22.05.2011 08:11

Rok og ræktunarstefnur.

Þó norðanblásturinn mætti gjarnan ganga hraðar niður og hitinn stíga örar er þetta þó allt á réttri leið.

Féð sem komið var út ber sig alveg ótrúlega vel og þegar ég var orðinn viti mínu fjær af áhyggjum yfir því ( gerðist reglulega) dugði mér algjörlega að taka rúnt niðurfyrir og sjá rollurnar arfaslakar liggjandi í náttúrulegunm skjólum sem er nóg af , gamlir árbakkar, ruðningar o. sv. frv.
 
Það var bara búið að setja út elstu lömbin og " sæmilega " ullað fé sem hefur gert ástandið þolanlegt.


 Heyrúllan sem ég fór með niðureftir fyrir löngu er hinsvegar nær ósnert, sem er gömul reynsla og ný að þegar lambféð er komið þarna niðurfyrir lítur það ekki við heyi.
Ég hefði hinsvegar ekki boðið í ástandið ef það hefði fylgt úrkoma með í þessum hretpakka.

 Nú lítur út fyrir að tíðarfarið  fari skánandi og mikið verði sett út þegar kemur fram í vikuna enda orðið brýnt að koma elstu lömbunum út.


 Sauðburðurinn er að ganga mjög vel og frjósemin sem virtist ætla að verða í slakara lagi til að byrja með venti sínu kvæði í kross, þrílembumet síðustu ára eru fokin ( vont mál)  og tvílembuhlutfall gemlinganna er yfir 60 % sem er afleitt mál. 

 Í nótt var öðru lambinu undan júgurbólgurollu t.d.skellt undir tvílembu til að redda málum í bili en það er ljóst að það verða nokkrar með þrem lömbum í sumar og sömuleiðis munu nokkrir gemsar ganga með tveim lömbum.
 Sú ræktunarstefna að hafa alla gemsa einlemda og allar rollur með tveim er ekki að ganga upp hér þó stundum líti það þannig út á pappírunum.
Flettingar í dag: 259
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418922
Samtals gestir: 38067
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:23:42
clockhere