Færslur: 2007 Desember

22.12.2007 20:55

Jólahald og skammdegi.


  Þó ég sé ekki enn genginn í Ásatrúarsöfnuðinn er dagurinn í dag mér ákaflega mikilvægur.
  Mér finnst alltaf meiriháttar þegar daginn tekur að lengja á ný og innan nokkurra vikna sé svartasta skammdegið að baki.Ég verð samt að viðurkenna að þó það sem af er skammdeginu sé bæði blautara og dimmra en oftast áður hefur það ekki angrað mig mikið aldrei þessu vant, hver sem skýringin er á því.
 Það var farið i Borgó í dag í lokaverslun  til jólahalds.Ég var hafður með sem burðardýr og þegar ég renndi drekkhlaðinni körfunni að afgreiðslukassanum var mér orðið nokkuð ljóst að ég myndi ekki leggja af þessi jólin.Gallinn við hækkandi aldur er m.a.sá að árleg viðbót á líkamsþyngd vegna jólahalds gengur ekki til baka næstu mánuðina eins og í gamla daga þrátt fyrir ýmis áhugaverð áramótaloforð.
 
  Það er búið að ganga á með éljum í dag og ekki útilokað að jólin verð hvít í ár eða allavega grá.
  Fyrsta kálfs kvígan sem bar í dag er sú sjötta sem ber í haust/vetur og virðist ætla að virka vel.Af hinum fimm var ein aldrei mjólkuð (ónýtt júgur) .Tvær eru óhæfar í ræktun vegna meiriháttar fúllyndis.Ein er svona la la og sú síðasta er fín.Sem sagt tvær  góðar af sex..Enda er það öllu skynsömu fólki óskiljanlegt að einhverjir rugludallar skuli vilja kynbæta hinn frábæra Íslenska mjólkurkúastofn með innflutningi á erfðaefni úr dularfullum óverðugum erlendum kúakynjum með einhverjum allt öðrum afurða og arðtölum en henta hér á klakanum.

 Megi svo guð  gefa ykkur öllum gleðileg jól.

      
 

18.12.2007 22:45

Sást til sólar í sveitinni.


  Það sást til sólar um miðjan daginn en skelfing var hún lágt á lofti og stóð stutt við.
Annars er búið að rigna eldi og brennisteini sem aldrei fyrr  en nú hlýtur þetta að fara taka enda þegar daginn fer að lengja á n ý. 7-9-13.
  Trúlega kemst maður í rétta jólaskapið á morgun þegar hrútunum verður sleppt í ærnar, sem er nú  með fyrsta móti en það er búið að lofa mér góðu vori.
 Reyndar á líka að herða sig upp í að ganga frá áburðaráætlun/pöntun fyrir vorið  en þar er verið að spá 45 % hækkun á verði frá síðasta ári sem þýðir einhverja hundraðkalla fyrir Dalsmynni sf.
  Til að stytta skammdegið er setið með nágrönnunum og pælt í stóðhestum næsta sumars og þar er sko  auðugan garð að gresja. Bara að láta ekki tískubólurnar blekkja sig og lesa í dómana sem eru nú huglægt mat þegar allt kemur til alls þegar hálfa stigið er farið að skipta öllu.

 

 

15.12.2007 09:26

Veður og fl.

 Nú er suðaustanáttin frekar slök í bili en hún mun víst hressast við fljótlega.
  Sem betur fer nær hún sér aldrei verulega á strik hér á sunnanverðu nesinu.Það eru vestan hvellirnir sem eru hættulegastir hér á bæ.(Sviptivindar frá Hafursfellinu).
 Norðaustan áttin er þó allajafna sú áttin sem á minnstum vinsældum að fagna þegar hún hefur legið við í nokkrar vikur í 12-15 metr/sek.þó hefði hún alveg mátt plaga okkur miklu meira í haust en það er svona ,við erum aldrei ánægð með þetta óþrjótandi umræðuefni, veðrið.
  Vegna rigninganna í allt haust tókst ekki að vinna akrana ,ýta út ruðningum og undirbúa vorsáningu eins og stefnt var að svo nú er bara að vonast eftir klakalitlu vori.
 Það var með herkjum að tókst að ná hálmi fyrir Dalsmynni og Söðulsholt en notkunin er um 130 rúllur a.m.k. Því miður erum við ekki aflögufærir um hálm þetta árið en margir eru farnir að nota hann í undirburð fyrir nautgripi og fé og það var erfitt að ná honum þetta haustið.Já Akuryrkjan verður allaf lotterí hérna.
 
Flettingar í dag: 286
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418949
Samtals gestir: 38072
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:26:38
clockhere