Færslur: 2010 Júlí

20.07.2010 21:05

Rebbinn. - Glæný veiðisaga.

 Það kemur oft fyrir að ég fæ hringingu frá vegfarendum eða íbúum í sveitinni sem hafa komið auga á ref .

 Sumir höfðu séð hann fyrir einhverju síðan en vegfarendurnir eru oftast að horfa á hann eða nýbúnir að sjá hann.

 Mér finnst þetta alltaf góð símtöl því ég er mjög áhugasamur um  refaflóruna hjá mér og hegðun hennar.
 Ég spyr því alltaf um nánari staðsetningu, tímann og hvort sjáandinn teldi að dýrið hafi verið á leið upp eða niður fyrir veg o.sv.frv.

Stundum met ég stöðuna þannig að hugsanlega nái ég dýrinu með því að bregða mér á staðinn, en það er nú ekki oft sem þær vangaveltur ganga upp.

 Og rétt þegar ég var að gera mig kláran í pottinn um 10 leitið í kvöld hringdi síminn og þar var óðamála vegfarandi með rebba í augsýn.

 Í þetta sinn brá ég við hratt, bað hringjandann að doka við og brunaði þessa 4-5 km.  á tiltölulega ólöglegum hraða.

 Og rúmri  klst. síðar þegar ég var kominn heim og búinn að slaka á í pottinum biðu þessar myndir mín í póstinum.



 Þetta er alveg stórmerkileg mynd . Fyrsta myndin (og hugsanlega sú síðasta) sem  náðst hefur af mér á veiðum.



 Hér er viðfangsefnið í náttúrulegu virki sem dugði honum þó ekki. Og ótrúlegt hvað hægt er að súmma á góðri myndavél. Ég sá hann ekki með berum augum þaðan sem myndin var tekin.



Og árangurinn. Þetta var mórauður refur eldri en tvævetur og var greinilega bráðfeigur.

Og gáfnafarið gætið bent til þess að hann eigi ættir sínar að rekja til Austurbakkans.emoticon

19.07.2010 23:28

Hundatamningin.Skemmtileg augnablik. Myndir.

Það er mjög langt síðan að ég áttaði mig á .því að ég yrði aldrei ríkur á hundatamningum.

 Það er svo hinsvegar afstætt hvað gerir mann ríkan  !!

 Í lokatímanum með Terrí kom  Iðunn óvænt með nýju myndavélina sína.



 Og svona lítur hún Terrí Skrámsdóttir út þegar hún tekur flugið.



 Og nú er ekki verið að reka rollurnar í rólegheitum,. Það er tekið á því ef þær eru að sleppa.



Þetta er stelling sem fær allar hundvanar rollur til að haga sér vel. Hinar mega svo biðja fyrir sér ef þær gera það ekki.




 Og þessar þurfa ekkert að biðja fyrir sér, hefja bara virðulegt undanhald.

Og þeir sem voru búnir að panta námskeið  mættu gjarnan senda mér póst svo ég gleymi þeim ekki.

 

18.07.2010 20:59

Dalsmynniskýrnar í íslenskri/rússneskri rúllettu.

  Það er mikils virði að búa við góðar samgöngur.

 Þær stundir koma þó oft að ég fer með eitthvað allt annað en bænirnar mínar þegar þjóðvegurinn sem sker í sundur jörðina skapraunar mér fram úr hófi.

Umferðarþunginn og hraðinn er oft mikill og nú er ekki lengur reynt að keyra búfjáráburð niðurfyrir veg eða heyfenginn til baka um helgar.

 Og kýrnar sem fara daglega niðurfyrir veg lungann úr sumrinu eru í bráðri lífshættu  ásamt vegfarendum.
Þetta er nú í góðu lagi á morgnana enda bændur árrisulir og umferðin lítil um áttaleytið.



 Útlitið er hinsvegar oft verra seinnipartinn og nú sér sá gamli alveg um málið ásamt hundaflotanum.

Hér er allt tilbúið til að opna 4 m. breitt hliðið, með hundana í biðstöðu, klára í að koma hópnum uppfyrir á örfáum mín.



 Það er rétt að taka fram að rekstrarhraðinn er akkúrat eins og kúnum hentar en ekkert óþarfa slugs leyft eða ráp út í loftið.


Þó enginn bíll hefði verið í augsýn í vesturátt voru óðara komir 3 og 8 bíla lest aðeins vestar.

Kýrnar sloppnar, einn bíll stopp í kantinum  og þeir sem á eftir koma bruna framúr á óbrotinni línu.



 Í dag var sunnudagur og umferðarþunginn suður á bóginn. Á föstudögum eru aðalfjörkálfarnir á vesturleið. Þá koma þeir yfir blindhæð og oft stoppar fyrsti bíll nánast inn í hópnum.



 Já, kýrnar sluppu í þetta sinn og ég þarf ekkert að gera nema opna og loka hliðum og loka fjósinu á eftir þeim. Hundarnir sjá um hitt.

Og eins og þið sjáið, átti veðrið nú ekki að stressa ökuþórana, meira að segja logn á Nesinu.emoticon



Flettingar í dag: 47
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418710
Samtals gestir: 38020
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 04:11:10
clockhere