06.11.2011 22:33

Olíujurtin Akurdoðra. Taka 1.

Ég hef fylgst með umræðunni og tilraunum með ræktun á olíurepjunni án þess að hugleiða að taka þátt í því.

 Ástæðan er eingöngu sú að hér hefur verið talið, að ekki kæmi til greina að vera með einæra repju í ræktun þar sem sumarið
dygði ekki til að hún næði þroska.

 Tvíær akurjurt er eitthvað sem er ekki mjög freistandi að mínu mati, ýmissa hluta vegna.

Þegar birtist einær planta ( Camelia eða Akurdoðra) sem talið var líklegt að næði að þroskast á meðalsumri, væri þurftarlítil á áburð og ekki mjög vönd að virðingu sinni hvað jarðveg snerti ákváðu Dalsmynnisbændur að prófa hana.

 Þetta var afgangsstærð í akuryrkjunni og ekki tekinn tími til að sá henni fyrr en byggið var komið niður eða 15 maí.
 Sáð var í  rúman ha. af mýrarakri sem var nýr í ræktun eða aðeins verið sáð í hann byggi árið áður. Þá hafði verið borinn á hann búfjáráburður og var aðeins  notað 100 kg./ha af köfnunarefnisáburði ( 27 % N) á Doðruna. 

 
Doðran fór alveg afspyrnurólega af stað , hér er komið fram í júní og byggakurinn t.v. sem sáð var í um sama leyti kominn á fulla ferð( a.m.k. miðað við tíðarfarið).



 Ekki mjög gæfulegt en það var búið að vara mig við að plantan væri hin rólegasta fram í júni en gæfi svo duglega í þegar hún færi af stað fyrir alvöru.



 Það reyndist orð að sönnu og svona leit akurinn út á myndvænum kafla 13 ágúst og blómblöðin farin að falla.

 Akurinn var hinsvegar ákaflega misjafnlega sprottinn án þess að ég gæti með nokkru móti talið mér trú um einhverjar sennilegar skýringar á því.



 Bæði virtist fræið hafa verið að spíra á misjöfnum tíma og á blettum virtist sáningin hafa algjörlega mistekist. Þar sem akurinn var tiltölulega nýbrotinn og á köflum frekar grófunninn var hallast að því að þar lægi hluti skýringanna.



 Hér er blómið að mestu farið (13 ág.) plantan orðin um 90 cm há og þessi bletturinn allavega nokkuð álitlegur.

Þar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir neinni tölu á tekjuhlið tilraunaáætlunarinnar var ekkert verið að stressa sig á uppskeru akursins enda tíðarfarið vægast sagt bíbölvað og byggið látið hafa forgang.
 Einn af nokkrum kostum Doðrunnar átti að vera að hún stæði af sér öll veður og héldi fræinu vel fram á veturinn.
  Þetta hljómaði ákaflega vel í eyrum Snæfellingsins og ekki var það verra að álftir og gæsir hefðu engan áhuga á að nýta sér plöntuna með neinum hætti.

 Þetta með áhugaleysi fiðurfénaðarins reyndist rétt, en móti kom að eftir að ullarpöddurnar komu á svæðið höfðu þær gríðarlegan áhuga á að nýta sér annan gróður akursins með tilheyrandi troðningi.

 Kenningin um að plantan stæði af sér rok og héldi fræinu fram á vetur þó fullþroskað væri, er hinsvegar( því miður ) flökkusaga sem stenst ekki.

Þegar akurinn var tékkaður í nóv.byrjun var allt þroskað fræ fallið af plöntunni.

Og eins og segir hjá alvöru tilraunagúrúum þá liggur nú fyrir að vinna úr gögnum tilraunarinnar og ákveða framhaldið.

Reyndar er ein stærsta spurningin sú hvort ég losna nokkuð við akurdoðruna úr þessum akri næstu árin.

Já, olíuævintýrið er bara rétt að byrja.
Flettingar í dag: 898
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 423294
Samtals gestir: 38534
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 18:38:39
clockhere