10.04.2011 08:15

Til eru fræ sem .....

 Það er alltaf lotterí að stunda byggrækt.

 Þegar ég byrjaði í bygginu fyrir örfáum árum var það þó tiltölulega lítið lotterí miðað við stöðuna í dag.
 Það kostaði kannski 15.000 kall á ha. útlagði kostnaðurinn og þegar allt fauk niður í stóra rokinu fékk maður sér bara tvöfaldan Whiskí fyrir heita pottinn og málið var dautt.
Nema fyrir gæsina sem kættist ákaflega.



 Það byrjaði þó fljótt að síga á ógæfuhliðina kostnaðarlega og hrunið hnykkti svo hraustlega á skelfingunum.
Þó við bændaskarfarnir höfum í gegnum tíðina verið góðir í því að hringja á væluvagninn þá sýnum við þó stöðugt meiri viðleitni í því að standa í lappirnar þó á móti blási.
 Nú er frækostnaðurinn á ha. kominn í 30.000  kallinn og rétt að minnast ekkert á olíu og áburð
 svo góða skapið sem ég er í akkúrat núna, endist frameftir deginum.
Það hefur lengi verið draumurinn að nota uppskeru haustsins til sáningar að vori og nú hafa staðið yfir flókin spírunarpróf undanfarnar vikur.

 

  Undirritaður hefur unnið þetta með gríðarlegri ábyrgðartilfinngu og þegar útkoman fór fram úr björtustu vonum var prófið endurtekið til öryggis.



 Manni fannst þetta ósköp fáar plöntur sem skiluðu sér uppí birtuna en niðurstaðan var samt um 93-95 % spírun sem er algjörlega frábært.

 Þá var lagst yfir aðra áhættuþætti sem koma upp við notkun á eigin byggi og þeim rannsóknum lauk síðan með samtali við hann Jónatan H. sem er náttúrulega stútfullur af fróðleik um málið.

 Það kemur alltaf ánægjutónn í röddina hjá honum þegar hann heyrir í mér  því hér vestra er Lómurinn hans notaður og virkar bara vel þrátt fyrir óhrjálegt útlit  á akrinum.

 En þó Lómakurinn sé lítill fyrir bygg að sjá kemur uppskeran oftast skemmtilega á óvart.

 Notkunin á honum býður þó ekki upp  á miklar væntingar um tvöfalda Whiskísjússa svo Judithin er notuð í talsverðum mæli til að dekra við áhættufíknina.

Og nú fer þetta allt að bresta á.emoticon
Flettingar í dag: 1691
Gestir í dag: 455
Flettingar í gær: 588
Gestir í gær: 185
Samtals flettingar: 426756
Samtals gestir: 39369
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 06:54:20
clockhere