01.04.2012 21:38

Tveggja daga menningarferð í Skagafjörðinn.

 Það var Félag Sauðfjárbænda á Snæfellsnesi sem blés til mikillar ferðar norður í Skagafjörð helgina 24. og 25. mars.


 Þetta varð rúmlega 30 manna hópur en þó veðurblíðan væri einstök næstum alla ferðin sjást nokkrir rigningardropar á þessari mynd sem tekin var í að áliðnum seinni deginum við Staðarskála á heimleið.


 Fyrsta alvörustoppið var í sláturhúsi KS þar sem boðið var uppá dýrindis lambalæri með öllu sem með því á að vera. Þar fengun við fróðlegt spjall um skúri og skin á afurðasölumálunum og óskir um að breyta lítilsháttar til  með ræktunarmarkmiðin. Óskalambið ætti að vera með 1 læri en tvo hryggi og það mætti svo gjarnan vera hauslaust þar sem sviðasala væri nánast hrunin innanlands.



 Þaðan var svo brunað að Hlíðarenda þar sem er nýlegt róbótafjós sem gaman var að skoða. Þar biðu okkar léttar veitingar en í svona ferðum er standandi veisla á hverjum bæ.



 Hér er bygggeymslan en þarna er gefið sýrt bygg í tímastilltum gjafabás.



 Næst lá leiðin að S. Hofdölum en þar skoðuðum við nýleg taðfjárhús sem ég er sérstakur áhugamaður um. Þar eru  50 kindur um hverja gjafagrind og allar milligerðir úr plasteiningum samsettum með galvanhúðuðu tengijárnum..

 Sauðburðaraðstaðan var meðal annars í þessum gám og síðan í vélageymslu sem var innréttuð með stíum fyrir vorvertíðina.



Að lokum var síðan komið við á Varmalæk hjá Birni og Magneu þar sem kíkt var á hross og frábæra aðstöðu.


Dagurinn endað síðan á Bakkaflöt þar sem búið er að byggja upp úrvals þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn. Þar var borðaður frábær kvöldmatur, gist og svo beið okkar morgunverður áður en lagt var af stað á ný. Þarna var sundlaug og heitir pottar og bar fyrir langþyrsta ferðamenn og nefndu það bara.



 Nú lá leiðin að Syðra Skörðugili þar sem skoðað var nýuppgert flott hesthús og aðstöðu til að vinna inni með hrossin, ásamt úrvals fjárstofni hjá Elvari og Fjólu.
Féð er annarsvegar í fjárhúsum með steyptu rimlagólfi og hinsvegar á taði í hlöðu.


Þó ég hafi nú komið þarna margoft var hesthúsaðstaðan  ný fyrir mér. Þarna er gamalgróin hrossarækt stunduð ásamt tamningu og þjálfun.


 Eftir að hafa skoðað og spjallað nægju okkar hjá Elvari var farið yfir í  minkabúið þar sem Einar og Ásdís tóku á móti okkur, leiddu okkur í allan sannleika um minkaræktina en nú eru sem betur fer góðir tímar í þessari búgrein. Mjög góðir meira að segja.





 Eftir langt stopp á Skörðugili var haldið að Stóru Gröf Ytri og skoðuð fjárhús. Þarna er féð  í hefðbundnum grindafjárhúsum, á taði í hlöðu og hluti þess liggur síðan við opið í öðrum húsum. Og veisla að sjálfsögðu eins og allstaðar. Þeir sem þurftu á viðgerðarbauk að halda eftir gærkveldið hresstust  nokkuð þarna.


 Nú var haldið að  Keldudal á Hegranesi sem var síðasti viðkomustaðurinn í ferðinni.



Þar er blandað bú, aðallega kúabú en um 150 fjár. Féð er afar vel gert og í gemlingshópnum  hér, er engin með undir 18  stig fyrir læragerð. Keldudalsbændur eru miklir fróðleiksbrunnar um allt sem viðkemur búrekstri og bættu vel í það sem við höfðum innbyrt af skagfirskum vísdómi í ferðinni. 

Fín ferð og takk fyrir mig.

Fyrir þá sem hafa haldið/vonað að ég væri búinn að gefa öll bloggskrif frá mér er rétt að upplýsa að fyrir um 10 dögum hrundi harði diskurinn í tölvunni hjá mér.

 Það tókst þó að ná svo til öllu sem á honum var, en ég hef verið dálítið mikið kærulaus með að taka afrit af því sem inná honum hefur lent gegnum tíðina.

 Svo það er fullt af óskrifuðum bloggum í bakpokanum.
Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 430929
Samtals gestir: 39804
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 00:01:56
clockhere