16.02.2013 08:04

Frjósemisgyðjan og ræktunarstefnan.

 Það vita allir sem reynt hafa, að í búfjárræktinni eru engar leiðir beinar og breiðar.

 Í sauðfjárræktinni hafa Dalsmynnisbændur uppi einfalda og látlausa stefnu þegar kemur að frjósemismarkmiðum kindastofnsins.

 Veturgamlar(gemsarnir) eiga að skila einu lambi að vori.

Restin tveim lömbum per kind.

 Vegna bágrar aðstöðu hafa fósturvísatalningar ekki verið framdar hér, en nú er sú afsökun ekki fyrir hendi lengur . Hér mætti því Skarðabóndinn á dögunum og kastað tölu á lambahópinn eins og hann kom honum fyrir sjónir þá stundina.



 Skemmst er frá því að segja að ræktunarmarkmiðin eru einhverstaðar í klessu  úti í móa, svo fremi sem teljarinn fari ekki með fleipur.

 Af 35 gemsum stefnir í að 14 verði með tveim lömbum þrátt fyrir " væga " fóðrun framyfir fengitíma. Þá var sem betur fer gefið í og byrjað á bygggjöf til viðbótar. Tveir þeirra dæmdust geldir og 1 með 2 dauð fóstur.


 Alltof margir gemlingar með blátt teip á h. horni. 

  Tvævetlurnar komu reyndar ásættanlega út við með tilliti til markmiðanna , allar með tveim nema ein ,- en tvær geldar. Þær voru reyndar líka geldar gemlingsárið.

   Þær fullorðnu settu svo allt í uppnám, því þar stefnir í 15 einlemdar af um 110 kindum sem er náttúrulega klúður.  Að þær skuli svo ætla að bæta bændunum það upp með 14 þrílembum kallast svo að flækja málið verulega og kemur  af stað mikilli hringavitleysu í sauðburði.

 Gott að  eldri húsfreyjan er orðinn mikill sérfræðingur í þeim málaflokk.



 5 fullorðnar + 2 veturgamlar semsagt taldar galtómar hvað fósturvísa varðar. Einhverntíma hefði maður nú barmað sér og vælt mikið yfir slíku tjóni í erfiðum fjárbúskap.

 Ef hinsvegar þau hundatamningaplön  sem sett hafa verið upp ganga eftir,  verða þessar ær að öllum líkindum drýgstar í tekjunum þetta árið.

Er ekki stundum talað um lán í óláni.
 
Flettingar í dag: 49
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 419794
Samtals gestir: 38209
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 09:13:21
clockhere