17.08.2011 23:59

Ferðafólk, fjárhundar og lymskulegar austurbakkarollur.

  Danirnir sem komu til mín í dag voru trúlega síðustu túristar sumarsins á hundasjó.

Ég dekraði alveg sérstaklega við þá,  færði sýninguna og spjallið yfir á heimatúnið og plataði mína heittelskuðu til að sjá um spjallið en hún talar dönskuna eins og móðurmálið.



 Nú er þetta komið í nokkuð fast form og hefur tekið algjörum stakkaskiptum frá því að Óli hótelstjóri tók uppá því að senda mér ferðahópa á hundasýningu og gleymdi meira að segja stundum að láta mig vita.
  Það er byrjað á spjalli um búreksturinn og ísl. búskap  og síðan er farið sérstaklega yfir sauðfjárræktina og allt tengt henni.
 Ég hef að sjálfsögðu gætt þess vandlega að láta ekki góðar smalasögur gjalda sannleikans þegar ég bendi á nærliggjandi fjöll með ógnvænlegum klettum og gljúfrum og lýsi síðan þeirri glímu sem ég, en þó sérstaklega hundarnir mínir lenda í, þegar rollurnar hennar Þóru vinkonu minnar og annarra vina minna á Austurbakkanum verða lymskulegar til augnanna um leið og þær verða smala varar, og reyna að koma sér í næstu kletta eða klungur.



 Þó ég gæti þess nokkuð vel að sannleiksástin spilli ekki upplifun dananna, tekur þó steininn úr þegar gædarnir sem eru farnir að kunna þetta utanbókar taka við sagnfræðinni. Þeir tóku flugið vel í dag þegar þeir lýstu því hvernig réttarhaldið færi fram eftir að búið væri að ná fénu til byggða við illan leik.

 Það var svo skemmtileg upplifun þegar kom að kveðjustund að margir dananna ´þökkuðu mér innvirðulega með handabandi " tusind tak" og mikilli lotningu fyrir þetta.
Reyndar voru það sérstaklega eldri konurnar sem kunnu sig svona vel og áttuðu sig á þvílíkur snillingur og stórgúrú var hér á ferðinni ??

 Og ég trúi því auðvitað að þær séu mestu mannþekkjararnir ...


 
Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418807
Samtals gestir: 38043
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 13:08:01
clockhere