02.11.2011 21:21

Skipulagslegur kaos í háloftunum.

 Já, ég er alveg sammála launþegum þessa lands þegar þeir eru að berjast við að ná aftur launakjörunum sem þeir/ við höfðum fyrir þetta fokkings hrun. Að vísu er samúð min með yfirmönnum pappírshöndlaranna í bönkunum ívið minni en hjá óbreyttum en samt allnokkur.

  Þess stundina er ég líka arfareiður út í þá/þann sem stjórnar veðurkerfunum sem eru sífellt að angra okkur hér á Nesinu og kannski fleiri. Engin rigning allt sumarið og varla þurr dagur allt haustið. Annað hvort er skipulagsleysið algjört hjá viðkomandi eða harði duiskurinn í tölvunni hruninn.

 Ég á svo mjög auðvelt með að þola einn og einn rokdag, sérstaklega ef hvorki hey eða bygg eða eitthvað af verðmæta dótinu mínu tekst á loft vegna þess, en yfirstandandi  rokdagar sem eru orðnir fleiri en ég vil nefna eru virkilega farnir að pirra mig, Þegar ég lýsti því svo yfir við sjálfan mig og fleiri snemmdægurs, að þetta væri orðið algjörleg óþolandi bætti hraustlega í vindinn.

 Nú er semsagt kominn vetur í mann, allt véladót komið í hús og síðustu byggaakrar sveitarinnar voru krufðir til mergjar í dag.. Uppskeran var að vísu þannig að þetta var meira svona táknræn aðgerð en verðmætabjörgun.

 Og hálmurinn sem er orðinn umtalsverð verðmæti kemst ekki í tökufært form vegna ótíðarinnar og ekki kætir það byggræktendur frekar en annað sem snýr að akuryrkju þetta árið.

 Við  Dáð settum í okkur kjark í rokinu og smöluðum heim lömbum og veturgömlum sem verða svo rúin á morgun. Engin forhert au.............. í þeim hóp.



 Það var ekki til að kæta okkur, sérstaklega mig að  Hriflonssonurinn sem var algjört metfé með stigun uppá 86.5  stig hafði stytt sér aldur í einum skurðinum. Sem betur fer var enn til Borðasonur  næstum ekkert lakari og sannast það á honum að eins dauði er annars brauð. Borði mun því verða sterkur hjá okkur þennan veturinn og kannski þann næsta með tvo syni sína í gangi hér.



 Gimbrarnar voru hinsvegar fjarska fallegar svona vindblásnar og ullarmiklar.

 Já nú er bara að koma launakjörum bænda og bankastjóra í 2007 gírinn. Stilla veðurkerfin rétt af og einbeita sér svo að því að lifa af skammdegið.
 
Flettingar í dag: 876
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 423272
Samtals gestir: 38532
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 17:18:46
clockhere