Færslur: 2012 Júlí

18.07.2012 20:05

Stefnir í methækkun á korni??

Það er útlit fyrir að rétt eins og með rigninguna herja langvinnir þurrkar á réttláta jafnt og rangláta.

 Þannig standa yfir  mestu þurrkar áratugum saman bæði í Bandaríkjunum og Rússlandi með tilheyrandi uppskerubresti.


 Þessi íslenski byggakur kemur sér vel ef allt fer að óskum með uppskeruna.

 Nú þegar hefur kornverð í Danmörku hækkað um 30 % og fer hækkandi. Þetta mun þýða milljarða gróða hjá dönskum kornræktendum en að sama skapi munu svína og kjúklingabændur fá að svitna og síðan að lokum neytendur.

 Sem betur fer lítur nú víðast hvar mun betur út með byggrækt og akuryrkju  hér á skerinu en oft áður.

 Það er nokkuð ljóst að þetta mun einnig hafa veruleg áhrif á innflutt fóður hérlendis með sömu afleiðingum fyrir bændur og neytendur.

 Og Jótlandspósturinn lýgur ekki.

13.07.2012 19:56

Í tómri steypu.


  Það var tekið rækilega á því í vikunni og gamlir byggingataktar rifjaðir upp.

 Burðarsökklarnir steyptir á .þriðjudag og fyrri veggjasteypan  á fimmtudag.



 Notuð eru flekamót sem duga ekki nema hálfan hringinn en létta þetta samt helling.
Þó munurinn á aðkeyptri steypu og heimalagaðri sé nú mun minni en í den var samt ákveðið að hræra heima ekki síst vegna þess að um margar smásteypur verður að ræða sem þýðir slæma nýtingu á steypubílnum sem aftur þýðir hærra verð á rúmmetri. 



 Steypustöð Dalsmynnis sf. svínvirkaði og með betra dóti  tíðkast ekki lengur að bjóða sveitungunum  í steypuvinnu heldur erum við 3 að ná því að hræra og koma í mót um 4 rúmmetrum/klst.



 Og Gústi yfirsmiður fékk að svitna í logninu og sólinni í steypumóttökunni. Hann hafði samt bara gott af því.



 Þetta er hinsvegar vinnustaður steypustjórans sem var nú alinn upp við það að handmoka í hálfpokavél búnaðarfélagsins fyrir margt löngu.

 Ekki tókst þó að halda áætlun þessa vikuna svo nú er það spurningin hvað gerist þá næstu ?


En það er á svona viku sem heiti potturinn lengir lífið og gerir það mun auðveldara. 

08.07.2012 22:09

Og nú byrjar ballið fyrir alvöru.

 Síðan í fyrravor hafa staðið til framkvæmdir á bænum. Það hefur verið teiknað og dregið að efni ýmisskonar en ýmissa hluta vegna var hluti þess sem gera átti í fyrra settur í frost í vetur.

 En það hefur verið ljóst lengi að þetta yrði afspyrnu erfitt sumar og ennþá styttra en alltof stuttir forverar þess.

 Iðnaðarmenn hafa svo leikið hefðbunda rullu í dæminu en ekki orð meira um það - í bili.

Annarsvegar er verið að breyta flatgryfju sem hefur verið nýtt undir kindur fyrir kvíguuppeldi.



 Keyptar voru forsteyptar einingar í burðarbitana undir rimlaeiningarnar.



 Til að auðvelda uppsetningu hliða og milligerða voru öxuljárn steypt í þá.

 Jafnframt þessu verður komið upp 200 ferm. stálgrinda/ fjölnotahúsi sem til að byrja með verður nýtt undir kindur og hross.

 Þar er stefnt að því að hægt verði með auðveldum hætti að rýma til, þannig að myndist gott rými til þess að grípa í hundatamningar eða sýningar yfir veturinn.



 Þetta verður unnið eins og í gamla daga. Bændurnir á fullu með smiðunum, steypt heima og svo framv.

 Það er búið að sanka að sér efni ýmiskonar þó betur megi ef duga skal en gömul reynsla og ný hefur kennt mér það, að þá fyrst fara hlutirnir að ganga þegar allt er komið á fullt og magasýrurnar ólga hæfilega.

 Nú mæta smiðirnir í fyrramáli, svona aðeins á eftir áætlun og framundan er stanslaus törn með iðnaðarmönnum þar til málið er búið.

Náttúrulega með ófyrirsjánlegu töfunum.
Flettingar í dag: 118
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418781
Samtals gestir: 38037
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 10:11:12
clockhere