vel en það voru júgrin á þeim sem vöktu sérstaka athygli. Júgrin og spenarnir voru öll eins og steypt í sama mótinu og ég velti því lengi fyrir mér hvenær eitthvað þessu líkt sæist á skerinu. (En þetta var nú áður en ég sá ljósið.) Síðan hef ég komið í þó nokkur fjós með ýmsum kúakynjum og veit að svona er þetta í útlandinu. En svo sá ég ljósið. Þegar ég kom í 250 kúa fjósið á dögunum og var að virða fyrir mér mjaltabásinn hugsaði ég til þess með hryllingi hvernig það væri fyrir vesalings mjaltamennina að þurfa að þvo og setja á nákvæmlega eins 200 og eitthvað júgur tvisvar á dag. það hlýtur að vera skelfilega tilbreytingalaust. Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar kom í hugann að hjá þessum 40 og eitthvað mjólkandi kúm í Dalsmynni eru engin 2 eins.  Og þegar það kom fram að þessir dönsku spenar  sem hvorki leka eða eru fastmjólka eru að skila í mjöltun 3- 5 litrum/mín. hugsaði ég með mér þvílíkt stress þetta hlyti að vera að vinna í þessari gryfju. Og mér varð hugsað til kvígunnar sem bar hjá okkur fyrir jólin þetta var stór og falleg kvíga með gott júgur og góða spena og mjólkar vel. Ég fylltist bljúgri þakklætiskennd þegar mér var hugsað til pásunnar sem kemur í mjaltabásnum þegar kvígan er mjólkuð en það tekur 0.8 mín að ná hverjum líter úr henni. Ég veit reyndar að þeir sem eru að stjórna kynbótastarfinu og velja nautkálfana á stöðina berjast hæls og hnakka á milli við að breyta þessum dásamlegu eiginleikum íslensku kýrinnar en sem betur fer gengur það bæði seint og illa.

 Gangið þið svo á guðs vegum um helgina.

24.01.2008 21:44

Landnámskýrin


  Vinir mínir trúa mér stundum fyrir því að ég sé nú meiri dj. þverhausinn. Sé þeim mikið í mun, líkja þeir mér við ýmis húsdýr innlend eða erlend máli sínu til stuðnings.
 Einn þeirra minnist gjarnan á gamla Hafnfirðinginn sem fór í bíó á þeim tíma sem bekkir en ekki stólar voru til ásetu við áhorfið. Sá gamli settist öfugt í ógáti og frekar en láta sig, sneri hann baki í myndina allan tímann.
 Ég reikna með að fyrst vinir mínir haldi þessu fram séu þeir ótalmargir sem trúi þessu án þess að hafa orð á þessu við mig.
 Þetta er samt mikill misskilningur og sýnir einfaldlega hversu litlir mannþekkjarar þeir eru. Eftir að hafa búið í nær 30 ár í tiltölulega ólátalitlu hjónabandi er ég nefninlega fyrir löngu búinn að læra það að betra er að gefa eftir án mikilla átaka heldur en að tapa eftir stórstyrjöld. Ég kalla það að vísu að sá vægi sem vitið hefur meira.
 Í vangaveltum mínum hér á síðunni hef ég einstaka sinnum vikið lítillega að blessaðri landnámskúnni og haft einhver orð um kosti hennar og galla. Það verður að segjast eins og er, að þessar vangaveltur hafa ekki fallið í kramið hjá minni heittelskuðu sem er eindregin meirihlutamanneskja. Er nú svo komið að ég hef ákveðið að úthúða ekki þessum ágæta stofni hér á síðunni nema mjög brýna nauðsyn beri til. Þess í stað mun ég upplýsa um alla galla erlendra kúakynja eins og ég hef vit til.
 Trúlega mun ég fara yfir eitthvað í þá veru í næstu vangaveltum hér.

23.01.2008 22:47

Góðir og slæmir dagar.


  Gærdagurinn var frekar önugur .Í fyrsta lagi var skítaveður og þó að ég þoli fjölmörg vindstig ennþá og sé ýmsu vanur í þeim efnum get ég ekki með nokkru móti sætt mig við, að það skuli bálhvessa í suðaustanátt. Þá á bara ekki að vera hvasst í Dalsmynni þannig að segja má að nú sé fokið í flest skjól.
 Til að toppa daginn urðu mannleg/tölvuleg mistök til þess að mjólk úr kú  í lyfjameðferð lenti samanvið og þurfti að hella niður 1.000.l. + af annars eðalmjólk.
 En það er nú enginn mjólkurskortur nú um stundir hérlendis.
   Í dag þurftu síðan báðir bændurnir að bregða sér í höfuðstaðinn og þar sem sá eldri átti bara eitt erindi sem tók stuttan tíma en sá yngri þurfti að slugsa allan daginn og gott betur var farið á tveim bílum sem hefði þótt saga til næst bæjar á síðustu öld.
  Það er síðan búið að fylla á aftur(éljagangur í dag)  fyrir snjónum sem tók upp í látunum í gær svo snjósleðafærið er í lagi og geri góðan dag verður öruggleg eitthvað kæruleysi sett í gang. Og nú vil ég fara að fá stilltara tíðarfar svo hægt sé að fara að gera eitthvað í hundamálunum. 
Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412754
Samtals gestir: 37034
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 09:41:09
clockhere