21.03.2011 08:27

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.

 Það verður oft eitthvað til að kalla fram úr skúmaskotum hugans gamlar minningar.

 Sumar eru geymdar tryggilega til upprifjunar síðar, en aðrar verða ekki kallaðar fram nema með nokkrum heilabrotum.

Í vikulegum blogghring mínum kem ég alltaf við hjá Aðalsteini í Kolsholti og í síðustu ferð var bloggið hjá honum  ( 19.3. 2011) enn skemmtilegra en vanalega. Ég vil því hvetja ykkur sem ekki
eru þegar búin að berja það augum að kíkja á það. http://kolsholt.123.is/ .

Og fyrir alla muni lesið fyrsta kaflann allavega tvisvar.

Þarna rifjar Aðalsteinn upp 32. ára ferðasögu vestur á Nes og kallaði þar með fram hjá mér margvíslegar minningar frá þessum árum.

Á þessum tíma var ekki búið að hækka vegakerfið uppúr landinu og snjónum, og það komu síðan flesta veturna langir ófærðakaflar sem sem reyndust vegfarendum þungir í skauti.

 Það var nokkuð algengt að ferðalangar á vesturleið brytust við illa leik vestur mýrar og Kolbeinstaðarhrepp en þegar á vesturbakkann kom varð allt alvöru og tappinn í flöskuhálsinum var oftar en ekki við Dalsmynni.

Í höllunum sunnan Dalsmynnisafleggjarans var þungt og kæmust menn þar upp tók oft við mikill skafl neðan heimatúnsins sem setti punktinn á ferðalagið.
Það var alltaf ákveðinn léttir þegar tók að líða á ófærðarkaflann að flöskuhálsinn færðist suður á Mýrar.
Ég skipti stundum dálítið ört um bíla á þessum árum en um 1978 eignaðist ég fyrsta alvörujeppann , gamlan Bronco sem ég átti óvanalega lengi. Það var með honum sem ég uppgötvaði að snjóruðningarnir meðfram vegunum voru oftast greiðfærari en vegurinn og saman fundum við allskonar hjáleiðir um tún og flóa þó þetta væri fyrir tíma blöðrudekkjanna.


Þegar sló virkilega í harðbakkann var Broncóinn keðjaður á öllum og þó kennileitin væru óljós úti í flóunum í byljum, skilaði hann mér alltaf í hlað rétt eins og hesturinn skilaði eigendum sínum að hesthúsdyrunum gegnum aldirnar þó dimmt væri yfir.

 Ég átti það til að kveðja þá bíla sem höfðu meira tilfinningalegt gildi en aðrir, með góðri vísu og við að rifja þetta upp kom Broncóvísan fram, en hún komst nú trúlega aldrei á blað frekar en annað á þessum árum.
 Trúlega hefur hún samt komið fram á varirnar við réttar aðstæður sem enn urðu til á þessum tíma, þó það tímaskeið æfinnar væri á hröðu undanhaldi og bláköld alvara lífsbaráttunnar að taka við.

 Hún hefði t.d. átt vel við á eftir " Eg hef selt hann yngri Rauð" o.sv frv.

Aldrei þú brást mér í ófærð og byl.
Til afreka virtist þú gerður.
Af bölsýni fullur við Broncóinn skil.
Í bílskúrnum tómlegt nú verður.
Flettingar í dag: 347
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424084
Samtals gestir: 38639
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 14:32:19
clockhere