31.10.2011 08:13

Keppnisrennsli- Magnaðar myndir.

 Ég held því löngum fram að vel ræktaður, vel taminn hundur eigi að ráða við allar aðstæður sem koma upp í keppnisbrautinni og vinnunni.

 Það reyndi vel á þessa skoðun á Kaldármelum í gær, þar sem nokkrir áhugamenn í faginu leiddu saman hunda sína.
 Þarna voru erfiðar aðstæður, veðurhæðin í hærri kantinum og kindurnar samfættar í því að gera hundum og smölum lífið leitt.

Spáð var mikilli úrkomu þegar liði á daginn sem setti nokkra tímapressu á mótshaldara.
 Í þremur tilvikum varð það til þess að kindur sem var verið að fara með frá vellinum eftir rennsli trufluðu hunda sem voru komnir af stað í úthlaupi.


 Adrenalínið var komið á fullt og hnúturinn í maganum á sínum stað þegar ég sendi Dáð af stað í um 500 m. langa brautina. Hún var ekki búin að koma auga á kindurnar þar sem sleppararnir skildu við þær en ég vonaði að hún sæi þær áður en hún færi langt úrleiðis.

 Úthlaupið sem getur gefið 20 stig  er undantekningarlitið gott hjá henni og það eina í keppninni sem kindurnar hafa lítil áhrif á.

 Hún var komin um þriðjung leiðarinnar þegar hún fer að sveigja til vinstri en úthlaupið var á hægri hönd.

 Ég áttaði mig strax á því að hún sæi til síðast reksturs sem hafði lent uppí í hrauni og var verið að koma með til baka, þó hann væri utan míns sjónarhorns.
 Við Dáð höfðum verið í að koma kindunum af vellinum fram að þessu og þessvegna hefur úkikkið hjá henni verið í þessa áttina.
 Sem betur fer er ég með skipun sem stoppar hana og sendir í kindaleit aftan við sig og þetta virkaði en úthlaupið myndi ekki vigta mikið í stigagjöfinni.


 Hér koma þær gegnumfyrsta hliðið. Þessi aftasta var að byrja að dragast afturúr sem getur þýtt botnlaus vandræði ef ekki tekst að hægja á hinum.

 Henni gekk nokkuð vel að koma kindunum af stað og halda línunni til mín en á þessum hluta brautarinnar er gríðarlega mikilvægt að halda réttum hraða og missa hundinn ekki of nálægt viðfangsefninu.


 
Hér koma þær aftur fyrir mig og þessi gula aftasta fyllti mig grunsemdum um komandi vandræði.

 Ég vissi að um leið og hópurinn kæmi aftur fyrir mig  myndu þær leita útúr brautinni og þrátt fyrir að Dáð gerði sitt besta var það þar sem vandræðin byrjuðu fyrir alvöru.


 Hér nær hún að stoppa þær af en var komin of nálægt þeim og nú fór allt í klessu.

 Þegar hún reynda að koma þeim inná brautina aftur stóðu þær hinar forhertustu framan í henni og þarna fóru alltof margar dýrmætar mínútur til spillis því tímamörk rennslisins eru 12 mín.

 Þessi myndasería hennar Iðunnar hér á eftir er einstök, en þarna horfði ég aftan á kindurnar og gat ekkert annað en sagt Dáð að taka í,  þrátt fyrir að ég sæi hana ekki.

 Sterkt augnsamband sem aðeins kemst á milli Border Collies og forhertrar sauðkindar =( Austurbakkarollu).


 Dáð hefur oft lent í svona aðstæðum áður en þarna er nú ekki farið að síga í hana fyrir alvöru.



 Það tókst að koma þeim af stað í þríhyrninginn eftir nokkrar endurtekningar á þessu og ljúka honumi  og að skipta hópnum gekk þokkalega vel.



 Það var akkúrat á þessu augnabliki sem við féllum á tíma en hér vantaði herslumuninn á að koma kindunum í réttina. 10 stig töpuð þar.

Við Dáð enduðum í 63 stigum af 100 mögulegum og 4 sæti af 7 sem segir kannski nokkuð um ganginn í keppninni.

  Í a.fl. voru að mæta til keppni hundar /tíkur sem eru komin á heimsmælikvarða í getu og reyndar voru þessi 14 sem mættu þarna hvert öðru betra þó þau séu vissulega komin mislangt í tamningunni.

 Það er nú ekki alltaf stigafjöldinn eða einhver mistök í brautinni sem raða hundunum upp í gæðaflokk hjá brekkudómurunum.  
  Ef gamli reynsluboltinn ætti að taka eitt dýrið útúr þessum góða og eða efnilega hóp er það Dot í Móskógum, ( frá Wales) sem gladdi augað mest þessa keppnina. Mýktin í vinnunni ásamt mjög góðri yfirvegun og fyrirmyndar vinnufjarlægð fannst mér vera í nokkrum sérflokki í þessu brasi þarna, en það eru eimitt þessir eiginleikar sem eru alltaf svo mikils virði í allri kindavinnu.

 Dáð mætti hafa meira af vinnufjarlægðinni hennar í genunum.

Flettingar í dag: 230
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418893
Samtals gestir: 38061
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 18:33:01
clockhere