07.01.2013 08:07

Myrkur, matur og kenningar.

  Nú birtir varla um miðjan daginn, allt marautt og skýjað.

En hlýindin og blessuð blíðan gerir þetta myrkur nú ekki  eins þrúgandi fyrir þá sem láta skammdegið fara í pirrurnar á sér.

Svo þó ég vilji gjarnan hafa snjóföl á þessum árstíma til að lágmarka skammdegismyrkrið eins og mögulegt er, læt ég þetta yfir mig ganga algjörlega möglunarlaust.

 Nú er jólakaosinn að baki og nýja árið leggst óvanalega vel í mig. 



 Þó að það sé eitt og annað eftir í fjárhúsinu er þessi aðstaða  lúxus og verður algjör lúxus. Reyndar er það að koma ágætlega út að hanna þetta svona eftir hendinni þó það taki kannski stundum óþarflega mikinn tíma að " hugsa " lausnina á viðfangsefnu.



 Kollótti hrúturinn var tekinn úr gemlingunum í gær og mikil ró komin yfir aðra hrúta í húsinu sem fyllir mann bjartsýni um að allt sé á áætlun og komin tvö lömb í hverja fullorðna kind . Helst hvorki meira né minna.



 Það liggur meira fyrir í hundatamningum vetrarins en ég mun ráða við og ég stóðst ekki mátið og stalst út með nokkra gemlinga í fyrsta tíma vetursins í gær.( Ekki ráðlegt að vinna með kindur svona strax uppúr fengitíma). 

 Meðal þeirra sem bíða tamninga eru þessi þrjú Tinnaafkvæmi hér fyrir ofan. Eitt þeirra er óskrifað blað en verði hin tvö ekki afbragðsgóðir fjárhundar er ég fúskari í faginu.

 


 Vinir mínir á Austurbakkanum buðu til brennu og alvöru flugeldasýningar í gærkveldi.

Og í framhaldinu til síðustu kökuveislu jólanna í Lindartungu. Takk fyrir það.

Þó ég kaupi algjörlega kenninguna sem vinur minn sagði mér um daginn, er samt gott að þessari átveislu er lokið.

 Kenningin var sú að það dræpi mann ekki, sem borðað væri milli jóla og nýárs.

En það sem maður borðaði milli nýárs og jóla, það væri annað mál.

En ykkur sem hafið nennt að lesa alla leið hingað, óska ég gleðilegs og góðs árs.

 
Flettingar í dag: 2134
Gestir í dag: 136
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433062
Samtals gestir: 39939
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 13:02:20
clockhere