14.11.2011 23:02

Píla frá Dalsmynni.

Það eru 11 mánuðir síðan Píla yfirgaf ættaróðalið um átta vikna aldurinn.

Það er gaman að því að þegar hún var skilin hér eftir í vikunni kemur ekkert henni á óvart hér á svæðinu. Hvorki ræktandinn né umhverfið. Rétt eins og hún hefði farið í gær.



 Á þessum 11 mánuðum hafa hinsvegar orðið mikil umskipti í hundahaldinu og þó Pílu komi ekkert á óvart á þeim slóðum sem hún eyddi fyrstu 8 vikum æfinnar er alveg ljóst að hún saknar einskis, því sem betur fer fyrir hundana eru þeir ekki að burðast með þannig heilabrot.

 Hún saknar örugglega ekkert Tinna föður síns sem  var alltaf tilbúinn að bregða á leik með hvolpahópnum og var alltaf mjög gætinn þegar hann þurfti eitthvað að hægja á þeim.

 Og Vask gamla sem sýndi hvolpununum enga linkind, beit fyrst  og urraði svo, og hann beit til að meiða ,hefði hún strax umgengist af mikilli virðingu væri hann enn hérna megin móðunnar miklu..

 Skessa gamla sem umbar langömmubörnin af mikilli þolinmæði myndi trúlega hafa fengið upprifjun á smá áreiti.

 Hvernig hún hefði komið fram við móðurina hana Snilld er svo spurning sem aldrei verður svarað því hún er flutt vestur í Ísafjarðardjúp þar sem hún fer á kostum við að ná eftirlegufénu.

 Já af þeim 5 fullorðnu hundum sem voru hér þegar Píla yfirgaf svæðið fyrir 11 mán eru fjórir horfnir á braut og aðeins Dáð eftir ásamt tveim tíkum í uppvexti.


 Píla hefur vaxtarlag móðurinnar, ekki mjög stór en sterklega byggð og í fyrsta tímanum gekk allt að óskum.

 Hún er komin með fínan áhuga og er ein af þeim týpum sem manni hættir við að vera kannski aðeins of kröfuharður við, vegna þess manni finnst hún vera komin lengra í tamningunni en hún er.



 Hún var í dálitlum skæruliðastellingum til að byrja með en um leið og hún áttaði sig á að það féll ekki í góðan jarðveg, víkkaði hún sig og lítur út fyrir að verða með góða vinnufjarlægð.



 Þegar maður er orðinn ja, ekki barnungur lengur, finnst manni það alltaf svo mikils virði að geta rakið sig áfram vafningarlaust í tamningunni án þess að þurfa að byrja á að vinda ofan af einhverjum vandamálum.
Fyrsti tíminn í nokkurra vikna námsdvöl Pílu hér gat eiginlega ekki gengið betur, hvernig svo sem framhaldið verður.

Já Já. Þetta er algjörlega hlutlaust álit.
Flettingar í dag: 2142
Gestir í dag: 138
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 433070
Samtals gestir: 39941
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 13:23:23
clockhere