13.10.2011 22:05

Árhringur sauðkindarinnar á síðustu metrunum.

Nú fer að sjást fyrir endann á rolluárinu og styttist ótrúlega í að kindur verði teknar á hús og rútínan hefjist á nýjan leik.

 Réttarhöldum og leitum lokið, þó enn eigi eftir að fara á fjöll og ná kindum sem slæðast hér inná vesturhluta Eyjarhreppsins gamla.

  Það er ekki svo langt síðan að hér í sveitarfélaginu  (Eyjarhr.) voru nokkur þús. fjár á fóðrum en nú eru vetrarfóðraðar kindur  vel innan við 400 samtals, á 3 bæjum..

 Ágangurinn inn á svæðið er mikill og héðan frá Dalsmynni var flutt um 500 fjár misjafnlega langt að komið.

 Héðan var svo sent " allt " sláturfé rúmlega 200 st.á þriðjudaginn, en það endar í Hvíta Húsinu á Hvammstanga.

 Meðalvigtin kom mér skemmtilega á óvart en hún var rúmu kg. hærri en í fyrra . Gerðin lækkaði hinsvegar aðeins og fitan hækkaði um heilt stig.  Fylgdi sem sagt böggull skammrifi.  19,27 kg. - gerð 9.84. - fita 8.05.  Þetta er eins og gerist löngum í ræktuninni, alltaf eitthvað eftir til að stefna að.

 Nú er hrútasýningin framundan um helgina, bólusetning líflamba fljótlega í næstu viku o.sv.frv.

Og ekki dugar að loka svona rolluspjalli nema láta þess getið að heimtur eru með skásta móti, nánast kollheimtur á fullorðnu og  örfá lömb sem vantar.

 Og það rignir og rignir sem aldrei fyrr.

 
Flettingar í dag: 1768
Gestir í dag: 112
Flettingar í gær: 2949
Gestir í gær: 288
Samtals flettingar: 432696
Samtals gestir: 39915
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:07:06
clockhere