Færslur: 2008 Janúar

22.01.2008 22:14

Skák og mát.

  Þegar Fischer og Spassky öttu hér kappi um árið var ég nokkur áhugamaður um skák. Ég hafði grúskað aðeins í þessu lesið einhverja bók um málið og lært einhverjar byrjanir sem dugðu mér sæmilega ef skákspjaldið var tekið upp. Einhverra hluta vegna var Fischer minn maður í einvíginu. Núna kann ég reyndar ekki skýringu á því , sérstaklega vegna þess, að á þessum árum var ég haldinn pólitískum skoðunum sem settu Bandaríkin ekki ofarlega á vinsældarlistann hjá mér. Nú hef ég reyndar mjög litlar pólitískar skoðanir en jafn lítið álit á Bandaríkjunum en það er önnur saga.
 Trúlega hef ég gert Fischer að mínum manni vegna þess að hann hafði minni stuðning að baki sér og var ekki auðveldur viðfangs í daglegri umgengni og ég hef löngum verið hallur undir órólegu deildina. Ég fylgdist nokkuð vel með einvíginu og átti það til að setja upp áhugaverðar skákir og spá í þær. Það var þá sem ég fékk það stundum á tilfinninguna að minn maður eins og lumaði á einhverju upp í erminni sem dugði honum til sigurs eftir tvísýna barátta.

 Það var mjög ánægjulegt þegar Fischer hafði hrakist hingað á klakann að upplifa
það að hann var látinn í friði fyrir fjölmiðlunum sem  yfirleitt eira engu. Þessvegna hrökk ég við þegar " vinir " snillingsins birtust í fjölmiðlum að honum gengnum og stefndu greinilega á mikið fjölmiðlafár enda vanir menn á ferðinni. Þegar það lak út af fjögurra manna fundi að opinber útför og þjóðargrafreitur væri markmiðið var þetta orðið borðleggjandi. Hvað nánustu aðstandendur hugsuðu  virtist litlu skipta.
 
En Fischer hafði lumað á leikfléttu uppí erminni og séð til þess að hún yrði framkvæmd. Með öðrum orðum " skák og mát."
 

21.01.2008 23:11

Brauðstritið.


 Jæja þá er brauðstritið byrjað á fullu og enginn sem syngur fyrir mig á kvöldin.
Eftir morgunverkin var farið í kaffi  í hestamiðstöðina og þar var lagst yfir stóðhestahald/notkun komandi sumars. Ég er í vondum málum með Von því það er sama hvað vígalegan hest ég nefni til sögunnar alltaf hnussar í ráðgjafanum (Iðunni).
 Nú er ég að leita að leiguhryssum til að halda undir Sindra og Funa því mér finnst þeir náttúrulega langbestir og flottastir. Ef ég hinsvegar finn einhverjar slíkar mun örugglega heyrast mikið hnuss yfir því að halda svona bikkjum undir þessa verðandi snillinga. Að loknum þessum heilabrotum sem tóku virkilega á,  var haldið til í byggþurrkuninni við völsun og sekkjun til kl.5  . Um kvöldið var síðan lestaður bíll í Dalina og næsta færa dag verður sekkjað fyrir Byggvinafélag Barðstrendinga( Bara rólegir strákar). Síðan liggur fyrir sekkjun og flutningur  í Staðarsveitina . Þar sem Lífland var að hækka fóðurlínuna hjá sér um 6 % er ljóst að þetta fer allt út á gamla verðinu.
 Nú eru hundaeigendur að hringja í mig og herma upp á mig tamningarloforð en það er orðin algjör regla hjá mér, sé ég beðinn að temja hund að ég segi, já ekkert mál hringdu í mig eftir nokkra mánuði. Undantekningarlítið heyrist síðan ekkert meira í viðkomandi. Nú eru greinilega breyttir tímar,þannig að nú er bara sagt að þetta verði skoðað þegar/ef tíðin skáni.
 

20.01.2008 20:15

!! Vinnuferð 3 !!

Já Agromec  yfirgáfum við félagarnir um 1/2 5 á miðvikudeginum og svo skemmtilega vildi til að á Pöttinger svæðinu þar sem við enduðum, hittum við 15 Hvanneyringa þar á meðal einn sveitunga minn.
 Það var kvöldverður ásamt nokkrum Dönum áætlaður kl 6. og að loknum honum tók  kórinn síðustu æfinguna í Danaveldi.
 
Við vorum síðan komnir á fullt kl. rúml. 7 því mikið lá fyrir þennan daginn.
  Í Danmörku byggja vélaumboðin upp þjónustunet með ótrúlegum þéttleika á okkar mælikvarða. Þjónustumiðstöðvarnar hjá stærstu umboðunum eru með um 60 - 80 km millibili eða um 30 - 40 km radíus sem þjónustaður er. Í þeim er verslun með allskonar varningi sem tilheyrir landbúnaðinum,öflugt verkstæði og  lager af uppítökuvélum ásamt nýjum tækjum.
 Við heimsóttum 3 slíkar stöðvar mismunandi stórar. Sú stærsta var með 14 starfsmenn á verkstæðinu. Á þeim öllum var um helmingur starfsmannanna á þjónustubíl og vann eingöngu hjá bændunum/verktökunum við viðgerðir og aðra þjónustu tengda vélunum. Já þarna er aðeins þéttbýlla en hér.

   Síðan var komið við í tveimur fjósum. Annað var 250 kúa með tuttugu og tveggja kúa mjaltabás. Sá var þannig að kýrnar sneru þvert á hann við mjöltun (afturendi að gryfjunni). Það sem vakti kannski mesta athygli mína þarna var gólfefnið. Gólfið var allt lagt  hömruðum gúmmímottum,læstum saman á hliðum og skrúfaðar niður í gólfin,flórinn og steyptu bitana . Hitt fjósið var um 120 kúa róbótafjós . Þarna var S.A.C róbót og ég verð að viðurkenna að mér leist miklu gæfulegar á hann núna en um árið. Hann er hannaður uppúr iðnaðarróbót og virkar nettari og einfaldari en kollegar hans og er að sögn SAC manna farinn að svínvirka. Þarna gengu kýrnar á hálmi og þarf gripurinn um 7 kg af hálmi á dag. Það er eins gott að þurfa ekki að treysta á Íslenska haustveðráttu til að ná honum. Geldneyti þarna voru í stórri skemmu  á hálmi og var opið fyrir þá út á nærliggjandi tún. Önnur hlið skemmunnar var opin og steypt stétt utan veggjarins. Á þá stétt var gripunum gefið.
 Og þeir sem hafa nennt að lesa þetta ættu að kíkja í myndaalbúmið og sjá flottar snjósleðamyndir.
Flettingar í dag: 288
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 406
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 417813
Samtals gestir: 37925
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 18:59:26
clockhere