08.07.2012 22:09

Og nú byrjar ballið fyrir alvöru.

 Síðan í fyrravor hafa staðið til framkvæmdir á bænum. Það hefur verið teiknað og dregið að efni ýmisskonar en ýmissa hluta vegna var hluti þess sem gera átti í fyrra settur í frost í vetur.

 En það hefur verið ljóst lengi að þetta yrði afspyrnu erfitt sumar og ennþá styttra en alltof stuttir forverar þess.

 Iðnaðarmenn hafa svo leikið hefðbunda rullu í dæminu en ekki orð meira um það - í bili.

Annarsvegar er verið að breyta flatgryfju sem hefur verið nýtt undir kindur fyrir kvíguuppeldi.



 Keyptar voru forsteyptar einingar í burðarbitana undir rimlaeiningarnar.



 Til að auðvelda uppsetningu hliða og milligerða voru öxuljárn steypt í þá.

 Jafnframt þessu verður komið upp 200 ferm. stálgrinda/ fjölnotahúsi sem til að byrja með verður nýtt undir kindur og hross.

 Þar er stefnt að því að hægt verði með auðveldum hætti að rýma til, þannig að myndist gott rými til þess að grípa í hundatamningar eða sýningar yfir veturinn.



 Þetta verður unnið eins og í gamla daga. Bændurnir á fullu með smiðunum, steypt heima og svo framv.

 Það er búið að sanka að sér efni ýmiskonar þó betur megi ef duga skal en gömul reynsla og ný hefur kennt mér það, að þá fyrst fara hlutirnir að ganga þegar allt er komið á fullt og magasýrurnar ólga hæfilega.

 Nú mæta smiðirnir í fyrramáli, svona aðeins á eftir áætlun og framundan er stanslaus törn með iðnaðarmönnum þar til málið er búið.

Náttúrulega með ófyrirsjánlegu töfunum.
Flettingar í dag: 576
Gestir í dag: 182
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 164
Samtals flettingar: 425053
Samtals gestir: 38911
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 23:06:05
clockhere