Færslur: 2008 Janúar

28.01.2008 20:17

Alltaf blíða.


 Loksins gerði almennilegt veður en í stað þess að fara á hestbak og njóta þess, var farið í að gera upp gamlar syndir.  Loksins var hægt að sekkja byggið þeirra Barðstrendinga og nú er að koma því sem fyrst af stað þegar gefur og hálkan verður ekki mjög ógnvekjandi. Það var farið í að moka snjó af öllum þeim stöðum sem hann á alls ekki að vera,en þó var beðið með moksturinn að kjarnfóðursílóinu þar til vitað er hvenær í vikunni fóðurbíllinn kemur. Svo kom loks  að því, að mjólkurtankurinn yfirfylltist við morgunmjaltirnar og þarf að leysa það mál fyrir næsta mánudag. Til að byrja með verður væntanlega samið við mjólkurbílstjórann að tæma tankinn á vesturleið en hann er hér um 15 mín fyrir  kl. 7. Það gæti þýtt seinkun á mjöltum því sjálfvirka þvottavélin í tanknum þarf sinn tíma og erfitt að koma handvirku aðferðinni við.
  Fyrsta kálfs kvígan sem bar í gær er afar viðskotaill og ekki fyrir gamalmenni að eiga við hana. Mamma hennar er þó hinn mesti ljúflingur svo þetta eru örugglega einhver aðkomugen  eða þannig. ( Takið eftir því að ég minntist ekkert landnámskúna.)
 Og yngri bóndinn eyddi lunganum af deginum í það að smíða kjarnfóðurvagn fyrir hrossabændur norður í Skagafirði og kom það vel á vondan þvi hann fer ákaflega vel með hrossaáhugann. Já, Já, það týnist alltaf eitthvað til í sveitinni.
 

27.01.2008 21:41

Snjór og kynbótadómar

 Það hvarflar ekki að mér að halda því fram að snjói alltaf í logni hér á nesinu.
Ég viðurkenni fúslega að þegar snjóar eru þeir fleiri dagarnir sem snjórinn er á góðri siglingu á leið sinni hér um en þegar hann kemur lóðrétt.
 Það eru hér tvær staðbundar snjóaáttir,norðaustan sem heldur snjónum yfirleitt á það góðri siglingu að hann stoppar ekkert við nema í  lautum eða skjóli. Hinsvegar er það suðvestanáttin en þá er oftast éljagangur í kortunum á þessum árstíma.Þetta eru oft drjúg él hvað snjómagn snertir og laga oft snjóbúskapinn verulega á svæðinu, eða þannig. Nú er blessuð vestanáttin ríkjandi hér og snjóbúskapurinn ákaflega góður hvað magn varðar.

  Já Söðulsholtsbændur ákváðu að blása til námskeiðs í kynbótadómum hrossa,réðu kennara og´"láku" síðan tilvonandi námskeiðshaldi til vina og vandamanna. Annaðhvort var lekinn of mikill eða vina og vandamannahópurinn of stór, því eftir að hafa bætt við öðrum kennara var stoppað við 22 nemendur. Að gefnu tilefni skal tekið fram að lekinn átti sér einungis stað innan ákveðins radíuss hér vestanlands en byrjaði ekki í fjarlægum landshlutum. Það sem gerði það að verkum að ég fékkst til að mæta, var að kennarnir, Eyþór Einarsson  og Þorvaldur Kristjánsson voru þeir sömu og dæmdu í tryppakeppninni á Mið-Fossum og hafa því að mínu mati gríðarlega gott vit á hrossum. Það verður síðan að viðurkennast að þetta var frábært námskeið og ég sem hef náttúrulega ekki þurft annað en renna augunum yfir hrossið til að meta  hvort það væri fallegt eða ljótt fékk þarna alveg nýja sýn á hlutina. Og þó að ég væri náttúrulega ekki sammála því að hross sem mér þótti nú ekkert sérstök væru að halast í fyrstu verðlaun gætti ég þess að hafa ekki orð á því. Ekki dugar að deila við dómarana. Svo nú liggur fyrir að reka inn leynivopnin okkar í ræktuninni og leggja á þau" hlutlaust " mat. Spurning hvort það verði góður dagur?

26.01.2008 10:34

Snjór, snjór og meiri snjór.

Greinilega hafa allt of margir óskað eftir snjó um jólin og veðurgyðjurnar e-ð seinar að hætta að uppfylla þær óskir. Hér er kominn alveg ótrúlega mikill snjór miðað við elstu menn. Miklir skaflar út um allt. Garðurinn og girðingin í kring að fara á kaf. Vonandi blotnar ekki snöggt í þessu, þá er ég hrædd um að runnar og tré komi í brotum undan farginu. Atli er að moka á fullu svo fært verði heim á hlað. Dóri þurfti að hlaupa frá Hænuhól með Kolbrúnu hingað í morgun, bíllinn komst ekki lengra. Hún er enn lasinn og ferlega fúlt að komast ekki út í snjóinn með hana því nú er sko færi til að vera á sleða. Hún vill láta draga sig hratt og mér veitti ekki af að komast í form, var að panta 4 daga gönguferð hjá Stapafelli í sumar með Sif. Eftir Fimmvörðuhálsferðina sl. sumar höfum við fyllst óheyrilegu sjálfstrausi og teljum okkur geta flest. En þetta er trússferð svo ég þarf ekki að bera mikið á bakinu.
Svanur og Hrossholtshjúin á kynbótanámskeiði í Söðulsholti ásamt 20 öðrum. Mér skilst að nú ætli menn að læra hvernig hross eiga að líta út svo þau fái hátt í byggingareinkunn. Verður spennandi að vita hvernig skapið verður þegar þau koma heim  eftir kaffi. Skyldu hrossin þeirra vera rökkuð niður eða hrósað?
Púki köttur gengur hér um og veinar, langar svo út en ef ég opna leggur hann ekki í snjóinn.
Ég ætla ekkert að skrifa um kýr, læt Svani það eftir.  Ætli menn geti fengið kýr á heilann??? 
Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418092
Samtals gestir: 37970
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 15:57:13
clockhere