29.02.2012 21:38

Hundagrúsk. Skotar eða Border Collie.

 Við Dagbjartur á Hrísum erum sem betur fer dálítið afbrigðilegir og sem enn betur fer, svona sitt í hvora áttina..

 Síðasta árið höfum við verið að reyna að grafa upp sögur af afbragðs fjárhundum frá síðustu öld og þó það gangi illa er samt alltaf eitthvað sem skilar sér upp á yfirborðið.

 Í verkefni sem ég er að vinna þessa dagana hef ég stiklað á stóru og tekið saman nokkra punkta um hugsanlegt upphaf þessara hunda sem við erum að nota í dag og ákvað að skella því hér inn til fróðleiks og umræðu.

Upphafið.

 Talið er að heimilishundurinn sem menn hafi í upphafi  ræktað út frá úlfum,  hafi fylgt manninum í 14 - 17.000 ár og sé fyrsta dýrið sem hann tamdi og tók í sína þjónustu.

 
Á þessum þúsundum ára  hafa síðan verið ræktuð fram ótal einkenni og eiginleikar og eru nú um 800 ólík hundakyn til í heiminum .Hér á landi eru nokkur kyn sem hafa verið ræktuð til að vinna með við sauðfé. Íslenski fjárhundurinn/varðhundurinn er elstur þeirra og var að mestu ráðandi, þó með einhverri íblöndum innfluttra hunda frá upphafi byggðar  allt  fram á 19. öld þegar farið var að flytja inn erlend kyn í nokkrum mæli.  

  Þessi kyn blönduðust síðan  með margvíslegum hætti og lá við að upphaflegi,  gamli,  íslenski hundastofninn liði undir lok í upphafi síðustu aldar.
Fyrir góðra og framsýnna manna tilstuðlan tókst þó að bjarga honum.
 
Þó íslenski fjárhundurinn/varðhundurinn hafi dugað vel í gegnum aldirnar er hann fyrst og fremst rekstrarhundur þó dæmi séu um annað. Upphaflega trúlega notaður sem varðhundur í viðsjárverðum heimi og vakthundur á óvörðum engjum þar sem geltið hefur komið sér vel.

  
Aðeins hafa svo verið fluttir inn Huntaway sem eru geltandi rekstrarhundar og síðan eru til aðrar tegundir sem nothæfar eru við kindavinnu Það er þó Border Collie eða landamæra collie, sem ber höfuð og herðar yfir önnur hundakyn í sauðfjárvinnunni í dag, bæði hér og erlendis

 Það hefur verið  um  1925 sem Guðmundur Ásmundarson frá Krossi í Haukadal fer til Skotlands og dvelur þar í nokkur ár. Þar kynnist hann skoskum fjárhundum, lærir að vinna með þá og temja . Um 1928 kemur hann aftur til landsins og flytur  með sér nokkra hunda og tíkur til notkunar og ræktunar.  Guðmundur ferðast nokkuð um, kynnir hundana og sýnir þá í vinnu ásamt því að rækta og selja hvolpa sem dreifast um landið.


Lubbi frá Hausthúsum f. 1970 var talinn hreinræktaður skoti.Fyrsti  alvöruhundurinn minn. Feiknagóður og fjölhæfur fjárhundur ættaður frá Saurstöðum í Haukadal, nokkuð örugglega kominn af ræktun Guðmundar á Krossi..

 
Þessir skosku hundar sem hafa að öllum líkindum verið Border Collie, urðu margir afbragðs fjárhundar hjá þeim sem höfðu lag á að temja þá. Hundarnir að Kleifum í Gilsfirði sem voru að einhverju leyti  komnir útaf þeim, urðu víðfrægir, og þaðan og víðar úr Dölunum dreifðust skotarnir síðan um mestallt landið . Ekki fór hjá því að þeir blönduðust síðan þeim kynjum sem fyrir voru meira og minna ,þrátt fyrir að aðeins væri verið að flytja inn hreinræktaða  hunda til að reyna að halda stofninum við. 
  Það er síðan um 1977 þegar  Gunnar Einarsson á Daðastöðum fer að flytja inn  Border Collie hunda , rækta þá og kenna meðferð og tamningu þeirra.  Þó að á ýmsu hafi gengið  hjá hinum almenna  bónda við tamningu og notkun  þeirra er B.C. að  verða nánast einráður  við sauðfjárvinnuna.
  Gunnar fylgdi þessu vel eftir með námskeiðum og útgáfu fyrsta íslenska kennslumyndbandsins 1991 um tamningu fjárhunda .  
Nú er  orðinn til töluvert stór hópur bænda  sem kann vel til verka við tamningu og þjálfun og víða til góðir og afbragðsgóðir fjárhundar sem eru eigendum sínum ómetanlegir þó talsvert mikið sé þar enn óunnið hjá íslenskum sauðfjárbændum.

 
Segja má að þrátt fyrir talsverðan innflutning á B.C. sérstaklega síðustu árin,  bæði hvolpum og fulltömdum hundum, er hægt að rekja ættir langflestra BC fjárhunda á Íslandi í dag til ræktunar Gunnars á Daðastöðum.

Heimildir. Undir Grettisskyrtu eftir Sigurgeir Magnússon 1989.
                   Dagbjartur Dagbjartsson.


Hrísabóndinn fyrir nokkrum árum, kominn með beislið í hendurnar og smalahundinn í lið með sér og ætlar greinilega að fara að leggja á. Svona blendindingshundar voru trúlega orðnir algengir seinnipart 19 aldar og vel fram á þá tuttugustu.

Og þeir sem lúra á sögnum af góðum fjárhundum eða öðrum fróðleik sem hefur ekkert að gera í glatkistuna, ættu að hafa samband við annanhvorn okkar Dagbjarts .

 

Flettingar í dag: 259
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418922
Samtals gestir: 38067
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:23:42
clockhere